Að svo miklu leyti sem ríkisvaldið og heilbrigðisráðuneytið geta ekki haft stjórn á þessum málaflokki koma brestir í þá stefnu, að heilbrigðisþjónusta sé ókeypis fyrir alla. Nú þegar verða menn að borga fyrir lyf, mismunandi mikið eftir flóknu kerfi mismununar. Ef það kerfi væri útvíkkað, mundu menn borga meira fyrir aðra þjónustu, sjúkrahúsvist og uppskurði, ef þeir væru taldir stöndugir. Þá væri haldið í ókeypis þjónustu fyrir þá, sem taldir væru fátækir eftir einhverju flóknu útreikningskerfi, en hinir betur stæðu gætu tryggt sig prívat fyrir sínum aukakostnaði.
