Húnaþing

Frá Stað í Hrútafirði að Dæli í Víðidal.

Þetta er tengileið milli heiða í Dalasýslu og Húnavatnssýslum. Að mestu farin á lítið keyrðum innansveitarvegum og á heiðarbútum milli dala.

Frá Stað er farið upp Haukadalsskarð í Miðdali og um Laxárdalsheiði eða Sölvamannagötur vestur í Laxárdal. Frá Aðalbóli í Miðfirði er farið upp Aðalbólsheiði, frá Dæli í Víðidal er farið upp Víðidalstunguheiði, frá Haukagili í Vatnsdal er farið upp Haukagilsheiði og frá Grímstungu í Vatnsdal er farið upp Grímstunguheiði á Stórasand. Fjórar síðastnefndu heiðarnar liggja að Arnarvatnsheiði að suðvestan og Skagfirðingavegi að suðaustan.

Við Miðfjarðarrétt sæta hestamenn stundum áreiti bóndans á Brekkulæk, sem telur sig eiga réttina og reiðleiðir í Húnaþingi.

Förum frá Stað upp fyrir tún og síðan norður með þjóðvegi 1 einn kílómetra. Áður en við komum að Brandagili snúum við til austurs eftir jeppaslóð yfir Hrútafjarðarháls, norðan og austan við Hólmavatn og síðan suðaustur niður að Húki í Miðfirði. Þaðan förum við með þjóðvegi 705 norður Vesturdal og síðan austur yfir þjóðveg 704. Svo með Miðfjarðará um Miðfjarðarrétt og norður fyrir Brekkulæk og síðan norðaustur á þjóðveg 704 handan dalsins. Með þjóðveginum förum við tvo kílómetra til norðurs og síðan með þjóðvegi 714 yfir í Fitjárdal. Gamla leiðin úr Miðfirði í Fitjárdal er aðeins sunnar, frá Bjargshóli austur í Finnmörk. Í Fitjárdal förum við til norðurs eftir sama vegi, en beygjum til suðausturs eftir Króksvegi til Valdaráss. Þar förum við norður með Víðidalsá og yfir ána að vegi 715 sunnan við Stóru-Ásgeirsá. Þann veg förum við suður að Dæli í Víðidal, þar sem er bændagisting.

52,7 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Borgarvirki.
Nálægar leiðir: Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur, Tvídægra, Finnmörk, Víðidalstunguheiði.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson