Hálf skýring á hruni.

Greinar

Sú tillaga Vilmundar Gylfasonar, að þjóðin greiði atkvæði um fyrra efnahagsfrumvarp Ólafs Jóhannessonar, stuðlaði að fylgishruni Alþýðuflokksins, sem síðasta skoðanakönnun Dagblaðsins hefur leitt í ljós.

Alþýðuflokkurinn hélt enn kosningafylgi sína, þegar Dagblaðið kannaði hugi fólks í desember. Þá trúðu menn á hina nýju menn Alþýðuflokksins og baráttu þeirra við verðbólguna og aðra eldspúandi dreka þjóðfélagsins.

Þá var ríkisstjórnin svo ung, að hinir nýju kjósendur Alþýðuflokksins höfðu enn von um, að honum tækist að móta stefnu ríkisstjórnarinnar að verulegu leyti. Þessir kjósendur töldu flokkinn þá ekki vera pappírstígrisdýr.

Síðan þá hefur þjarkið haldið áfram í ríkisstjórninni. Um skeið virtist svo sem verðbólguandúð Alþýðuflokksins yrði ofan á í samdráttarfrumvarpi Ólafs Jóhannessonar. En þá venti hann sínu kvæði í kross og þynnti frumvarpið verulega að ráði Alþýðubandalagsins.

Þannig var staðan, þegar Dagblaðið spurði fólk um stuðning þess við stjórnmálaflokka. Þessi staða skýrir þó ekki ein hið skyndilega hrun fylgis Alþýðuflokksins úr 21-22% í 15%. Þar kemur fleira til.

Það er rangt hjá þingmönnum Alþýðuflokksins, að kjósendur séu að hengja bakara fyrir smið. Þeir líta fram hjá því, að í sumar voru hinir nýju kjósendur Alþýðuflokksins öðruvísi kjósendur en kjósendur annarra flokka.

Hinir nýju kjósendur Alþýðuflokksins voru einmitt þeir, sem vildu og vonuðu, að flokkurinn næði árangri gegn verðbólgu og spillingu þjóðfélagsins. Kjósendur hinna flokkanna höfðu ekki eins mikinn áhuga á þessum málum.

Þegar ríkisstjórninni mistekst að berjast gegn verðbólgu og spillingu, veldur það ekki kjósendum Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins miklum áhyggjum, því áhugi þeirra er á öðrum sviðum. Það veldur hins vegar hinum nýju kjósendum Alþýðuflokksins verulegum áhyggjum.

Þegar ríkisstjórninni mistekst að berjast gegn verðbólgu og spillingu, eru það einmitt hinir nýju kjósendur Alþýðuflokksins, sem hlaupa frá ríkisstjórninni og í faðm stjórnarandstöðunnar, Sjálfstæðisflokksins.

Alþýðuflokkurinn verður bara að sæta því, að hann fékk í hausinn í sumar nýja kjósendur, sem gerðu til hans meiri kröfur en kjósendur hafa almennt gert til stjórnmálaflokka. Á slíkum kjósendum er ekki auðvelt að hafa hemil.

En eitthvað hefur gerzt á síðustu vikum, sem hefur sannfært töluverðan hluta hinna nýju kjósenda Alþýðuflokksins um, að flokkurinn væri í rauninni pappírstígrisdýr, sem réði engan veginn við samstarfsflokkana í ríkisstjórn.

Tímans tönn hefur án efa haft sitt að segja. Þó var það eitt framtak Alþýðuflokksins framar öðrum, sem kjósendur sáu gegnum. Það var tillagan um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar vanmat Vilmundur skilning kjósenda.

Meirihluti landsmanna er áreiðanlega fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum um skýrar spurningar, sem hægt er að svara með jái eða neii. En kjósendur sáu, að efnahagsfrumvarpið var allt of langt og flókið mál til að svara með jái eða neii.

Allt í einu mundu hinir nýju kjósendur Alþýðuflokksins eftir því, að hinir stjórnmálaflokkarnir höfðu gegndarlaust hamrað á, að hinir nýju þingmenn Alþýðuflokksins væru bara lýðskrumarar og pappírstígrisdýr, sem lékju skrípaleiki á þingi.

Og margir kjósendur fóru að trúa þessu. Þar réð nokkru tillagan um þjóðaratkvæði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið