Hópið

Frá Stóru-Borg í Hópi að Blönduósi.

Þessa leið má aðeins ríða undir leiðsögn staðkunnugra, enda verður að sæta sjávarföllum á vaðinu. Sögufræg leið á löngum grynningum yfir Hópið milli Myrkurbjarga og Vonarlands. Flóðs og fjöru gætir í Hópi, sem er fimmta í röðinni af stærstu vötnum landsins. Í svörtum Þingeyrasandi eru víða gróðurflesjur. Þar eru ýmsar reiðleiðir umhverfis hið forna höfuðból Þingeyrar, eina þekktustu jörð landsins. Þar var öldum saman klaustur og bókagerðarsetur. Þekktur hestamaður, Jón Ásgeirsson, bjó á Þingeyrum upp úr 1900. Sonur hans, Ásgeir Jónsson frá Gottorp, skrifaði í bókunum Horfnum góðhestum af föður sínum og hestum hans margar hestasögur, sem gerðust á Þingeyrasandi og nágrenni.

Förum frá Stóru-Borg norður með þjóðvegi 717. Þar sem sá vegur beygir til vesturs, förum við beint áfram norður og að baki Ásbjarnarness niður að Hópi. Við förum norður með vatninu vestanverðu, framhjá eyðibýlinu Ásgarði og að Vaðhvammi undir Myrkurbjörgum, þar sem við förum yfir Hópið til norðausturs á löngu vaði yfir að Vonarlandi. Síðan förum við Þingeyrarsand til austurs að eyðibýlinu Geirastöðum og þaðan norður að vaðinu á Húnavatni, um einn kílómetra norðan við Akur. Þar förum við yfir um og síðan meðfram vatninu til norðurs um Brandanes og þaðan norðvestur að Húnsstöðum. Þaðan förum við yfir þjóðveg 1 og áfram á veiðivegi upp með Laxá í Ásum, vestan og norðan við Holtsbungu. Við komum að þjóðvegi 731 og beygjum með honum til norðvesturs að Kleifum við Blönduós.

32,5 km
Húnavatnssýslur

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Borgarvirki.
Nálægar leiðir: Húnavað.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson