Hinn illi öxull

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti neitar að fordæma nýjustu hryðjuverk Ísraelsstjórnar í Palestínu. Hann heldur áfram að styðja aðgerðir Sharons forsætisráðherra Ísraels, þótt þær hafi gengið fram af siðuðu fólki um allan heim og hafi slökkt síðasta vonarneistann um frið í Miðausturlöndum.

Hræsni Bush er takmarkalaus, þegar hann krefst þess enn, að Arafat, forsætisráðherra Palestínu, stöðvi sjálfsmorðsárásir örvæntingarfullra Palestínumanna, rétt eins og hann hafi aðgang að einhverjum “on/off”-takka í stofufangelsi Ísraelsmanna í Ramallah í Palestínu.

Bandalag Bandaríkjanna og Ísraels er mesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir. Það hindrar friðsamlega sambúð vesturs og íslams og sogar hefndaraðgerðir að Vesturlöndum. Verst af öllu er, að það hefur klofið Vesturlönd í tvær andstæðar fylkingar, Ameríku og Evrópu.

Í samanburði við hinn illa öxul Bandaríkjanna og Ísraels fer lítið fyrir öðrum ógnunum við heimsfriðinn. Stjórnir Íraks og Norður-Kóreu eru hættulegar umheiminum, en mynda engan öxul sín á milli, né heldur við Íran, sem er hættulaust umheiminum, þótt það gefi Palestínu vopn.

Það er út í hött hjá Bush Bandaríkjaforseta að kalla Írak, Íran og Norður-Kóreu öxul hins illa í heiminum. Eini illi öxullinn á heimsmælikvarða um þessar mundir er öxull Bandaríkjanna og Ísraels, linnulaus stuðningur heimsveldis við ofbeldishneigt og ofstækisfullt smáríki.

Í skjóli neitunarvalds Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur Ísrael lengi komizt upp með sívaxandi brot á alþjóðasamningum um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Ísraelsmenn eru farnir að trúa, að vegna sérstakra aðstæðna gildi almennar siðareglur ekki um Ísrael.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra endurspeglar almenn viðhorf ríkisstjórna Evrópu, þegar hann fordæmir nýjustu aðgerðir Sharons í Palestínu. Satt að segja eru leiðtogar Evrópu almennt gáttaðir á ofstæki Ísraelsríkis og ekki síður á stuðningi Bandaríkjanna við ofstækið.

Hernaðarlega skiptir Evrópa engu og getur ekki gert neitt í málinu, hvorki sameinuð né sem einstök ríki. Evrópa getur staðið uppi í hárinu á Bandaríkjunum í gagnkvæmum tollmúrum og mun gera það í vaxandi mæli, en hún getur aðeins verið áhorfandi að hryðjuverkum hins illa öxuls.

Evrópa getur veitt Palestínu pólitískan stuðning og reynt að ná samstöðu við ríki íslams um skynsamlega stefnu friðar í Miðausturlöndum. Mikilvægt er, að þjóðir ríkjanna tveggja, sem mynda hinn illa öxul heimsins, heyri, að þær hafa alls engan siðferðilegan stuðning umheimsins.

Ekki eru horfur á, að ástandið lagist í bráð. Senn fer að hefjast undirbúningur kosninga í Bandaríkjunum. Þar er hefðbundið, að enginn nær kosningu til þings, ef hann efast um réttmæti stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael. Því má ekki búast við raunsæjum röddum frá Bandaríkjunum í bráð.

Í Evrópu eru menn farnir að skilja gerjun veraldarsögunnar, enda er kalda stríðið langt að baki. Rofin er samstaða vesturs, eins og hún kom skýrast fram í Atlantshafsbandalaginu. Menn munu fjölga aðildarríkjum og fjölyrða á hátíðarfundum um samstöðu, en innihaldið er dautt.

Lokið er stuttu friðarskeiði eftir kalda stríðið og risin ný ógnun við heimsfriðinn, öxull Bandaríkjanna og Ísraels, þar sem heimsveldi hefur gert utanríkisstefnu lítils ofbeldisríkis að sinni.

Jónas Kristjánsson

FB