Í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi er staðfest hin gamla og sérkennilega skoðun stjórnvalda, að landbúnaður sé merkastur atvinnuvegur á Íslandi, en iðnaður og verzlun síztir atvinnuvega.
Samkvæmt frumvarpinu vill ríkisstjórnin, að á næsta ári renni 9122 milljón krónur til mála landbúnaðarins, 1730 milljón krónur til sjávarútvegs, 536 milljón krónur til iðnaðar og 97 milljón krónur til verzlunar.
Það er engin furða, þótt Ísland sé fátækt láglaunaland, þar sem nútíma atvinnuvegir eiga erfitt uppdráttar, þegar slík atvinnustefna ræður ríkjum. Meira en tíunda hver króna ríkisins fer beinlínis til þess að halda uppi landbúnaði.
Ef stjórnvöld væru að hugsa um efnahagslega framtíð þjóðarinnar, væru þessar tölur allt öðru vísi. Þá væri t.d. 1200 milljón krónum varið til sjávarútvegs, 1000 milljón krónum til iðnaðar, 600 milljón krónum til landbúnaðar og 500 milljón krónum til verzlunar.
Leggja mætti niður 5100 milljón króna kostnað af niðurgreiðslum landbúnaðarafurða, 1800 milljón króna kostnað af útflutningsuppbótum landbúnaðarafurða, 950 milljón króna framlag til Stofnlánasjóðs landbúnaðar og 130 milljón krónur til Búnaðarfélags Íslands.
Sömuleiðis mætti leggja niður 493 milljón króna framlag til Fiskveiðasjóðs, 63 milljón króna framlag til Fiskifélags Íslands og 50 milljón króna verðuppbætur á fisk. Ef þetta væri allt gert mætti hækka framlög til iðnaðar um 400 milljónir og til verzlunar um 400 milljónir og ná þeim tölum, sem taldar eru æskilegar hér að framan.
Í heild mundi ríkið spara 8160 milljón krónur á slíkum aðgerðum. Þá upphæð mætti nota til að afnema tekjuskatt, eða það sem betra er, til að lækka söluskatt úr 20% í 15% og bæta neytendum þannig upp brottfall niðurgreiðslna landbúnaðarafurða.
Ekki er unnt að sjá neina ástæðu til að ríkið kosti Búnaðarfélag og Fiskifélag fremur en félög iðnaðar og verzlunar. Ekki er heldur unnt að sjá neina ástæðu til beinna styrkja til framkvæmda í landbúnaði og sjávarútvegi.
Stofnlánasjóðir þessara atvinnugreina eiga líka að standa undir sér án fjármagns úr ríkissjóði. Um langan aldur hefur verið fjárfest óhóflega í landbúnaði og nú er svo einnig komið í sjávarútvegi. Það er ekki til nægur fiskur í sjónum til þess, að öll hin dýru skip okkar hafi næg verkefni.
Meginatriðin eru þó niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða, sem hafa löngum verið dýrasti bölvaldur efnahagslífsins hér á landi. Þær hafa nú vaxið svo, að á næsta ári eiga þær að verða nærri tíundi hluti ríkisútgjaldanna. Engin þjóð, hversu dugleg sem hún er, fær staðið af sér slíka heimsku, slíka forneskju, slíkan lúxus.
Hvenær gerir almenningur uppreisn gegn þessu oki?
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
