Líkur benda til, að undirskriftir áskorunar Varins lands verði um 55.000, þegar búið er með aðstoð tölvu að vinza úr tvítalningar og fólk undir kosningaaldri. Ekki er vitað um neitt dæmi heima eða erlendis um hlutfallslega jafnmikla þátttöku í áskorun í umdeildu máli.
Raunar ætti ekki að koma neinum á óvart, að andstæðingar ótímabærrar brottfarar varnarliðsins séu í miklum meirihluta með þjóðinni. Skoðanakannanir Vísis á undanförnum árum hafa bent til þess, að tveir af hverjum þremur Íslendingum séu í þessum meirihluta.
Athyglisverðara er hve ákveðinn þessi meirihluti er í skoðun sinni. Hann er ekki lengur þögull meirihluti, sem stjórnvöld komast hjá að taka mark á. 55.000 manns af þessum meirihluta hafa sameinazt um virka afstöðu, áskorun og aðvörun til ríkisstjórnarinnar.
Þessi virka afstaða stafar meðal annars af ótta manna við víxlspor af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að undanförnu hafa menn horft í vaxandi gremju á loftfimleika ráðherra Framsóknarflokksins í varnarmálunum og óttast, að þeir endi með slysi.
Hin ótrúlega mikla þátttaka í áskoruninni er ábending til ríkisstjórnarinnar um, að hún hafi ekki siðferðilegt umboð til að knýja hálfgerða eða algera brottför varnarliðsins í gegn á Alþingi. Í síðustu kosningabaráttu var mjög lítið fjallað um varnarmálin. Þá var fyrst og fremst kosið um landhelgismálið.
Um leið felst í undirskriftunum áskorun um, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð varnarliðsins, svo að menn geti ekki lengur neitað að viðurkenna, hvar meirihluti þjóðarinnar stendur í málinu. og jafnframt felst í þeim ábending til ráðherra Framsóknarflokksins um, að andstæðingar brottfarar varnarliðsins kunni að vera í meirihluta meðal þeirra, sem hingað til hafa kosið flokkinn.
Meirihluti þjóðarinnar telur vera sjálfstæðislega, þjóðernislega og menningarlega nauðsyn á því, að Ísland sé varið land. Hann telur núverandi samstarf um varnir landsins hafa gefizt vel og ekki valda neinum þjóðernislegum, menningarlegum eða siðferðilegum skaða.
Meirihluti þjóðarinnar telur nauðsynlegt að gera greinarmun á óskhyggju og raunveruleika í alþjóðamálum. Menn þrá vissulega friðaröld í Evrópu en sjá jafnframt, að friðarfundir stórveldanna á síðustu misserum hafa ekki enn fært þá friðaröld nær. Menn eru andvígir tilraunastarfsemi í varnarmálunum, meðan svo stendur
Hinir 55.000 áskorendur hafa sagt við ráðherra Framsóknarflokksins: Hættið loftfimleikunum í samstarfinu við Alþýðubandalagið og komið aftur niður á jörðina.
Jónas Kristjánsson
Vísir
