G. Westminster

Borgarrölt
Horse Guards, Victoria Memorial, Buckingham Palace, London

Horse Guards, Victoria Memorial, Buckingham Palace

Horse Guards

Við komum okkur fyrir á suðurhorninu, þar sem skrúðgöngugatan The Mall mætir torginu með minnisvarða Viktoríu drottningar fyrir framan Buckingham Palace.

Konunglegur skrautvagn, London

Konunglegur skrautvagn við Buckingham Palace

Klukkan er 10:45 á virkum degi, — og virkum degi með jafnri tölu mánaðardags, ef vetur er. Hér er bezt að vera til að fylgjast með öllu,
miklu frekar en í manngrúanum við hallargirðinguna.

Við notum tímann til að líta í kringum okkur. Til norðvesturs er Green Park. The Mall er til norðausturs. St James´s Park er til austurs. Og Buckingham Palace er að baki minnismerkisins til vesturs. Þar blaktir drottningarfáninn við hún, þegar hún er heima. The Mall er hin hefðbundna skrúð- og sigurgönguleið frá Trafalgar Square til Buckingham Palace, vörðuð glæsilegum trjám og görðum á báða bóga.

Rétt fyrir 11 koma Horse Guards um torgið norðanvert frá Knightsbridge yfir á The Mall. Horse Guards er konunglega riddaraliðssveitin í glæsilegum búningum. Hún ríður hér daglega framhjá á leið sinni að Horse Guards Parade torginu við hinn enda St James´s Park.

Buckingham Palace

Royal Guards, London

Royal Guards

Eftir þessa skrautsýningu virðum við fyrir okkur Buckingham Palace, sem er 19. og 20. aldar stæling á fyrri tíma stíl og hefur verið konungsheimili, síðan Viktoría drottning flutti þangað 1837. Höllin er klædd Portland-steini og er í stíl við minnismerkið og The Mall.

Við höllina eru varðmannaskipti 11:30 alla daga á sumrin og annan hvern dag á veturna. Nokkru fyrir þann tíma koma viðtakandi varðmenn frá Wellington Barracks við Birdcage Walk og við færum okkur til suðurs á stéttinni til að sjá þá betur. Þeir ganga á formlegan hátt, en þó ekki með gæsagangi, undir hljómmiklum mörsum.

St James’s Park

St. James's Park, London

St. James’s Park

Að skrautsýningunni lokinni getum við beðið eftir, að fráfarandi riddaraliðsmenn og hallarverðir komi sömu leiðir til baka, er hinir viðtakandi fóru. Ella getum við gengið um St James’s Park, sem Hinrik 8. lét gera árið 1536. Í austurenda vatnsins í garðinum er Duck Island, þar sem pelikanar, svanir, endur og aðrir fuglar eiga hreiður sín.

Frá brúnni yfir vatnið er ágætt útsýni, bæði til vesturs að Buckingham Palace og austur að Whitehall, þar sem við verðum bráðum.

Næstu skref