Frétt ársins: Líkið lifir

Greinar

Frétt ársins birtist í Fréttablaðinu í vikunni. Hinn þrautskammaði og örþreytti Reykjavíkurlisti mundi ná meirihluta í borgarstjórnarkosningum, ef þær væru haldnar núna, þótt flokkarnir, sem standa að listanum, mundu kolfalla sjálfir, ef slíkar kosningar væru haldnar núna.

Reykjavíkurlistinn nýtur enn náðar helmings kjósenda, þrátt fyrir mörg og stór mistök á þremur kjörtímabilum; þrátt fyrir augljósan hroka forstjóra, sem hafa verið allt of lengi við völd; þrátt fyrir augljósa þörf lýðræðis fyrir útskiptingu allra valdhafa á fárra kjörtímabila fresti.

Kjósendur í Reykjavík treysta Reykjavíkurlistanum, þótt þeir treysti ekki Samfylkingunni, enn síður Vinstri grænum og alls ekki Framsóknarflokknum eða Frjálslyndum. Þótt búið sé að afskrifa líkið og blása til aðferða við að velja fólk á lista flokkanna, þá lifir líkið enn og ögrar flokkunum.

Margt hefur verið fyrirsjáanlegt í framvindu reykvískra stjórnmála síðustu vikur. Ráðamenn meirihlutans hafa um skeið greinilega verið örmagna í samstarfinu og stefnt beint til sérframboðs. En enginn sá fyrir, að hinn dauði væri sterkari en Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú nálgast völdin.

Mannleg mistök eru hér fyrst og fremst að baki. Forusta Reykjavíkurlistans hefur skort manndóm og úthald. Hún hefur gefizt upp fyrir sefjandi kröfum í röðum flokkanna um styrkleikamælingu í sérframboðum þeirra. Hún hefur gefizt upp á að lægja öldur. Hún er bara ekki nógu hörð af sér.

Ef forustan hefði haft vit á að vinna fyrir mánuði þær skoðanakannanir, sem Fréttablaðið hefur nú unnið, hefðu aðildarflokkar Reykjavíkurlistans horfzt í tæka tíð í augu við staðreynd lífsins: Sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér. Þetta spakmæli er nú komið í ljós, of seint.

Engin leið virðist vera til að vinda ofan af því ferli, sem hafið er innan samstarfsflokka Reykjavíkurlistans. Áfram munu þeir marséra til sjálfsmorðs í kosningunum, færandi Sjálfstæðisflokknum borgina á silfurfati. Þetta er raunar skelfilegt dæmi um botnlaust getuleysi stjórnmálamanna.

Líkið verður ekki grafið upp, þótt það lifi. En ferlið allt er dæmi um, hve mikill hæfileikaskortur ríkir hjá því liði, sem valizt hefur til pólitískrar forustu fyrir okkur.

DV