Hvað skyldi henta Grikkjum?

Greinar

Einna lífseigasti hleypidómurinn um framandi þjóðir er efinn um, að þær séu færar um að sjá um sig sjálfar. Greinilegast kemur þetta fram í tali um aðra kynþætti en hvíta menn. Svartir menn eru taldir vera náttúrubörn, skemmtilegir einfeldningar, sem megi vera því fegnir, að hvíti maðurinn vilji skipuleggja og stjórna dálítið fyrir þá.

Það er löngu hætt að þykja viðeigandi að gera öðrum þjóðum og kynþáttum upp illmennsku og aðra lesti. Þjóðverjar gerðu mikið af þessu fyrir aðra heimsstyrjöldina og í henni. Þegar þeir réðust inn í Pólland og hófu heimsstyrjöldina, voru þeir uppfullir af sögum um grimmd og skepnuskap Pólverja. Og Gyðingaofsóknirnar byggðust náttúrlega á því, að almenningi hafði verið talin trú um, að Gyðingar væru hræðilegir menn.

Hleypidómar af þessu tagi biðu mikið afhroð með falli þriðja ríkisins. Félagsfræðingar og sálfræðingar á Vesturlöndum gerðu ýtarlegar rannsóknir á tilurð alls konar hleypidóma, einkum gagnvart Gyðingum og svertingjum. Þeir uppgötvuðu, hvernig slíkir hleypidómar sáðu sér í og ræktuðust upp í sálarlífi fólks, sem átti við vandamál að stríða, efnahagsleg, stjórnmálaleg, félagsleg eða sálræn.

Afleiðingin varð sú, að hinir grófu hleypidómar þóttu ekki lengur húsum hæfir á Vesturlöndum. En miklu lífseigari voru hinir mildari hleypidómar, sem ekki voru um illmennsku framandi manna, heldur barnaskap þeirra og greindarskort. Þetta þekkjum við bezt í viðhorfum hvítra manna gagnvart svertingjum. Þeir eru taldir latir og værukærir, gefnir fyrir munað og tónlist, óáreiðanlegir og óreglusamir, eins konar unglingar i heimi hinna fullorðnu, hvítu manna.

Svipuð viðhorf koma oft fram gagnvart hinum rómönsku þjóðum Miðjarðarhafsins. Menn tala um Grikki og Spánverja eins og börn, sem vilji helzt syngja og leika sér og séu ófær um að taka skynsamlega afstöðu i stjórnmálum. Menn skeggræða um tilfinningasemi þeirra og orðaflaum og telja sér trú um, að ungæðisfólk af þessu tagi þurfi styrkan foreldraaga, jafnvel einræðisstjórn.

Raunar er það ákaflega hrokafullt hjá fólki úr Norður-Evrópu að hafa slíkar skoðanir á þjóðum, sem eru miklu eldri menningarþjóðir, ekki sízt gagnvart Grikkjum, sem þekktu lýðræði, viturlega heimspeki, ýmis vísindi og hinar fegurstu listir, meðan forfeður okkar lifðu í steinaldarmyrkri.

Það er fráleitt að skrifa eins og íslenzkur blaðamaður gerði nýlega í Morgunblaðinu: ,,En það eru ekki allar þjóðir, sem þola að búa við lýðræði. Grikkir eru þar í bópi. Hæfilegt einræði er það, sem hentar þeim langsamlega bezt. Hafi ég verið sannfærð um það fyrr, þykist ég enn vissari en áður eftir dvölina í landinu.”

Við því er lítið hægt að segja, þótt menn gangi með svona hortuga hleypidóma gagnvart elztu lýðræðisþjóð jarðarinnar og einni mestu menningarþjóð allra tíma. Menn munu alltaf rækta með sér hleypidóma, hvað sem vísindin segja. En blaðamenn í heimi lýðræðis og frjálshyggju hafa sérstaka ábyrgð gagnvart almenningi. Þeir hafa aðstöðu til að sá hleypidómum í huga fólks og ættu því að forðast slíka sáðmennsku eins og heitan eldinn.

Jónas Kristjánsson

Vísir