Gremjan jókst og blaðran sprakk

Greinar

Taugaveiklun ríkir um þessar mundir hjá þeim dagblöðum, sem í fjölmiðlakönnun Hagvangs reyndust hafa minni sölu og lestur en þau höfðu sjálf haldið fram. Bæði Morgunblaðið og Vísir hafa reynt að flagga niðurstöðunum sem minnst.

Blaðran sprakk þó hjá Morgunblaðinu á laugardaginn. Gremjan var orðin mikil eftir nærri daglegar fréttir í Dagblaðinu upp úr skýrslu Hagvangs. Sérstaklega sárnaði leiðarahöfundi Morgunblaðsins, að Dagblaðið hefur á mánudögum meiri sölu en Morgunblaðið hefur aðra daga í sex af átta kjördæmum landsins.

Leiðarahöfundindum sást ekki fyrir, þegar hann sló frá sér og hitti sitt eigið Morgunblað. Hann hélt því fram, að Dagblaðið seldist í 24.000 eintökum. Þar með heldur hann því fram um leið, að Morhgunblaðið seljist ekki nema í 32.000 eintökum.

Söluhlutföllin eru skýr í greinargerð Hagvangs. Morgunblaðið hefur prósentuna 70, Dagblaðið 53 og Vísir 38. Gefi menn sér söluna á einu þessara blaða, hafa menn söluna á öllum þremur.

Dagblaðið heldur því fram, að Morgunblaðið seljist í 35.000 eintökum, Dagblaðið í 26.500 eintökum og Vísir í 19.000 eintökum.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir, að svokölluð “lestrarvirkni Morgunblaðsins” hafi komið ´óvart í könnuninni. Það hefur kannski komið honum á óvart, að könnunin sýnir, að Morgunblaðið er minna lesið en það er keypt. Dagblaðið er þvert á móti meira lesið.

Dagblaðið hefur 82% af lestri Morgunblaðsins og sennilega um 95% á mánudögum. Þessar tölur eru staðreynd, þótt Morgunblaðið segi Dagblaðið vera rúmlega hálfdrætting á við Morgunblaðið. Samkvæmt pólitískri tölfræði leiðarahöfundarins er 82% “rúmlega” helmingur af 100%!

Auðvitað þarf Morgunblaðið að hjálpa litla bróður, Vísi, og segir Daglbaðið hafa “lítillega vinninginn yfir Vísi”. Staðreynd talna Hagvangs er sú, að Dagblaðið hefur 40% meiri sölu en Vísir. Samkvæmt tölfræði Morgunblaðsins eru þessi 40% “lítilleg”.

Leiðarahöfundurinn gefur í skyn, að helgarblað Vísis gangi næst Morgunblaðinu í sölu. Staðreynd talna Hagvangs er hins vegar sú, að það er mánudagsblað Dagblaðsins, sem gengur næst Morgunblaðinu. Á mánudögum nær sala Dagblaðsins til 63% þjóðarinnar.

Enginn þarf að vera hissa, þótt Vísir hafi ekki mörg orð um niðurstöður könnunarinnar. Í samkeppni hans við Dagblaðið hélt hann því fyrst fram, að hann væri mest selda síðdegisblaðið. Síðan hélt hann því fram í blaðhaus, að Vísir væri “mest lesna” síðdegisblaðið.

Nú hefur hann enn orðið að rifa seglin og segist nú bara vera “vinsælli en nokkru sinni fyrr”. Í leiðara blaðsins er fjallað um “verulega sókn”, sem felst væntanlega í minnkun sölu úr 23.000 eintökum fyrir fjórum árum niður í 17.000-19.000 eintök nú.

Það gildir bæði um Morgunblaðið og Vísi, að þau ýta frá sér staðreyndum fjölmiðlakönnunar Hagvangs og hverfa inn í heim ímyndunaraflsins. Munurinn er sá, að Vísir svífur talnalaus, en Morgunblaðið styðst við falsaðar tölur, sem það gefur í skyn, að séu úr Hagvangsskýrslunni, en eru það ekki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið