Bandarísk áhrif á evrópska hótelmenningu breyttu kröfum okkar um eigið húsnæði heima á Íslandi. Við fórum að gera meiri kröfur til rúma, vildum fá öflugar sturtur og stór handklæði. Við höfum meira að segja farið töluvert fram úr hótelmenningunni, heimtum rúm með rafdrifnum botni, svo að hægt sé að lesa í rúminu eða horfa á sjónvarp. Og víða er kominn heitur pottur hjá fólki. Svo er nú komið, að mörgu fólki líður hvergi betur en heima hjá sér. Ef við verðum að gista annars staðar, erum við farin að líta á það sem áhættu. Við söknum hversdagslegra þæginda heima hjá okkur.
