Gengislækkun?

Greinar

“Úlfur, úlfur”, hrópa samtök frystihúsaeigenda um þessar mundir. Þau spá 3-4 milljarða taprekstri húsanna á næstu mánuðum, ef þeim verði ekki komið til hjálpar. Að óbreyttu ástandi verði frystihúsin á Suður- og Vesturlandi að loka á næstunni, jafnvel um næstu helgi.

Áróðursherferð frystihúsaeigenda er svo vel skipulögð, að efasemdir hljóta að vakna. Menn muna eftir mörgum fyrri ramakveinum fiskvinnslu og útgerðar og telja eigendur þessara atvinnutækja vera sérfræðinga í að barma sér.

Í sögunni um “úlfinn, úlfinn” hafði stráksi einu sinni rétt fyrir sér og vildi þá svo illa til, að menn voru einmitt hættir að trúa endurteknum ýkjusögum hans. Við megum því ekki skella skollaeyrum við hrópum frystihúsaeigenda, þótt við trúum þeim ekki í blindni.

Ein staðreynd styður fullyrðingar frystihúsaeigenda. Laun starfsfólks húsanna hækkuðu verulega í síðustu kjarasamningum, án þess að húsin hafi nokkra möguleika til að velta kostnaðaraukningunni á viðskiptavini sína í útlöndum. Sú er hin viðkvæma sérstaða útflutningsframleiðslunnar.

Enginn vafi er á, að það er gengislækkun, sem eigendur frystihúsanna eru að biðja um. Það er gamalkunnugt og áhrifamikið ráð, sem oftast hefur átt fullan rétt á sér. Og í hjarta sínu efast enginn kunnugur maður um, að um þessar mundir sé krónan minna virði en gengisskráningin segir.

En ríkisstjórnin á einstaklega erfitt með að verða við óskum frystihúsaeigenda að þessu sinni. Hendur hennar voru óvenju rækilega bundnar í síðustu kjarasamningum. Gengislækkun mundi hafa í för með sér, að eins og hálfs árs kjarasamningar yrðu samstundis lausir. Og þá væri fjandinn laus.

Það er engin furða, þótt samtök launþega vilji ekki sætta sig við gengislækkun. Á núverandi gengi eru lífskjör hér mun lakari en í nágrannalöndunum. Til dæmis er í frásögur færandi, að kjör í sjómennsku og fiskvinnslu eru miklu betri í Færeyjum en hér á landi, þótt færeyskir frystihúsaeigendur selji afurðir sínar á sama verði og íslenzkir.

Gengislækkun mundi auka þennan lífskjaramun af fullum þunga. Þörfina á því er alls ekki unnt að skilja, þrátt fyrir allar tölur og hagfræði. Þess vegna þurfa stjórnvöld nú að svara nokkrum spurningum:

Eru íslenzkir sjómenn og fiskiðjufólk svona verklítið í samanburði við Færeyinga? Eru íslenzk útgerð og fiskvinnsla svona illa rekin í samanburði við færeyska? Eða er skýringarinnar að leita í óhóflegum rekstrarþunga og afskiptasemi hins opinbera, sem meðal annars hefur leitt til offjárfestingar í útgerð og fiskiðju?

Þegar svona dæmi verða örlagarík, er kominn tími til, að stjórnvöld fari að taka mark á kenningunni um auðlindaskatt og fari að leigja aðgang að takmörkuðum auðæfum hafsins á þann hátt, að sókn og veiðilíkur séu í jafnvægi.

Ef hálfur flotinn nægði til að ná fullum afla, mundi hann geta selt hann ódýrar til frystihúsanna. Aðgerðir af því tagi eru varanlegri en gengislækkun.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið