Gagnsókn Byrgisins er hafin. Nokkrir fjölmiðlar og yfirlögregluþjónar mála skrattann á veginn. Þeir segja fyrrverandi vistmenn vera sjálfum sér og öðrum til vandræða á götunum, eins og að Byrginu hafi verið lokað. Þetta er marklaus hræðsluáróður og hagsmunagæzla. Til eru aðrar meðferðarstöðvar og aðrir geymslustaðir fyrir fíkniefnasjúklinga. Efla má slíka staði frekar en að ausa eftirlitslaust peningum í stað, sem beitir vafasömum aðferðum, allt frá trúarofstæki og kynórum yfir í pillufæriband hjá úr sér gengnum læknum. Byrgið hefur dæmt sig sjálft úr leik.
