Hvammsheiði 1

Frá Laxamýri í Aðaldal að Torfunesi í Köldukinn.

Fyrri hluti leiðarinnar er einn skemmtilegasti skeiðvöllur landsins, Hvammsheiðin endilöng, moldargata eftir dráttarvélar. Heiðin er ávöl og þurr, með runnum og lyngi, en engum mýrum. Heiðin dunar undir hófaslætti, þegar hrossarekstur þýtur yfir hana. Hraunsrétt er fagurlega hlaðin rétt í jaðri Laxárhrauns og hefur verið endurgerð með ærinni fyrirhöfn. Þaðan er farið um Þúfuvað yfir Laxá í Aðaldal. Þegar komið er upp fyrir Mýlaugsstaði hverfa götur og reiðmenn þurfa að miða við að koma niður nálægt bæjarhlaði í Rauðuskriðu.

Förum frá Laxamýri reiðslóð suður yfir Mýrarkvísl og upp á norðurenda Hvammsheiðar. Síðan suður heiðina endilanga, hæst í 140 metra hæð. Förum af heiðinni vestanverðri niður í Yzta-Hvamm og síðan suður með þjóðvegi 853 að afleggjara að Hraunsrétt til vesturs. Frá réttinni förum við suður á Þúfuvað yfir Laxá í Aðaldal, um Fögrufit og síðan upp á þjóðveg 854. Við förum vestur með veginum að mótum þjóðvegar 845 í Aðaldal og um hundrað metra með þeim vegi að afleggjara að Mýlaugsstöðum. Förum þar vestur og síðan upp hlíðina sunnan við Skollahnjúk upp í 140 metra hæð. Þar hverfa götur og reiðmenn þurfa að miða við að koma niður nálægt bæjarhlaði í Rauðuskriðu. Því sveigjum við til norðurs eftir heiðinni og komum niður hana að Rauðuskriðu. Síðan afleggjara frá bænum niður á þjóðveg 85 og suður hann á brú yfir Skjálfandafljót. Vestan brúarinnar förum við reiðslóð suður með fljótinu unz við erum komin á móts við Torfunes. Beygjum þá eftir hliðarslóð vestur að Torfunesi.

29,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Gönguskarð, Vatnshlíð, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Sandsbæir, Sílalækur, Reykjakvísl, Þegjandadalur, Hafralækjarskarð, Kinnarfell, Fosselsskógur, Máskot, Heiðarsel, Fljótsheiði, Fossel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson