Glámuheiði

Frá botni Ísafjarðardjúps til Arnarfjarðar.

Nú á dögum er Gláma sjaldan farin. Í Árbók FÍ er leiðin niður í Dýrafjörð talin liggja norðar en hér er sýnt, fyrir norðan Sjónfríði og um Þingmannavatn. Sú leið er hér kölluð Glámuheiði nyrðri.

Á Sturlungaöld var ekki jökull á Glámu frekar en í dag og því var leiðin um hana kölluð Glámuheiði. Þorvaldur Vatnsfirðingur fór 1213 norðan úr Ísafirði um Glámuheiði til Arnarfjarðar í aðför að Hrafni Sveinbjarnarsyni á Eyri. Þorvaldur sendi 1222 Hallbjörn Kalason út yfir Glámu á Sanda í Dýrafirði til Odds Álasonar til að hvetja hann til að letja Hrafnssyni til hefnda. Órækja Snorrason fór 1234 yfir Hestfjarðarheiði og Grunnvíkingar samtímis yfir Glámuheiði og fundust þeir í Arnarfirði innan við Eyri og fóru að Oddi Álasyni.

Byrjum í botni Ísafjarðardjúps. Úr Ísafirði fóru menn suður á heiðina um Gjörfadal, þar sem heitir Skálmardalsheiði. Beygðu svo til vesturs eftir háheiðinni. Einnig mátti fara upp á heiðina úr öðrum fjörðum Ísafjarðardjúps, Mjóafirði, Skötufirði, Hestfirði og Álftafirði. Niður af heiðinni mátti fara í botn Dýrafjarðar og þaðan út á Sanda eða niður í botn Arnarfjarðar og þaðan út að Eyri. Þannig var farið kruss og þvers um Glámu. Hún var þjóðvegur þess tíma, allt í 900 metra hæð. Þetta var stytzta og fljótasta leið milli fjarða á Vestfjörðum.

Glámuheiði 41,5 km
Vesfirðir

Nálægar leiðir: Eyrarfjall, Skálmardalsheiði, Mjólká, Lokinhamrar, Göngudalsskarð, Kvennaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins