“Menn greinir á um blæbrigði, upphæðir og ekki um prinsip,” sagði Vilmundur Gylfason í kjallaragrein í Dagblaðinu á föstudaginn fyrir rúmri viku, er hann fjallaði um ýmis úrelt hugtök í stjórnmálunum.
Í greininni færði Vilmundur rök að því, að orðin “hægri” og “vinstri” nái ekki lengur yfir stjórnmálaumræðu í þjóðfélagi, þar sem í stórum dráttum hefur náðst samkomulag um félagslegt og efnahagslegt réttlæti og jöfnuð sem fremsta markmið.
Þennan vanda kannast leiðarahöfundar Dagblaðsins mæta vel við. Þeir þykjast halda fram stefnu hinnar róttæku “miðju” í íslenzkum þjóðmálum. Hins vegar eru þeir stundum gagnrýndir fyrir róttæka “hægri” stefnu og einnig, en sjaldnar, fyrir róttæka “vinstri” stefnu.
Vilmundur hefur laukrétt fyrir sér, þegar hann segir: “Það, sem fólk hins vegar er ósammála um, talar um og hugsar um, skerst ekki svo mjög eftir hefðbundnum línum milli hægri og vinstri.”
Hann nefnir dæmi: “Fólk er ósammála um landbúnaðarkröfluna, útflutningsbæturnar og niðurgreiðslurnar. Þar rekast á hagsmunir bænda annars vegar og flestra skattgreiðenda hins vegar. Fólk er ósammála um byggðastefnu, lánakerfi í tengslum við hana og þess vegna kjördæmamál. Fólk greinir á um það leyndarbákn, sem kallað er ríkisvald og stundum kerfi. Bankana, lánakerfið og þess vegna vextina. Fólk greinir á um Kröflu sjálfa. Stóriðju og samvinnu við útlendinga.”
Vilmundur segir, að þessi upptalning geti verið endalaus. “Aðalatriðið er samt það, að tilraunir til þess að klæða umfjöllun um þessi mál í hefðbundin kreppuklæði hægri og vinstri hafa mistekizt, einfaldlega vegna þess að það gengur ekki röklega upp. Fólk finnur þann falska tón, sem frá slíku stafar.”
Vilmundur víkur síðan að ýmsum flokkahagsmunum, sem liggja að baki hinum falska tóni og segir m.a.: “Samspil spillts ríkisvalds, forhertra gróðabrallara og óðrar verðbólgu hefur búið til nýja stétt eignafólks, sem auðgast í engu samræmi við vinnu. Þetta braskkerfi, sem alls staðar hefur fylgt verðbólgu, læsist um flokkakerfið allt, hvort sem það skilgreinir sig til hægri eða vinstri.
En fyrir utan standa stórir hópar venjulegs fólks, allur þorri fólksins, sem lifir í þessu landi. Þetta fólk hefur ekki hagnazt á þessu kerfi, þessu sameiginlega afsprengi stjórnmálaflokkanna. Þessu fólki má standa nokkuð á sama um þá atvinnumenn, sem skipta með sér völdum og vegtyllum fyrir luktum dyrum, en hjala þess á milli um vinnandi fólk og lýðréttindi. Því þetta fólk er að sækja fram.”
Í greininni hittir Vilmundur naglann á höfuðið eins og oft áður. Fólkið hefur fundið, að “hægri” og “vinstri” tónar flokkanna eru falskir. Menn eru farnir að amast við samtryggðum flokksforingjum, misjafnlega mikið eftir flokkum. Sá tímans þungi straumur verður ekki stöðvaður úr þessu. Öld hinnar róttæku “miðju” er runnin upp.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið