Gamall og nýr minnisvarði

Punktar

NÝR FORNLEIFAGRÖFTUR hefur leitt í ljós þúsund ára gamlan bæ eða sel í 600 metra hæð við Kárahnjúka. Þar hefur verið sumarbeit fyrir búfénað, þótt slíkt sé óhugsandi nú á tímum í þessari hæð yfir sjávarmáli.

ÁÐUR HAFA FUNDIZT BÆJARSTÆÐI í rúmlega 400 metra hæð yfir sjó. Ekki bara bæjarstæði, heldur líka kolagrafir, sem benda til, að ekki hafi þar bara verið nægir hagar, heldur nógur skógur til að brenna. Kolagrafir hafa líka fundizt í 400 metra hæð á Kili.

ÞESSI FORNLEIFAFUNDUR SEGIR okkur sögu af landkostum, þar sem skógur náði að minnsta kosti 400 metra hæð yfir sjávarmáli og hagar náðu að minnsta kosti 600 metra hæð. Þá hefur Kjölur verið algróinn og Sprengisandur að mestu.

BÆRINN EÐA SELIÐ VIÐ KÁRAHNJÚKA er sennilega Reykjasel, sem kemur fyrir í Hrafnkelssögu. Þessi merkasta heimild um endimörk byggðar á Íslandi í árdaga mannvistar á Íslandi fer undir Hálslón í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

ÞAÐ ER VEL TIL FALLIÐ, að gamli minnisvarðinn um landkosti á Íslandi fyrir þúsund árum hverfi fyrir nýjum minnisvarða um, að þjóðin er enn þann dag í dag að níða niður umhverfið og éta útsæðið, sem henni var gefið í árdaga.

VIÐ ERUM ENN AÐ ÚTRÝMA fögru landi til að hafa í okkur og á. Við erum sú þjóð í Evrópu, sem sízt hefur verið sjálfbær um daga og aldir og sízt er sjálfbær enn þann dag í dag. Við erum kotkarlar nútímans.

DV