Gríðarlegt hálsmál

Punktar

Kínverska lopapeysan er skondið dæmi um heimsku gagnslausa ferðamálaráðherrans. Tók frí frá umræðu um „gríðarlega“ vinnu í ráðuneytinu við að ná „gríðarlegri“ samstöðu um ferðamál. Án þess að nokkuð hafi gerzt. Ráðherrann náði sér í ferð með Icelandair til að færa borgarstjóra Chicago „íslenzka“ lopapeysu. Var að vísu ekki íslenzk, heldur kínversk. Og ekkert lík lopapeysu. Með svo gríðarlegu hálsmáli, að vestra töldu menn þetta vera pils, íslenzka útgáfu af Skotapilsi. Því miður náðist ekki mynd af borgarstjóranum stíga í peysuna og hysja hana upp um sig. Hefði verið frábær endapunktur á gríðarlega brýnni ferð ráðherrans.