“Blilkbeljan” og “taprekstur” strætisvagnanna eru meðal skemmtilegustu deiluefna Íslendinga á síðustu árum. Skiptast menn í tvo flokka heitrar trúar og óheftra tilfinninga eftir dálæti sínu eða óbeit á tveimur tegundum fólksflutninga á bílum.
Öðrum hópnum finnst það argasta tegund sósíalisma, að Reykjavíkurborg skuli árlega greiða nokkur hundruð milljónir króna til að standa undir taprekstri strætisvagna borgarinnar. Þessi svokallaði taprekstur kann samt að vera meira eða minna ímyndaður.
Því meira sem fólksflutningar í borginni færast úr einkabílum yfir í almenningsvagna, þeim mun minna álag verður á gótum borgarinnar. Götur þurfa ekki að vera eins breiðar, gatnamót þurfa ekki að vera eins flókin og meiri líkur eru á, að umferðarbrýr sparist.
Ýmis fleiri dæmi, svo sem minni slysahættu, má nefna um sparnað borgarinnar af rekstri almenningsvagna. Slíkum sparnaði gleyma menn stundum, þegar þeir eru að hneyklsast á taprekstri strætisvagnanna.
Ekki má heldur gleyma því, að fjölmennur minnihluti bæjarbúa getur ekki notfært sér einkabíla. Þetta eru börn og gamalmenni, líklega um 40% íbúa Reykjavíkur. Þessi hluti borgarbúa á kröfu á, að haldið sé uppi í borginni nothæfu kerfi almenningssamgangna.
Hitt er jafnfráleitt að vilja útrýma einkabílnum, þótt hann blási frá sér blendnum gufum og magni þörfina á gatnagerð og gatnaviðhaldi. Í rauninni hagnast hið opinbera meira á bíleigendum en nokkrum öðrum hópi þjóðfélagsins.
Ríkið gerir allt til þess að halda mönnuö frá einkabílum. Það tollar bíla margfalt hærra en aðrar vörur. Og það skattleggur bensín margfalt hærra en aðrar rekstrarvörur. Bíleigendur eru sá hópur, sem mest er skattlagður hér á landi.
Samt vilja svo að segja allir eiga sinn eigin bíl og láta sig hafa það, þrátt fyrir allan kostnaðinn. Það er óskhyggja að tala um afnám einkabílismans, meðan þorri manna leggur svo hart að sér til að eiga sinn eigin bíl.
Einkabíllinn er sálræn nauðsyn nútímamanni. Einkabíllinn er ein aðferð hans til að verða frjáls og geta farið sínar eigin götur. Við sjáum það líka sums staðar erlendis, að menn ferðast fremur á eigin bíl heldur en í lest, þótt hið síðara sé fljótlegra, ódýrara og þægilegra.
Bezta röksemd einkabílsins er samt sú, að þeir, sem hafa verið að agnúast út í hann, hafa yfirleitt fengið sér sinn eigin bíl um leið og þeir hafa talið sig hafa efni á því. Það er óhætt að spá því, að einkabíllinn muni lifa það af, að allt bensín verði þorrið á jörðinni.
Bíleigendur gera miklu meira en að borga kostnaðinn af umferðinni í landinu. Gallinn í kerfinu er sá, að þessar gífurlegu tekjur renna nærri allar til ríkisins, en ættu að renna að töluverðum hluta til sveitarfélaganna, sem í rauninni þurfa að veita bíleigendum meiri þjónustu en ríkið þarf.
Einkabíllinn og almenningsvagninn eiga báðir jafnmikinn rétt á sér. Deilur manna gegn “blikkbelju” og “taprekstri” strætisvagna eru vissulega skemmtilegar, en bera samt vitni um of heita trú og of óheftar tilfinningar, samfara miklum skorti á skynsemi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið