Hraunin

Frá Hólaskógi í Þjórsárdal að Áfangagili innan Rangárbotna.

Hrauneyðimörk og brú á Þjórsá tengja saman vinsælar ferðaleiðir á afréttum Hreppamanna og Landmanna. Hér er vítt til veggja í allar áttir, Heklutindur gnæfir í suðri í 15 kílómetra fjarlægð meðan við fetum yfir sandborið hraunið. Við skiljum við nútímaskála með ýmsum þægindum og heilsum gamaldags burstabæ án flestra þæginda. Á leiðinni sjáum við tilraunir til að hefta sandfok með girðingum og sáningu. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð, nema á Þjórsárbrú og þegar við förum þvert yfir þjóðveg 26.

Förum frá Hólaskógi í 280 metra hæð beint suðaustur yfir sandinn gegnum hlið á girðingu, beygjum til austurs meðfram girðingunni og förum reiðslóð um Álftavelli að þjóðvegi 32 og brú yfir Þjórsá. Austan brúarinnar beygjum við út af veginum og förum suður um sandborið og samt seinfarið hraunið, í 270 metra hæð. Framundan sést Áfangagil undir Valafelli. Við förum yfir þjóðveg 26 og senn verður færið greiðara. Grónar grundir í Leirdal næst Valafelli létta sporið. Við förum inn gilið að notalegum burstabæ í 300 metra hæð, skálanum í Áfangagili.

11,2 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.

Nálægir ferlar: Ísahryggur, Gjáin-Stöng, Sauðleysur, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson