Flokkarnir, sem tóku þátt í tilraunum Benedikts Gröndal til myndunar ríkisstjórnar, gerðu það allir með hangandi hendi. Þess vegna mistókst sú tilraun.
Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn, sem ekki verður beinlínis sakaður um að hafa spillt viðræðunum. Fulltrúar flokksins í viðræðunum virðast hafa komið fram af fullri einlægni og ekki gert neinn þann ágreining, sem úrslitum réði.
Að vísu sendi Tíminn hinum flokkunum tóninn allan tímann,sem viðræðurnar stóðu. Lék blaðið þar sama leikinn og Alþýðublaðið og Þjóðviljinn. Slíkt stuðlar náttúrlega ekki að samkomulagi.
Alþýðublaðið hafði forustu í þessum grófa leik. Það hamaðist á meintum ávirðingum Alþýðubandalagsins dag eftir dag og tókst smám saman að æsa upp Þjóðviljann.
Leiðarahöfundur Dagblaðsins minnist þess ekki, að viðræður um myndun ríkisstjórnar hafi áður farið fram í jafn eitraðri skothríð aðstandendanna sjálfra. Venjulega hafa menn reynt að hemja sig og sýna fulla kurteisi rétt á meðan talað er saman.
Þingmenn Alþýðuflokksins vilja nýsköpunarstjórn, en ekki vinstri stjórn. Í ljósi atburða síðustu vikna er ástæða til að efast um, að Benedikt Gröndal hafi meint nokkuð með vinstri viðræðunum. Hafi hann meint eitthvað, er ólíklegt að ungu og reiðu þingmennirnir í flokknum hefðu leyft samkomulag.
Svipað var ástandið í Framsóknarflokknum. Annar armur flokksins knúði fram þátttöku í viðræðunum meðan hinn hægfara SÍS-armur sat heima og sendi fundarmönnum tóninn í Tímanum. Efast má um, að Steingrími Hermannssyni hefði tekizt, þegar á reyndi, að fá Ólaf Jóhannesson til að leyfa þátttöku flokksins í vinstri stjórn.
Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn kenna Alþýðubandalaginu um hrun stjórnarmyndunarviðræðnanna. Úr fjarlægð er hins vegar ekki hægt að sjá, að Alþýðuhandalaginu sé fremur um að kenna en Alþýðuflokknum.
Líklega hefur ráðamönnum Alþýðubandalagsins komið á óvart sambandsleysi ráðamanna Alþýðuflokksins gagnvart verkalýðshreyfingunni og skilningsleysi þeirra á djúpstæðri óbeit manna á kaupránslögunum frá í vetur.
Hitt var svo líka greinilegt, að undir lok viðræðnanna var Alþýðubandalagið byrjað að ganga aftur á bak og draga til baka fyrri, óformlegar eftirgjafir, til dæmis í varnarmálum og gengismálum.
Á bak við þetta lágu vaxandi áhrif þeirra manna, sem vildu vera áfram í stjórnarandstöðu og reyna að safna enn meira fylgi, en ýta Alþýðuflokknum út í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Á þann hátt geti bandalagið hrist Alþýðuflokkinn af sér í samkeppninni um fylgið í næstu kosningum.
Það er vegna þessara sjónarmiða, að margir segja Alþýðubandalagið ófært um að fara í stjórn. Þeir segja, að það þrífist aðeins sem óábyrgur stjórnarandstöðuflokkur.
Ekki er von, að vel fari, þegar allir viðræðuflokkarnir þrír hafa takmarkaðan áhuga á umræðuefninu og láta það óspart í ljós í skothríð flokksblaðanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið