Gamalt og gott

Veitingar

Lönsaði í Múlakaffi í hádeginu eftir of langt hlé. Traustur staður einstæðra leigubílstjóra og núna líka löggumanna. Í boði þríréttað á 2000-2007 krónur. Í dag mátti velja ýsu, plokkfisk, nautapottrétt eða kótilettur. Rósakálssúpa á undan og á eftir rabbarbaragrautur. Minnti á gamla matargerð í mötuneytum fyrir hálfri öld, þegar ég gróf skurði við Írafossvirkjun. Þetta var eftir væntingum. Ýsan fersk og hóflega elduð, ágætis matur, sömuleiðis nýjar hýðiskartöflur. Hrásalat ómerkilegt. Verðið er svipað og á öðrum hádegisstöðum. Innréttingar eins og í mötuneytum fyrir hálfri öld. Megi gamla Múlakaffi lifa sem lengst.