Happið mikla

Greinar

Verðhækkun íslenzkra fiskafurða á erlendum markaði á þessu ári veldur því, að heldur er farið að birta í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur nú gott tækifæri til að nota þetta óvænta happ til að framkvæma þær aðgerðir, sem menn hafa beðið lengi eftir.

Verðhækkunin er um 35% í íslenzkum krónum og er aðeins að litlu leyti vegna gengissigs krónunnar. Hún er að enn minna leyti vegna aukinnar framleiðslu fiskafurða hér á landi. Hún er að verulegu leyti hrein verðhækkun í hörðum gjaldmiðli á óbreyttu vörumagni.

Þessi verðhækkun er svipuð verðbólgu ársins. Það má því segja, að óbeint vegi hún á móti verðbólgunni og valdi því, að ekki þurfi að lækka gengi krónunnar að þessu sinni, að minnsta kosti ekki vegna verðbólgu ársins.

Áhrif verðhækkunarinnar eru mun víðtækari. Skuldir Íslendinga við útlönd hætta skyndilega að hrannast upp. Þetta gerist einmitt á þeim tíma, er skuldasöfnunin var að verða þjóðarbúinu óbærileg. Verðhækkunin kemur þannig eins og frelsandi engill á síðasta andartaki.

Verðhækkunin ætti líka að geta leitt til kjarabóta almennings, án þess að atvinnuvegunum sé íþyngt. Það er að vísu ekki sama, hvernig á því máli verður haldið. Kjarabætur á línuna yrðu lítils virði. En kjarabætur hinna verst settu gætu gert mikið gagn, auk þess sem knýjandi nauðsyn er orðin á slíkri umbót.

Loks ætti verðhækkun að geta hjálpað ríkisstjórninni til að skrúfa niður verðbólguna. Það byggist á því, að verðhækkunin ætti að auka veltuna Í þjóðfélaginu. Hið opinbera á þá auðveldara með að láta sér nægja minni hlutdeild en áður í þjóðarbúskapnum. Ríkisstjórnin getur sem sagt notað tækifærið til að lækka skattana.

Lánið leikur því við ríkisstjórnina um leið og það leikur við þjóðina í heild. Ef ríkisstjórnin grípur nú tækifærið, má margt fyrirgefa henni af fyrri syndum.

Við afgreiðslu fjárlaga þarf ríkisstjórnin nú að sjá til þess, að geiri hins opinbera af þjóðarbúinu lækki úr 36% niður Í þau 32%, sem hann var á tíma vinstri stjórnarinnar, og síðan árið eftir niður Í þau 28%, sem hann var á tíma viðreisnarstjórnarinnar.

Þar með getur stjórnin lækkað skatta einstaklinga og fyrirtækja mjög verulega. Hún getur lækkað þá enn meira, ef hún lætur breyta skattalögunum á þann hátt, að skattur náist af þeim, sem hingað til hafa sloppið vel eða alveg við að greiða í samræmi við tekjur og lífsstíl.

Afleiðingin af erlendri verðhækkun, samdrætti ríkisgeirans, kjarabótum almennings og lækkun skatta yrði sú, að atvinnulífið mundi leysast úr læðingi. Þar með væri lagður grundvöllur að auknum umsvifum í atvinnulífinu, auknum hagvexti og síðan enn auknum kjarabótum.

Ríkisstjórnin þarf nú að grípa þéttingsfast um haldreipi hinna erlendu verðhækkana. Hún má ekki nota það til að auka sukkið sitt, heldur til að bjarga sér og þjóðinni aftur á þurrt land. Þá munu menn fljótt gleyma ömurlegri fortíð ríkisstjórnarinnar, enda er batnandi manni bezt að lifa.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið