Hávær grafarþögn

Greinar

Nokkur hundruð milljónir króna, sennilega 700 milljónir, hafa horfið í Panama á vegum deCode Genetics, bandaríska fyrirtækisins, sem á og rekur Íslenzka erfðagreiningu og hefur fengið heimild alþingis Íslendinga til að veðsetja börn okkar og barnabörn fyrir stjarnfræðilegum fjárhæðum.

Algengt er, að fjölþjóðafyrirtæki sendi peninga út og suður til að komast hjá skyldum við þjóðfélagið eða til að hygla forstjórum eða til að liðka fyrir sérstökum fyrirgreiðslum á borð við þá, er alþingi Íslendinga vildi láta veðsetja börn okkar og barnabörn fyrir stjarnfræðilegum fjárhæðum.

Hins vegar fór Kári Stefánsson klaufalegar að tilfærslunni en fyrirmyndir hans úti í heimi. Þeir passa dagsetningar í skjölum, en Biotek var ekki stofnað fyrr en hálfum mánuði eftir að deCode Genetics undirritaði samninginn við lánardrottna, sem Biotek fékk borgað fyrir að annast.

Samkvæmt skriflegum heimildum fékk Biotek þessa miklu peninga fyrir að annast milligöngu um samninga við íslenzka lánadrottna. Þeir kannast ekki við að hafa heyrt þetta fyrirtæki nefnt og ljósmyndir sýna, að það var forstjóri deCode, sem undirritaði samningana, það er Kári Stefánsson.

Ekki er vitað, hvort hann undirritaði þá fyrir hönd deCode Genetics eða hins ófædda Biotek, sem fékk aurana fyrir milligönguna. Enginn veit, hvers vegna ófætt fyrirtæki fékk svona mikla peninga, hver átti fyrirtækið og hvers vegna það gufaði síðan upp í Panama, sem er heimsfrægt skálkaskjól.

Kári Stefánsson neitar að hafa sjálfur fengið krónu út úr þessum undarlegu viðskiptum. En það er marklaust að berja sér á brjóst, þegar menn neita að skýra dularfullt misræmi í upplýsingum, þar á meðal í skráningu af hálfu deCode á Nasdaq-markaðinum, sem hlýtur að teljast alvarlegt mál.

Einkar athyglisvert er, að lítið hefur verið fjallað um mál þetta í fjölmiðlum landsins, öðrum en DV, og ekki á alþingi Íslendinga, sem heimilaði veðsetningu barna okkar og barnabarna fyrir stjarnfræðilegum upphæðum í þágu fyrirtækis, sem rambar á yzta jaðri áhættufjárfestingar.

Eðlilegt er, að sá aðili, sem vildi veðsetja börn okkar og barnabörn, hundskist til að láta kanna, hvers vegna fyrirtæki, sem ekki var til, fékk hundruð milljóna fyrir milligöngu í fjármálum og hvers vegna enginn fær að vita, hver átti þetta fyrirtæki og hvers vegna það hvarf sjónum.

Þetta minnir líka á, hversu brýnt er, að sett verði lög, sem tryggi gegnsæi í fjárhagslegum tengslum fyrirtækja annars vegar og stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hins vegar.

Jónas Kristjánsson

DV