Heilmikið fjör hefur færzt í leik íslenzkra gosdrykkjaframleiðenda. Fyrirtæki, sem áður var í skugga hinna tveggja stóru, hefur olnbogað sig fram í sviðsljósið og vakið þá hastarlega af værum svefni hins stöðuga markaðar.
Með ýmissi þjónustu hefur Sanitas tekizt að ná á sitt band ýmsum mikilvægum smásölum, svo sem Valhöll á Þingvöllum og þjóðhátíð Vestmannaeyja. Hefur fyrirtækið nú verið kært fyrir einokun á gosdrykkjum þjóðhátíðarinnar.
Slík einokun er að vísu ekki ný af nálinni. Hún tíðkast líka hjá hinum, sem kærðu. Þeir hafa einokun í bíóum, Húsafelli, kennaraháskólanum og meira að segja á hinu háa alþingi, sem þar með er orðið skemmtilegur málsaðili.
Ljóst virðist, að þessi slagsmál hafi bætt hag ýmissa smásala, sem hafa séð sér hag í að gera einkasamninga við eitt af hinum þremur stóru fyrirtækjum. Og kannski lekur eitthvað af ávinningnum til sjálfra neytendanna.
Um einokun er mjög erfitt að tala í þessum fjöruga leik. Neytendur, sem eru algerlega háðir einni tegund, geta til dæmis valið um verzlunarmannahelgi á Galtalæk, í Húsafelli og í Vestmannaeyjum.
Hins vegar er gaman að sjá atvinnugrein, þar sem ekki ríkja samráð bak við tjöldin um sameiginlega einokun markaðsins, þar sem hins vegar ríkir fjörug samkeppni með alls konar uppátækjum hins frjóa hugmyndaflugs.
Þeir Sanitasmenn hafa gefið gott fordæmi íslenzkum iðnaði, sem því aðeins mun ná góðum þroska, að ráðamenn fyrirtækjanna séu sívakandi, sívinnandi, síbreytandi og sífellt komandi á óvart. Þeir séu semsagt hressir eins og gosmenn.
Óhress kerfismaður.
Vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins hefur reynzt afar óánægður með, að Dagblaðið skuli hafa tekið undir gagnrýni séra Jóns Bjarman fangaprests á því, hvernig efnt var til rannsóknar á kæru út af meintu harðræði í Síðumúlafangelsi.
Embættismaðurinn segir hvatir Dagblaðsins vera auðsæjar. En þetta eru hin sjálfvirku viðbrögð kerfismanna, þegar amazt er við röngum vinnubrögðum í kerfinu. Slíku er alltaf haldið fram, ef einhver þorir að opna munninn.
Embættismaðurinn segir, að blaðið og presturinn séu að reyna að vekja tortryggni á réttarfari í landinu. Þetta eru líka hin sjálfvirku viðbrögð kerfismanna, þegar amazt er við röngum vinnubrögðum í kerfinu.
Hið háa kerfi hefur alltaf rétt fyrir sér. Þeir, sem eitthvað hafa við þennan stóra sannleika að athuga, eru alltaf stimplaðir sem illgjarnir æsingamenn, er séu að reyna að grafa undan þjóðfélaginu.
Embættismaðurinn hefur í löngu máli reynt að útskýra, að hann hafi gert sitt bezta í rannsókn málsins. En hann virðist ekki átta sig á vissum leikreglum um meðferð dómsmála í lýðræðisríki, að rannsóknarmenn skuli ekki vera tengdir þeim, sem rannsakaðir eru.
Embættismaðurinn gerði auðvitað enga tilraun til að útskýra, hvers vegna hann tók að sér að athuga sakarefni bæði yfirmanns síns og undirmanna. Og dómsmálaráðuneytið hefur ekki útskýrt, hvers vegna svona var staðið að málinu.
Það er sorglegt, þegar kerfismenn skilja ekki sjálfar forsendur réttarríkis.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið