Fútúrísk Essensia

Veitingar

Essensia neðst við Hverfisgötu gegnt Arnarhóli er fyrsta dæmið, sem ég sé um vel heppnað þema-matarhús. Allt innihaldið, stórt og smátt, kemur frá Ítalíu í fútúrískum stíl úr silfruðu stáli og speglum. Mjög róttækt, mjög flott, slípuð útgáfa af Mat & drykk og Von. Hákon Már Örvarsson býður í eldhúsinu upp á einfalda nútímamatreiðslu Miðjarðarhafsins. Steinbíturinn var rétt grillaður, borinn fram í undursamlegri sósu með kjúklingabaunum. Fyrstu vikurnar var þjónustan lakari, skafin ómenntuð upp af götunni og sigað á gestina. Nú hefur hún jafnað sig og kann betur til verka. Verð er sanngjarnt i hádeginu, 2.200 krónur fiskréttur dagsins. Eitt af fimm beztu matarhúsum borgarinnar.