Geir Hallgrímsson forsætisráðherra tæki áreiðanlega 20 manna þingflokk sjálfstæðismanna án Alberts Guðmundssonar fram yfir 25 manna þingflokk sjálfstæðismanna með Albert innanborðs.
Ýmis atvik síðustu viku benda til, að Geir Hallgrímsson láti jafnan hagsmuni Sjálfstæðisflokksins víkja fyrir hagsmunum flokkseigendafélagsins, hins fámenna hóps, sem mestu ræður í stofnunum flokksins.
Höfuðmál Geirs og flokkseigendafélagsins er að halda tökum á flokknum. Flokkseigendurnir vilja fremur hafa góð tök á litlum flokki en léleg tök á stórum flokki. Staða flokksins í næstu kosningum skiptir flokkseigendurna litlu í samjöfnuði við stöðu þeirra innan flokksins.
Staðfest er, að Geir Hallgrímsson neitaði að koma fram með Albert Guðmundssyni í sjónvarpinu. Hefði þó slík uppákoma stuðlað að trú manna á, að eining ríkti í stórum dráttum í flokknum þrátt fyrir allt.
Eftir prófkjör og skoðanakönnun kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur Geir Hallgrímsson ítrekað þá stefnu Morgunblaðsins, að aronska í varnarmálum komi ekki til greina. Ekkert mark á að taka á vilja fjögurra af hverjum fimm kjósendum flokksins í Reykjavík.
Enn hefur Geir Hallgrímsson ekki ítrekað þá hugsjón sína, að ríkið skuli kaupa Víðishúsið á uppsprengdu verði. En heimildir, sem Dagblaðið telur áreiðanlegar, benda til, að Geir vilji ekkert mark taka á yfirlýstum vilja fjögurra af hverjum fimm kjósendum flokksins í Reykjavík.
Raunar eru fyrirhuguð kaup á Víðishúsinu ágætt dæmi um, hversu langt pólitíkusar telja sig geta gengið gegn almennu siðferði og vilja almennings. Og víst er, að þeir munu telja sér alla spillingarvegi færa, ef þeir komast upp með að kaupa Víðishúsið.
Kjarni málsins er sá, að flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins hefur ekki miklar áhyggjur af því, hvort flokkurinn fær 25, 20 eða 15 þingmenn í þingkosningum næsta árs. Flokkseigendafélaginu nægir alveg, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn nái sameiginlega rúmum meirihluta á þingi, t.d. 34 þingmönnum í stað 40.
Þótt þingmönnum þessara flokka fækki um sex, geta flokkseigendafélög þeirra haldið áfram helmingaskiptastjórn sinni, að minnsta kosti í fjögur ár í viðbót. Þá getur annað flokkseigendafélagð grætt 124 milljónir á einu Víðishúsi í dag og síðan hitt flokkseigendafélagið aðrar 124 milljónir á öðru Víðishúsi á morgun.
Átta ára seta flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins við milljarðakatla ríkissjóðs er félaginu stórmál. Hrun Sjálfstæðisflokksins er félaginu hins vegar minna mál.
Framkoma Geirs Hallgrímssonar eftir ósigur hans og stefnumála hans í prófkjöri og skoðanakönnun Sjálfstæðisflokksins verður aðeins skilin í ljósi framangreindra hagsmuna flokkseigendafélagsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið