Fyrirtækið sem hvarf.

Greinar

Saga Landsvirkjunar og fyrirrennara hennar, Sogsvirkjunar, er einkar athyglisverð. Sagan sýnir, hvernig deild í borgarrekstri getur hafið sjálfstætt líf og síðan endanlega slitið sig úr tengslum við borgina. Þessi saga er ágætt verkefni snjöllum stjórnkerfisfræðingi.

Mjög snemma bar á því, að Reykjavík hefði ekki næga stjórn á Sogsvirkjun. Rekstur fyrsta orkuversins varð ekki deild í borgarrekstrinum á sama hátt og annar rekstur á vegum borgarinnar. Og stjórnarmenn borgarinnar urðu minni máttar gagnvart embættismönnum fyrirtækisins.

Þetta er raunar þekkt lögmál úr stjórnunarfræðum. Smám saman minnka völd eigendanna og völd forstjóranna aukast. Í Sogsvirkjun og síðan Landsvirkjun hafa starfað snjallir forstjórar, sem vitandi eða óafvitandi hafa flýtt þessari þróun.

Ráðamenn þess fyrirtækis, sem einu sinni hét Sogsvirkjun, hafa nú losað sig gersamlega undan áhrifavaldi Reykjavíkur. Þeir hafa náð sér í einkarétt á öllum umtalsverðum rafvirkjunum í landinu. Og þeir hafa meira að segja náð í töluvert sjálfstæði gagnvart ríkinu – svona rétt eins og Seðlabankinn!

Í ljósi þessarar sögu hefur samninganefnd Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun dálítið rétt fyrir sér, þegar hún ber sig illa undan hvassri gagnrýni. Hinn nýi samningur er ekki fyrsta heimska Reykjavíkur í meðferð mála Sogs- og Landsvirkjunar.

Sautjánda grein samnings Reykjavíkur og ríkis frá 1965 um Landsvirkjun var ákaflega óheppileg. En um hana var samið við allt aðrar aðstæður en þær, sem nú ríkja. Og það er raunar lögfræðilegt deiluefni, hvort hún gildi í núverandi deilu.

Þessi grein fjallar um, að þá hafi verið heimilt að taka Laxárvirkjun í félagsskapinn á þann hátt, að ríkið héldi þeim eignarhelmingi, sem það hafði krækt í. Óneitanlega fólst í þessu léleg frammistaða þáverandi borgarfeðra í samningunum.

Hitt er ljóst, að núna, 14 árum síðar, getur Reykjavík leitt fram lögsnillinga til að verja eignarhelming sinn í Landsvirkjun. Þeir hefðu úr jafngóðum kortum að spila og lögsnillingar ríkisins. Þetta hefði verið hægt, ef samningamenn Reykjavíkur hefðu nokkurn áhuga haft á að gæta hagsmuna borgarinnar.

Dálítið er sorglegt, að samninganefndin skuli sérstaklega emja undan því, að Egill Skúli Ingibergsson hafi sérstaklega verið nefndur “persónulega” í gagnrýni Dagblaðsins. Það er eins og samningastörf hans séu einhver einkamál hans. Er þó ekki vitað annað en að hann gegni opinberri stöðu, sem varðar alla Reykvíkinga miklu. Og við erum enn vestan tjalds.

Það getur vel verið rétt, að hinn fávíslegi samningur Egils og fleiri um endanlegan missi Landsvirkjunar leiði ekki til hækkaðs raforkuverðs í Reykjavík á næstunni, enda hefur Dagblaðið ekki haldið slíku fram. En nú vill Dagblaðið herða sína fyrri gagnrýni og spá því, að um síðir muni þessi samningur leiða til hærra raforkuverðs í Reykjavík en ella hefði verið.

Rökin eru þau, að Landsvirkjun snýr sér nú að öllum öðrum verkefnum en þeim að gæta hagsmuna Reykjavíkur. Annars vegar þarf hún að bjarga öðrum sveitarfélögum og hins vegar þarf hún að framkvæma drauma forstjóranna um hrikavirkjanir á hálendinu.

Þá verður það smámál, hvort raforkuverð í Reykjavík hækkar til jöfnunar, hvort rafmagn verði skammtað í Reykjavík til jöfnunar. Og sú skömmtun er raunar þegar yfirvofandi. Það var ekki þetta, sem borgarfeður stefndu að, þegar þeir efndu til Sogsvirkjunar.

Hitt er svo annað mál, eins og Dagblaðið hefur áður sagt, að Landsvirkjun er þjóðinni gott fyrirtæki til átaka á borð við Kröfluvirkjun.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið