Hvammsheiði 2

Frá Heiðarbót í Reykjahverfi um Hvammsheiði að Einarsstöðum í Reykjadal.

Fyrri hluti leiðarinnar er einn skemmtilegasti skeiðvöllur landsins, Hvammsheiðin endilöng, moldargata eftir dráttarvélar. Heiðin er ávöl og þurr, með runnum og lyngi, en engum mýrum. Heiðin dunar undir hófaslætti, þegar hrossarekstur þýtur yfir hana. Hraunsrétt er fagurlega hlaðin rétt í jaðri Laxárhrauns og hefur verið endurgerð með ærinni fyrirhöfn. Þaðan er farið um Þúfuvað yfir Laxá í Aðaldal. Síðari hluta leiðarinnar er farið um Vatnshlíð meðfram Vestmannsvatni. Þar var áður mikill skógur, en er nú orðinn næsta feyskinn.

Förum frá Heiðarbót niður á þjóðveg 87 um Reykjahverfi og út af veginum aðeins sunnar og förum beint upp á Hvammsheiði. Þar uppi komum við að slóð, sem liggur um heiðina endilanga og beygjum til suðurs eftir þeirri slóð. Hún liggur niður í Yzta-Hvamm. Þar komum við á þjóðveg 853 og fylgjum honum að afleggjara til suðurs að Hraunsrétt. Sunnan réttarinnar förum við á Þúfuvaði yfir Laxá í Aðaldal og tökum land í Fögrufit. Förum upp á þjóðveg 854 og fylgjum honum til vesturs að afleggjara að Fagranesi. Við Fagranes förum við austur með Vestmannsvatni og um Vatnshlíð að Ökrum í Reykjadal, þar sem við komum á þjóðveg 846. Fylgjum honum að slóð, sem liggur um hlið austur yfir Reykjadalsá að Einarsstöðum í Reykjadal.

27,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Gönguskarð, Vatnshlíð, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Sandsbæir, Sílalækur, Reykjakvísl, Þegjandadalur, Hafralækjarskarð, Kinnarfell, Fosselsskógur, Máskot, Heiðarsel, Fljótsheiði, Fossel.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson