Fontur

Frá veginum að Hlíð á Langanesi eftir endilangri strönd Þistilfjarðar út á Font.

Fontur er allhátt bjarg, 50-70 m y.s. Á því stendur viti. Við Font hafa orðið mikil sjóslys, hið síðasta haustið 1907. Þá fórst þar norskt skip á leið frá Jan Mayen með 17 manna áhöfn. Einn skipverja komst á land og hélt lífi. Norðan í bjarginu og stutt frá vitanum er Engelskagjá, rauf í bergið. Áhöfn af ensku skipi, sem strandaði fyrir löngu undir Fontinum, komst í land og klöngraðist upp gjána. Af því dregur hún nafn. En á leiðinni til bæja urðu allir mennirnir úti, örmögnuðust af vosbúð og þreytu nema skipstjórinn einn sem komst lífs af. Stendur enn kross milli bæjanna Skoruvíkur og Skála, þar sem lík mannanna fundust og eru þar grafin.

Byrjum á vegi 869 á norðanverðu Langanesi, þar sem hann liggur frá sjó og upp að bænum Hlíð. Við förum út með ströndinni alla leið norðaustur og austur á Font, yzta enda Langaness. Fyrst um fjöruveg, hjá eyðibýlunum Heiði, Brimnesi og Læknisstöðum. Síðan hefst Skoruvíkurbjarg. Við förum áfram um Skoruvík og alla leið austur á Font. Til baka getum við tekið krók suðvestur á Gjögrahorn, áður en við förum sömu leið til baka.

38,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Eggjahús: N66 23.139 W14 51.130.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Fagarnesskarð, Heiðarfjall, Skálarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort