Stuðningsmenn lndiru Gandhi forsætisráðherra stöðvuðu í síðustu viku dreifingu fjögurra dagblaða í Bangalore. Sögðu þeir, að blöðin hefðu móðgað Gundo Rao ráðherra. Lögregla frú Gandhi horfði á og aðhafðist ekki neitt.
Blöðin fjögur höfðu skýrt frá þeirri staðreynd, að þorpsbúar í nágrennninu höfðu grýtt sandölum sínum í ráðherrann til að mótmæla verðhækkunum og vatnsskorti. Stuðningsmennirnir sögðust vilja vara blöðin við slíkum fréttum.
Þetta er smávægilegur atburður og einmitt þess vegna dæmigerður. Hann fréttist ekki til Íslands eins og sú ákvörðun nýrrar stjórnar Suður-Kóreu að loka nærri 200 blöðum og tímaritum og reka meirihluta blaðamanna landsins.
Alls staðar er sökin hin sama. Blöðin birta of mikið af svokölluðum vondum fréttum um vandamál og um getuleysi og spillingu valdhafa. Með þessu eru þau sögð trufla einingu þjóðarinnar við uppbyggingu undir forustu stjórnarinnar.
Niðurstaðan í þriðja heiminum er yfirleitt hin sama og hún varð í Austur-Evrópu. Öll blöð eru lögð niður önnur en þau, sem bergmála nákvæmlega sjónarmið valdhafa og birta aðeins fréttir, sem þeim eru þóknanlegar.
lndira Gandhi hefur nú í annað sinn fengið tækifæri til að koma í framkvæmd áhugamálum sínum á þessu sviði. Hún er þó komin mun skemmra á veg en Chun Doo Hwan, forseti Suður-Kóreu. Hann er harðstjóri, en hún vill verða það.
Vestræn fréttamennska fer ákaflega í taugar slíkra valdhafa. Þeir eru búnir að hafa mikið fyrir að skrúfa fyrir óháða fjölmiðlun heima fyrir, en þá birtast bara í vestrænum blöðum fréttir af svipuðum toga.
Þess vegna er það núna eitt helzta áhugamál mikils fjölda valdhafa í þriðja heiminum að takmarka og helzt útiloka starf vestrænna fréttastofa og vestrænna fréttamanna. Sök þeirra er sama og hinna innfæddu starfsbræðra.
Margir valdhafar þriðja heimsins eru gráðugir og gerspilltir. Þeir mergsjúga þjóðir sínar og ljúga út vestræna styrki, hvort tveggja til að efla innistæður sínar í svissneskum bönkum. Þar á ofan eru þeir ólýsanlega grimmir.
Fyrir mörgum árum myndaðist hagsmunabandalag allra valdhafa, sem eru andvígir frjálsum straumi upplýsinga og skoðana innan lands og frá landi. Í þessu bandalagi er Austur-Evrópa, arabaríkin og þriðji heimurinn.
Þetta bandalag hefur mjög beitt sér í Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Og því hefur tekizt að fá embættismenn stofnunarinnar á sitt band að nokkru leyti. Það kemur fram í nýjum tillögum framkvæmdastjórans.
Á þingi UNESCO, sem nú er hafið í Belgrað, á að fjalla um tveggja milljarða króna fjárveitingu til aðgerða í fjölmiðlun, sem sumpart munu rýra möguleika okkar á að frétta, hvað raunverulega gerist utan Vesturlanda.
Meðal annars er stefnt að skráningu blaðamanna, svo að auðveldara verði að meina þeim landvist. Einnig á að auka eftirlit með því, að alþjóðlegar fréttastofur séu ekki of mikið í vondum fréttum frá þriðja heiminum.
Yfir vötnum UNESCO svífur hugsjónin um, að upplýsingar og skoðanir þjóni þróunarhagsmunum viðkomandi þjóða. Og það eru grimmu og gráðugu harðstjórarnir, sem á hverjum stað ákveða, hvað sé í samræmi við “hagsmuni þjóðarinnar”.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
