Hálf þjóðin komin á prozak?

Greinar

Hefðbundin blaðamennska var í sæmilegum metum í landinu fyrir hálfum eða heilum áratug. Fáir efuðust um, að lyfta þyrfti hér og þar steinum til að sjá, hvernig pöddur þeyttust fram og til baka. Nú er öldin önnur, hálf þjóðin telur ekki við hæfi, að fjallað sé um svokölluð einkamál.

Það er eins og hálf þjóðin hafi á fáum árum orðið sátt við stöðu sína í tilverunni og hafi engar spurningar um, hvort rétt sé staðið að málum. Svið einkamála hefur verið víkkað út, til dæmis fyrir tilverknað Persónuverndar. Enda eru flestir fjölmiðlar ljúfari en þeir voru fyrir þremur árum.

Efahyggja hefur látið undan síga. Menn taka orð fyrirmanna góð og gild og sumir telja það jafnvel vera landráð að efast um þau. Almennt er talið, að guð gefi þeim hæfileika, sem hann hefur gefið embætti. Endalaus röð hneykslismála fær ekki hnikað velþóknun hálfrar þjóðarinnar á stjórnarháttum.

Hálf þjóðin býr í hugarheimi, þar sem hún tekur gott og gilt, að ráðamenn segi: Treystu mér. Það kemur greinilega fram, að hálf þjóðin trúir fyrirfram, þegar hagsmunaaðilar af ýmsu tagi halda fram, að fjölmiðlar fari með rangt mál. Raunar telur þetta fólk almennt, að fjölmiðlar ljúgi.

Nú er ástandið orðið þannig, að rót kemst á hugi margra, þegar fjölmiðlar grafa upp mál og segja sannleikann. Menn segja ekki beint, að oft megi satt kyrrt liggja, en segja í staðinn, að fjölmiðlar taki of lítið tillit til fólks. Það sem áður þótti fín blaðamennska, er nú kölluð gula pressan.

Eins konar Morgunblaðsværa hefur lagzt yfir þjóðina. Menn lifa og hrærast í fullvissu þess, að hver dagur sé öðrum líkur. Fréttir fjalli að mestu leyti um góðverk stofnana og fyrirtækja. Varla falli nokkur blettur á þetta himnaríki. Á endanum deyi fólk í hafsjó minningargreina um ágæti allra.

Verstir eru álitsgjafarnir, einkum þáttastjórnendur, sem telja sig sennilega vera hluta yfirstéttar, er hefur hag af því almannaáliti, að allt sé í fínu lagi hér á landi og að sóðalegt sé að flytja sannar fréttir af öðru tagi. Svo sterk afneitun staðreynda hefði verið óhugsandi fyrir fjórum árum.

Mér finnst ég koma inn í nýtt þjóðfélag, afturhaldssamara og kreddufastara en það var fyrir fjórum árum. Einkum er það þó leiðinlegra. Kannski er hálf þjóðin bara komin á prozak.

DV