Hvammsheiði 3

Frá Einarsstöðum til Laxamýrar.

Hér er farið um grónar götur í Vatnshlíð, Þúfuvað á Laxá og um moldargötur á Hvammsheiði. Við æjum í Hraunsrétt við Laxá í Aðaldal. Réttin hefur verið glæsilega endurgerð með ærinni fyrirhöfn. Síðan er farið um Hvammsheiðina endilanga. Hún er ávöl og þurr, með runnum og lyngi, en laus við mýrar. Heiðin dunar undir hófaslætti, þegar hrossarekstur þýtur yfir hana. Öll þessi leið er kjörlendi hestamanna.

Förum frá Einarsstöðum austur yfir sléttlendið, yfir Reykjadalsá og upp á þjóðveg 846. Við förum með þeim vegi til norðurs að Ökrum, þar sem við förum áfram með fjallshlíðinni ofan við Halldórsstaði. Síðan beint áfram norður Vatnshlíð meðfram Vestmannsvatni að austanverðu, um hlað í Fagranesi og áfram heimreið að þjóðvegi 854. Við förum austur þann veg um einn kílómetra og síðan norður um Fögrufit að Þúfuvaði á Laxá í Aðaldal. Handan árinnar förum við norðaustur að Hraunsrétt. Síðan áfram norðaustur að þjóðvegi 853, sem við fylgjum norður að Yzta-Hvammi. Þar förum við slóð á ská upp hlíðina og erum komin á Hvammsheiði. Hana förum við endilanga til norðurenda hennar, þar sem við förum niður af henni, yfir Mýrarkvísl og upp á veg 85 hjá Laxamýri.

29,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Gönguskarð, Vatnshlíð, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Sandsbæir, Sílalækur, Reykjakvísl, Þegjandadalur, Hafralækjarskarð, Kinnarfell, Fosselsskógur, Máskot, Heiðarsel, Fljótsheiði, Fossel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson