Gjáin víkkar ört

Greinar

Ný skoðanakönnun í Bandaríkjunum og Evrópu sýnir, að viðhorf kjósenda til alþjóðamála hafa þróast í gagnstæðar áttir í þessum tveimur heimshlutum síðan George W. Bush tók við völdum í Bandaríkjunum. Með sama framhaldi verða alger vinslit milli þessara gömlu bandamanna.

Bandaríkjamenn styðja Ísraelsmenn, en Evrópumenn styðja Palestínumenn. Bandaríkjamenn telja, að Írak, Íran og Norður-Kórea myndi öxul hins illa, en Evrópumenn telja ekki vera samband þar á milli. Bandaríkjamenn vilja ráðast á Írak, en Evrópumenn vilja það ekki.

Þar á ofan telja Evrópumenn, að svokölluð barátta Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum sé knúin eiginhagsmunum og auki hættuna á hryðjuverkum á Vesturlöndum. Þeir telja, að Bandaríkin stundi einstefnu, taki ekkert tillit til bandamanna sinna og ráðist raunar á þá með tollum og höftum.

Skarpur munur er milli meirihluta og minnihluta í öllum þessum tilvikum. Skilaboð kjósenda eru því skýr. Þeir hvetja landsfeður sína til að gefa ekki eftir í ágreiningsefnum Evrópu og Bandaríkjanna. Stjórnmálamenn beggja vegna hafsins munu græða pólitískt á að víkka gjána.

Þessi viðhorf endurspeglast á ráðstefnum, þar sem bandarískir og evrópskir sérfræðingar ræða málin. Bandaríkjamenn telja Evrópumenn vera úti að aka án skilnings á hættunni. Þeir telja, að Bandaríkin þurfi ekki lengur evrópska bandamenn, sem séu bara með japl og jaml og fuður.

Evrópumenn telja, að hryðjuverk eigi sér rætur í forsendum, sem ekki læknist með hernaði. Þeir telja hirðina kringum Bush forseta vera æðikolla. Þeir vilja, að Evrópa leggi stóraukna áherzlu á innra samstarf og eigin hermál og svari viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna fullum fetum.

Ekki sízt eru Evrópumenn ákaflega ósáttir við, að Bandaríkin eru kerfisbundið farin að neita að taka þátt í fjölþjóðlegum sáttmálum og stofnunum. Hæst ber þar nýja stríðsglæpadómstólinn í Haag og staðfestingu Kyoto-bókunarinnar um mengun loftsins, hvort tveggja evrópsk baráttumál.

Með sama áframhaldi gefast báðir aðilar upp á Atlantshafsbandalaginu, sem hingað til hefur verið helzta tákn Vesturlanda. Á sama tíma og tíu ríki Austur-Evrópu eru um það bil að ganga í bandalagið er það sjálft búið að fá eins konar heilablóðfall af völdum ágreinings í gamla kjarnanum.

Í alvöru er farið að tala um, að nýtt bandalag sé að rísa milli Bandaríkjanna, Ísraels og Rússlands, sem öll eiga í höggi við skæruliða. Það verði stutt ríkjum á borð við Kína og Tyrkland, sem vilja stunda ríkisrekin hryðjuverk gegn undirokuðum minnihlutaþjóðum á borð við Tíbeta og Kúrda.

Evrópskir kjósendur, stjórnmálaskýrendur og sérfræðingar telja Evrópu ekki eiga heima í slíkum félagsskap. Breið samstaða er í Evrópu um að hafna þeirri heimssýn, sem komst til áhrifa í Bandaríkjunum við valdatöku George W. Bush og að hafna einhliða aðgerðum Bandaríkjanna.

Á næstu fundum Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal í Reykjavík í maí, verður með orðskrúði reynt að breiða yfir þá staðreynd, að framtíð bandalagsins er orðin ótrygg. Ísland flækist inn í deiluna vegna viðskiptahagsmuna sinna í Evrópu og varnarhagsmuna í Bandaríkjunum.

Viðhorf fólks á Íslandi til alþjóðamála eru líkari viðhorfum í Evrópu en í Bandaríkjunum. Því er líklegt, að Ísland lendi að lokum Evrópumegin við hina miklu og víkkandi gjá í Atlantshafinu.

Jónas Kristjánsson

FB