Grafið undan valdinu

Greinar

Ungt hugsjónafólk frá Vesturlöndum hefur látið til sín taka í Palestínu að undanförnu. Það situr í sjúkrabílum til að draga úr líkum á, að her Ísraels skjóti á bílana. Það situr með fjölskyldum Palestínumanna til að draga úr líkum á, að skriðdrekar Ísraels brjóti niður heimili þeirra.

Nærvera þessa unga fólks hamlar aðgerðum hersins, sem telur líf Palestínumanna einskis virði, en reynir að fara varlegar, þegar útlendingar eiga í hlut. Af fádæma hugrekki skipta útlendingarnir sér niður á svæði og mynda mannlega skjaldborg til varnar hjálparvana Palestínumönnum.

Um leið er skjaldborgin vitni að margvíslegum fólskuverkum Ísraelshers. Þau eru skráð og eiga eftir að koma ofbeldisríkinu í koll, þegar upplýsingunum verður safnað saman. Þar verða frásagnir af markvissri eyðingu innviða, svo sem raflína og vatnslagna, skóla og sjúkraskýla.

Enn alvarlegri minnisvarði um hernaðarstefnu sviðinnar jarðar verða frásagnir útlendinganna af meðferð hersins á óbreyttum borgurum. Þar á meðal verða frásagnir af skothríð á konur og börn, markvissar niðurlægingar ungra manna og almennt ofbeldi herraþjóðar í garð undirþjóðar.

Hvaða útlendingar eru þetta, sem eru að fórna sér fyrir málstað réttlætisins í Palestínu?. Komið hefur í ljós, að þetta er sumpart sama fólkið og hefur verið að ögra valdastofnunum Vesturlanda á allra síðustu misserum og sumpart fólk úr sömu áhugahópum baráttu gegn valdastéttum.

Útlendingarnir koma beint frá aðgerðunum í Barcelona á Spáni, þar sem 250.000 manns mótmæltu í síðasta mánuði fyrirhuguðum lögum gegn stéttarfélögum í sumum Evrópulöndum. Þetta er fólk með reynslu af mótmælaaðgerðum frá Genova á Ítalíu og Seattle í Bandaríkjunum.

Fólkið er í laustengdum hópum, sem smám saman eru að efla tengsl milli landa. Erfitt er að henda reiður á stöðu hópanna, því að þeir forðast miðstýringu og fastmótaða hugmyndafræði. Þeir skipta um baráttumál og -tækni eftir aðstæðum og þörfum hvers staðar og hvers tíma.

Stundum mótmæla hóparnir alþjóðlegum fjármálastofnunum á borð við Alþjóðabankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem ætlast til að sárþjáðar þjóðir þriðja heimsins endurgreiði peninga, er þessar stofnanir hafa afhent valdamönnum og þeir lagt inn á bankareikninga sína í Sviss.

Stundum mótmæla hóparnir fjölþjóðlegum hernaðarbandalögum á borð við Atlantshafsbandalagið, sem sakað er um beina eða óbeina aðild að auknum tilraunum Bandaríkjanna til að verða eins konar Rómarveldi nútímans. Kannski fjölmenna þeir á Nató-fundinn í Reykjavík í vor.

Stundum mótmæla hóparnir mengun umhverfisins og spjöllum á náttúrunni í þágu auðugra fyrirtækja af því tagi, sem við þekkjum undir nöfnunum Norsk Hydro og Landsvirkjun. Kannski eigum við eftir að sjá eitthvað af þessu fólki, þegar stærsta ósnortna víðerni Evrópu verður spillt.

Sjónvarpsstöðvar Vesturlanda hafa gefið ranga mynd af þessu fólki með áherzlu á myndskeið af skemmdarverkum og óeirðum, sem aðrir hópar hafa valdið eða þá beinlínis lögreglan sjálf, svo sem raunin varð í Genova. Stjórnvöld hafa einnig reynt að líkja fólkinu við hryðjuverkamenn.

Meginþráður mótmælanna í Seattle og Genova, Barcelona og Betlehem er samstaða hópa um baráttu gegn valdinu í heiminum, gegn misbeitingu valdsins í þágu þeirra, sem betur mega sín.

Jónas Kristjánsson

FB