Glýja í augum

Greinar

Ráðamenn Tímans sjá nú óvígan óvinaher sækja að Framsóknarflokknum úr öllum áttum. Fremst telja þeir fara Dagblaðið og í fátinu telja þeir það steðja að frá hægri og vinstri í senn.

Annan daginn segir Tíminn, að Dagblaðið sé málgagn “afturhaldssömustu” afla Sjálfstæðisflokksins, svonefndra “Glistrupista”, sem séu svo hægrisinnaðir, að þeir haldist varla við í Sjálfstæðisflokknum.

Hinn daginn segir Tíminn, að Dagblaðið sé málgagn vinstri flokkanna í stjórnarandstöðu, fullt af “kommadekri” og “hrifið af ýmsu austan járntjalds”.

Þeir, sem verjast með þessum hætti, vita greinilega ekki sitt rjúkandi ráð. Enda er það orðið eina haldreipi Tímans, að fleiri sú vondir en framsóknarmenn. leita ráðamenn Tímans langt til fanga því til stuðnings.

Reiði Tímans í garð Þjóðviljans er að sumu leyti réttlætanleg. Þjóðviljinn þagði á sínum tíma um húsakaup Halldórs E. Sigurðssonar ráðherra, þegar málið komst upp á dögum vinstri stjórnarinnar. Það er því kyndugt, er Þjóðviljinn gerir nú svo miklu meiri kröfur til hægri stjórnar, að hann heimtar daglega afsögn Halldórs vegna húsakaupanna. Þjóðviljinn ætti raunar forsögunnar vegna að þegja þunnu hljóði um það mál.

Í hefndarskyni hefur Tíminn blásið út skattamál Lúðvíks Jósepssonar og reynt að gera hann tortryggilegan. Nánari upplýsingar virðast þó leiða í ljós, að Lúðvík beri eðlilega skatta miðað við lög og reglur.

Gagnvart Dagblaðinu reynir Tíminn að hefna sín með því að tala um afskipti framkvæmdastjóra þess af Ármannsfellsmálinu sem saknæm. Gerði hann þó ekki annað en að reyna að afla gjafa til hins nýja sjálfstæðishúss eins og margir fleiri og eins og menn í öðrum flokkum reyna að útvega gjafir til húsbygginga sinna flokka.

Sakadómsrannsókn leiddi ekki í ljós neina milligöngu hans, er Ármannsfelli var úthlutað lóð í Reykjavík, enda liggur það í augum uppi af þeirri staðreynd einni, að hann var um þessar mundir að selja þau 4%, sem hann átti Í fyrirtækinu, og hafði því ekki hagsmuna að gæta.

Ennfremur virðist Tíminn telja það saknæmt athæfi að kaupa og selja sumarbústaði.

Þá reynir Tíminn líka að hefna sín á Alþýðublaðinu, m.a. með því að fjalla um gjaldþrot blaðsins sem saknæman hlut. Flestir munu þó fremur hafa samúð með þeim Alþýðuflokksmönnum, sem bundust samtökum til að dreifa tapi blaðsins persónulega á sínar herðar. Þarf enginn að verða hissa, þótt þeir reyni að fá skattafrádrátt vegna þeirra kárína.

Þau skrif, sem ráðamenn Tímans hafa reiðzt, hafa yfirleitt verið hófsamlega ritaðar ábendingar um, að skjalfest gögn bendi til óhæfilegs fjármálalegs frjálslyndis ýmissa manna í tengslum við Framsóknarflokkinn. Hins vegar er ákaflega þunnur þrettándinn Í hefndarskrifum Tímans.

Ráðamenn blaðsins þurfa raunar ekki að leita óvina sinna á öðrum blöðum eða í öðrum flokkum. Þeir eiga að líta sér nær. Hinir raunverulegu óvinir Framsóknarflokksins eru þeir menn, sem hafa haft flokkinn að skálkaskjóli í braski með lán og peninga, völd og verðbólgu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið