Íslendingar eru sagðir mælast hátt í fjölþjóðlegum samanburði nemendafjölda í háskólum. Mælingin tekur ekki tillit til gæða námsins. Nú eru oddvitar farnir að dreyma um háskóla í hverjum hreppi. Nýjasta hugmyndin er um háskóla á Sólheimum í Grímsnesi. Við höfum fengið doktora í reiðmennsku og fáum bráðum lektora í hreinsitækni. Fyrir nokkrum árum gerðu menn grín að Háskóla Íslands og kölluðu hann súpergaggó. Sjálfur veit ég dæmi þess, að heil námsgrein skólans sé rakið rugl. Enn meira verður hægt að grínast með háskóla, sem reistir verða á Ísafirði, á Grímsstöðum á Fjöllum, á Kaldbak.
