Grunsamlega síðbúin

Greinar

Skattafrumvörpin tvö, sem ríkisstjórnin lagði fyrir alþingi á mánudaginn, eru of síðbúin. Þingmenn geta með engu móti brotið þau til mergjar á þeim um það bil þremur vikum, sem eftir eru af þingtímanum.

Tvennt er einkum grunsamlegt við frumvörpin. Í fyrsta lagi sýnir reynslan, að annarlegar hvatir fá stjórnvöld stundum til að kasta fram málum sínum á síðustu stund og ætlast síðan til, að þau séu keyrð í gegn af offorsi með skírskotun til tímaskorts.

Í öðru lagi eru frumvörpin grunsamlega sykurhúðuð. Höfundarnir fullyrða, að þau muni lækka skatta um einn milljarð króna. Það getur verið satt, en fáir munu samt trúa við fyrstu sýn. Menn eru vanir vísvitandi blekkingum fjármálaráðuneytisins.

Áhugamönnum um skattamál er enn í fersku minni, hversu harðlega var gagnrýnd síðasta tilraun stjórnvalda til að sérskatta hjón. Þegar menn höfðu fengið tækifæri til að kryfja það frumvarp til beins, sáu menn margvíslegar fjárhagslegar og þjóðfélagslegar afleiðingar, sem höfundarnir höfðu ekki flíkað.

Gagnrýnendum hlýtur að fyrirgefast, þótt þeir séu tregir til að trúa, að nýtt frumvarp um sérsköttun hjóna sé svo miklu betra hinu fyrra, sem ætla mætti af greinargerð hins nýja frumvarps. Þeir þurfa allt sumarið til að komast að því, hvað er í rauninni undir sykurhúðinni.

Þingmenn hafa nú tækifæri til að láta reyna á, hvort alþingi er sjálfsafgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins. Þeir geta afgreitt skattafrumvörpin í blindni, hver eftir stöðu sinni í flokkakerfinu. Og þeir geta líka stungið við fótum og leitað umsagna úti í þjóðfélaginu.

Auðvitað tekur það hlutaðeigandi þingnefnd allt sumarið að safna saman rökstuddum umsögnum sérfróðra manna, hagsmunaaðila og annarra, sem áhuga kunna að hafa á málinu. Komi þá í ljós, að frumvörpin séu jafnsykursæt í gegn og höfundarnir vilja vera láta, er unnt að gera þau að lögum á næsta hausti.

Af tvennu illu er skárra að flýta frumvarpinu um staðgreiðslu skatta. Í fyrsta lagi hafði afgreiðslu þess verið sterklega lofað. Og í öðru lagi er staðgreiðslan lítt umdeilt mál, sem hefur verið ofarlega á baugi í nærri hálfan annan áratug.

Vandinn við staðgreiðsluna er sá, að embættismennirnir sjálfir hafa verið hræddir um, að hún yrði of flókin í framkvæmd. Þeir hafa frestað málinu hvað eftir annað í von um að finna leiðir til að einfalda staðgreiðsluna.

Utan úr þjóðfélaginu hafa hins vegar ekki heyrzt margar raddir gegn staðgreiðslu. Þess vegna mætti ætla, að frumvarpið sé í lagi, úr því að hinir efagjörnu embættismenn hafa hleypt því frá sér.

Samt er engan veginn í lagi, að þingmenn ákveði veigamiklar breytingar á fjármálakerfi þjóðarinnar á hinum litla umhugsunartíma, sem eftir er á þessu vori. Slík vinnubrögð væru til skammar.

Þetta gildir enn frekar um almenna skattafrumvarpið um sérsköttun og fleira. Þar er um að ræða atriði, sem alþingi hefur áður saltað vegna útbreiddrar andstöðu utan þings. Fráleitt er, að þingmenn geti nú samþykkt slík atriði umhugsunarlítið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið