Punktar

Auðhringar gegn þér

Punktar

Nokkrir auðhringar standa fremst í baráttunni gegn framtíð mannkyns. Það eru einkum Exxon í olíunni, Philip Morris í tóbakinu og Monsanto í erfðabreyttu korni. Þau veita milljörðum til áróðursstofnana á borð við International Policy Network, American Enterprise Institute og Competitive Enterprise Institute. Þær segja loftslagsbreytingar af mannavöldum vera rugl, eitrið í tóbaki vera rugl og skaðsemi erfðabreyttra matvæla vera rugl. Allt eru þetta skoðanir, sem við sjáum yzt á hægri kanti samfélagsins, helzt í Vefþjóðviljanum. Landsvirkjun er af þessari tegund fyrirtækja.

AP í fangelsi

Punktar

Ljósmyndari Associated Press í Írak er dæmi um geðþótta í fangelsunum og illri meðferð fanga hjá Bandaríkjastjórn. Ekki er vitað, að Bilal Hussein hafi gert neitt af sér og engin kæra hefur verið lögð fram á hendur honum. Hann hefur bara setið í fangelsi í fimm mánuði án dóms og laga. Þannig vinnur Bandaríkjastjórn. Hún tekur hvorki mark á bandarísku stjórnarskránni né á stjórnarskrá Sameinuðu þjóðanna. Hún æpir bara “terroristar, terroristar, verið hrædd” og setur blásaklaust fólk inn, án þess að það geti varið hendur sínar. Hjá Bush er geðveikin stjórnarstefna.

Verkfræðingar í sandkassa

Punktar

Í ljósi mikils landrýmis á Reykjavíkursvæðinu er sú árátta verkfræðileg, að byggja hverfi úti í sjó. Verkfræðingar eru enn í sandkassanum, sem við hin þroskuðumst upp úr fyrir mörgum áratugum. Þeim er sérstaklega uppsigað við náttúruna, vilja beygja hana undir vilja sinn. Fáránlegust er þroskahefting verkfræðinga við Kárahnjúka, en hennar sér einnig merki í hitaleiðslum við Kolviðarhól, sem æpa á umhverfið. Verkfræðingur fær fráhvarfseinkenni, ef hann sér mynd af landslagi, þar sem er ekkert mannvirki, ekki einu sinni raflína. Við þurfum að koma upp hæli fyrir langt leidda verkfræðinga.

Byggt fyrir Básendaflóð

Punktar

Trausti Valsson skipulagsfræðingur segir, að varnir gegn sjávarflóðum séu lélegar í Reykjavík, varnargarðar séu meira til skrauts en gagns. Hann segir sjávarborð munu hækka um hálfan til heilan metra á öldinni, auk þess sem stórflóð á borð við Básendaflóðið komi aftur og verði jafnvel tíðari vegna loftslagsbreytinga. Á sama tíma vilja athafnamenn óðir og uppvægir byggja úti í sjó, Þyrping vill reisa nes fyrir Bónus og Hagkaup utan við Eiðistorg og Klasi vill reisa 4.500 manna byggð sunnan við Seltjarnarnes. Manngerðu nesin verða það fyrsta, sem hverfur í næsta Básendaflóði.

Hægri grænir

Punktar

Við þessir fáu hægri menn, sem erum orðnir gáttaðir á fjandskap ríkisins í garð ósnortinna víðerna, eygjum von í, að um átak Ómars Ragnarssonar verði stofnaður hægri grænn flokkur, sem taki höndum saman við aðra, sem vilja stöðva Kárahnjúkavirkjun og önnur landráð á færibandi stjórnvalda. Losa þarf hægri menn úr herkví Framsóknar og byrja nýtt líf, þar sem núverandi kynslóðir viðurkenna, að þær eiga ekki landið. Þær hafa það aðeins til varðveizlu frá fortíðinni til að afhenda það afkomendunum okkar í framtíðinni, án varanlegs tjóns.

Landráðamennirnir

Punktar

Umræðunni um Kárahnjúkavirkjun er lokið með sigri mótherja virkjunarinnar. Aðeins hagsmunaaðilar taka til máls á hinum vængnum, einkum starfsmenn Landsvirkjunar. Fyrsta rothöggið var bók Andra Snæs Magnasonar og síðasta var yfirlýsing Ómars Ragnarssonar. Nú getum við óhrædd kallað landráðamenn alla þá, sem styðja hina einstæðu virkjun. Þeir hafa svikið sitt land, sumir fyrir peninga; sumir fyrir þrá í völd, svo sem Samfylkingin; sumir fyrir eðlislæga undirlægju fyrir yfirstéttinni; sumir fyrir dálæti á ríkisstjórn; sumir vegna byggðastefnu. En allir eru þeir landráðamenn.

Forneskjan lifir

Punktar

Forneskjan lifir góðu lífi í Stóru-Laxárdeild Veiðifélags Árnesinga. Þar hefur í mörg ár verið reynt að fá deildina til að bjóða ána út, í stað þess að stjórnin semji hvað eftir annað við Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Þessar tilraunir hafa ekki borið árangur, nú síðast samþykktu 70% fundarmanna það verð, sem Stangaveiðifélagið lagði til í bréfi frá 11. september. Enn verður því margra ára bið á, að bændur við Stóru-Laxá komist að raun um, hvað sé markaðsverð á laxveiði í ánni. Sem betur fer er forneskja af þessu tagi orðin sjaldgæf í þjóðfélaginu.

Oriana Fallaci

Punktar

Ég hef látið undir höfuð leggjast að minnast Oriana Fallaci, ítölsku fréttakonunnar, sem gerði Henry Kissinger að fífli og spurði Khomeni erkiklerk, hvernig væri að synda í kvenfötum að hætti rétttrúnaðar í Persíu. Fallaci komst tíu ára gömul í kynni við veruleikann, þega hún var vaktmaður lýðræðissinna á Ítalíu á fasistatíma Mussolini. Hún hefur mest og bezt lýst styrjöldum og lætur ekki hjá líða að segja viðmælendum sínum til syndanna, síðast múslimum. Lögreglan í Mexikó skaut hana þremur skotum og dró á hárinu niður kirkjutröppur 1968. Hún lifði samt til 76 ára aldurs.

Hrein sjónvarpslygi

Punktar

Fréttastofan ABC er í vanda út af sjónvarpsþætti um fall tvíburaturnanna á Manhattan. Þátturinn “The Path to 9/11” var saminn af róttækum hægri mönnum, sem kenna Bill Clinton forseta og nokkrum embættismönnum hans um að hafa hindrað varnir turnanna. Fjöldi manns segir fullyrðingar í þættinum vera uppspuna frá rótum. Höfundar þáttarins eru David Cunningham og Cyrus Nowrasteh, sem þekktir eru af kristilegu trúarofstæki. Sjónvarpsstöðin kallar þáttinn “docudrama”. Það er sjónvarpsorðalag um hreina lygi, sem siglir undir fölsku flaggi sagnfræðinnar.

Chomsky selst grimmt

Punktar

Hugo Chávez, lýðræðislega kjörinn forseti Venezuela, er bókmenntalega sinnaður, notar hvert tækifæri til að ota bókum að áheyrendum sínum. Hann mælir með Les Misérables eftir Victor Hugo og Don Quixote eftir Miguel de Cervantes, sem hann lét gefa þjóðinni í milljón eintökum. Nú hefur hann gert Hegemony or Survival eftir Noam Chomsky að metsölubók með því að veifa henni á þingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann kallaði George W. Bush djöfulinn sjálfan. Chomsky hefur skrifað ótal bækur og er frægur í Evrópu fyrir að telja hótanir um ofbeldi vera einu utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Geðþekkar hótanir

Punktar

Pervez Musharraf, harðstjóri Pakistans, sagði í viðtali fyrir helgina, að eftir eyðingu tvíburaturnanna árið 2001 hefðu Bandaríkin hótað Pakistan illu, ef það styddi ekki baráttu Bandaríkjanna gegn Afganistan. Þeir hótuðu að sprengja Pakistan aftur á steinöld, sagði Musharraf, og vísaði til ummæla Richard Armitage, sem þá var aðstoðarutanríkisráðherra hjá George W. Bush. Hvorugur þeirra kannast við neitt og tala eins og Musharraf hafi dreymt þetta. Musharraf sagðist hafa tekið afstöðu með þjóðarhagsmuni Pakistans í huga. Skyldu fleiri viljug ríki vera svona til komin?

Kaþólikkum hafnað

Punktar

Spánn var löngum hornsteinn kaþólskunnar. Þaðan kom Rannsóknarétturinn og þar var kirkjan öflugasti fylgisveinn falangista Francisco Franco. Þar hefur sambúð kirkju og lýðræðis verið erfið með köflum. Nú hafa sósíalistar ríkisstjórnarinnar tilkynnt, að ríkið muni ekki frekar styðja kaþólsku kirkjuna. Hinir trúuðu verða að gera það sjálfir, en skattfrelsi framlaganna hækkar úr 0,5 í 0.7%. Jafnframt hættir kaþólska kirkjan að vera undanþegin virðisaukaskatti. Fer svo ekki að líða að slitum milli íslenzka ríkisins og ættarveldis Sigurbjörns Einarssonar biskups?

Lonelygirl 15

Punktar

Þrjár milljónir manna fylgdust með heimsins leiðinlegasta efni, bloggi og sjálfsmyndum 16 ára stúlku, sem var í heimafangelsi íhaldssamra foreldra. Lonelygirl 15 reyndist vera tilbúningur þriggja bloggara með myndum af 19 ára leikkonu. Hinir göbbuðu eru mjög reiðir, kvarta hundruðum saman, finnst þeir hafa verið sviknir. Við hverju bjuggust þeir, -að allir séu eins heimskir og þeir? Auðvitað er skáldskapur á vefnum eins og í sjónvarpi, til dæmis í raunveruleikaþáttum. Lærisveinar forstjórans Trump eru leikarar, af hverju þá ekki Lonelygirl 15? Veruleiki er bara í hörðustu fréttum.

DiCaprio og De Beers

Punktar

Demantaheildsalar hafa löngum beitt Afríkubúa ofbeldi, fjármagnað fjöldamorðingja álfunnar og upprætt byggðir frumbyggja til að komast yfir demanta. Sumir fræðimenn telja De Beers og aðra demantaheildsala vera helztu uppsprettu hinna pólitísku vandræða í álfunni. Velta demanta í Afríku nam 1560 milljörðum króna í fyrra og fór að miklu leyti í vopnakaup. Nú er að koma bíómynd, þar sem Leonardo DiCaprio leikur málaliða á vegum heildsalanna. Myndin er sögð vera þeim afar andsnúin. De Beers óttast, að hún leiði til minni demantakaupa ríkra vesturlandabúa.

Hringar leigupenna

Punktar

George Monbiot hjá Guardian hefur kannað feril stofnana og leigupenna, sem gæta hagsmuna auðhringsins Exxon í umræðunni um vistkerfi heimsins. Í grein hans á miðvikudaginn var þetta samhengi allt rakið. Inn í það blandast forustumenn trúarofstækishópa, sem vilja fá heimsendi sem allra fyrst. Áróðurinn gegn björgun vistkerfis mannsins tengist líka áróðrinum gegn tóbaksreykingum. Sömu menn og sömu stofnanir eru reiðubúnir málaliðar fyrir þann málstað, sem verstur er hverju sinni. Orðalagið er það sama, hvert sem stríð þeirra er. Málgagnið á Íslandi heitir svo Vefþjóðviljinn.