Frjálsir stela og drepa

Punktar

Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sérstakt lag á að ofbjóða öllum, sem ekki eru haldnir sama ofstækinu og hann. Þegar blaðamenn spurðu um rán og gripdeildir í þeim borgum Íraks, sem herir nýlenduveldanna hafa náð á sitt vald, yppti hann öxlum og sagði: “Frjálst fólk má gera mistök og fremja glæpi og gera slæma hluti.” Hundruð manna hafa verið drepin í óöldinni undir verndarvæng herja Bandaríkjanna og Bretlands. Flestu verðmætu hefur verið stolið í þessum borgum og ómetanleg verðmæti eins merkasta þjóðminjasafns í heimi eru horfin út í veður og vind. Sjúkleg viðbrögð Rumsfeld eru dæmigerð fyrir stjórnarfarið í Bandaríkjunum þessa dagana. Frá þessu segir Brian Whitaker í Guardian.