Punktar

Biðjist afsökunar

Punktar

Stjórnvöld skulda afsökunarbeiðni þeim heiðvirðu borgurum, sem á tímum kalda stríðsins sættu símahlerunum árum saman. Ekkert kom út úr hlerunum, enda var um venjulega borgara að ræða. Það er beinlínis dónalegt hjá Geir H. Haarde forsætisráðherra að þvaðra nú um öryggi ríkisins þá, sem aldrei var stefnt í hættu af þessu fólki. Miklu nær er fyrir hann að biðjast afsökunar fyrir hönd Bjarna Benediktssonar, þáverandi vænissýki-ráðherra, og fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, sem hafði forustu í þessum ofsóknum. Kjartan Ólafsson njósnari? Talið í alvöru.

Gamaldags ISNIC

Punktar

Allir aðilar, sem reglubundið selja mér vörur og þjónustu, koma fram í heimabankanum. Þar sé ég, hvenær ég á að borga síma, tryggingar, rafmagn, netþjónustu, hita. ISNIC er eini aðilinn, sem ekki er í skránni, einokrari, sem lifir á að selja okkur veflén af ættinni .is fjórum eða fimm sinnum dýrar en tíðkast í öðrum löndum. Ekki veit ég, hvers vegna það er einmitt tæknistofnun uppi í Háskóla Íslands, sem er mest gamaldags fyrirtæki á Íslandi og notar enn fax á tíma pappírslausra viðskipta. Sennilega nennir einokrarinn bara ekki. En Samkeppnisstofnun er skylt að líta á verðlagið þar á bæ.

Peningarnir eltir

Punktar

Millibankafyrirtækið Swift skráir millifærslur peninga milli banka og lætur skrárnar leka til CIA. Þetta komst upp fyrr á árinu, en nú eru Evrópusambandið og Bandaríkin að lyfta þessu upp á löglegt plan. Þegar þetta lekur til sérfræðinga, verður lítið prívat eftir í lífi þínu. Vitað er, hvar þú röltir, hvaða símtöl þú áttir, hvaða tölvupóst þú sendir og fékkst, hvert þú flaugst og hvernig þú ráðstafaðir fé þínu. Og genin munu leka frá deCode. Af hverju á þetta að vera einkamál embættismanna og þeirra, sem hafa ráð á að kaupa upplýsingar á svörtum?

34 upplýsingar um þig

Punktar

Bandaríkin og Evrópusambandið eru að gera samkomulag um, að allar þínar flugferðir fari í gagnabanka, þar sem skráðar eru 34 tegundir upplýsinga um þig. Þetta er gert á forsendum baráttunnar gegn glæpamönnum. Þegar bankinn er orðinn til, líður ekki á löngu áður en hann lekur til sérfróðra aðila, sem selja upplýsingar. Þá mun fjöldi manna geta rakið allar þínar ferðir. Þessi gagnasöfnun stríddi gegn lögum Evrópusambandsins, samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins. En nú hafa skriffinnar sambandsins fundið þá afsökun, að þetta sé þáttur í baráttu gegn hryðjuverkum.

Ertu rétt klæddur?

Punktar

Fyrir tveimur áratugum gekk ég mikið um Manhattan og var að skrifa bók um borgina. Þá rakst ég á karlfatabúð við Grand Central, þar sem stóð í glugganum: “Þú ert sextán sinnum á dag í mynd. Ertu rétt klæddur?” Þetta var raunhæft viðhorf í þá daga. Nú ertu örugglega tíu sinnum oftar á dag í mynd. Ég get keypt skrá yfir símtöl milli þín og annarra númera og ég get keypt afrit af öllum þínum tölvupósti og bankafærslum. Líf okkar er opið sérfræðingum, sem selja þekkingu sína. Í ljósi þess er hlægilegt, að Persónuvernd bannar myndavélar á heimavistum. Betra er að opna þetta allt.

Ástand afneitunar

Punktar

Bob Woodward rannsóknablaðamaður gefur út bók um stríðsstefnu George W. Bush Bandaríkjaforseta. Titill hennar segir alla söguna, “State of Denial”. Þar kemur fram, að Bush og menn hans hafi aldrei viljað gera sér neina grein fyrir umfangi stríðsins gegn Írak og hernámi landsins að því loknu. Þar kemur fram, að sambúð hafi verið svo stirð, að Rumsfeld stríðsráðherra hafi neitað að taka símtöl frá Condoleezza Rice. Ennfremur, að yfirmaður bandaríska hersins í austurlöndum hafi sagt, að Rumsfeld njóti einskis trausts í hernum. Í bókinni er fullt af slíkum, safaríkum tilvitnunum.

Fólk hatar hernám

Punktar

Ekkert hlutverk er lýðræðisríki önugra en að reka hernám í fjarlægu landi, þar sem þorri fólks hatar hernámið. Bandaríkin hafa troðið hernámi Afganistans upp á Atlantshafsbandalagið, þar á meðal upp á Ísland. Mikil vandræði stafa af alls konar skilyrðum, sem hernámsríkin hafa sett um, hvernig megi beita hermönnum þeirra. Donald Rumsfeld stríðsráðherra var að verða gráhærður af þessari flækju og leysti málið með því að henda því í Nató. Búast má því við, að óvinsældir bandalagsríkjanna, þar á meðal Íslands, fari vaxandi í heimi múslima.

Ekkert laust pláss

Punktar

Á útidyr betrunarhælis Evrópusambandsins hefur verið sett upp skiltið: “Ekkert laust pláss.” Eftir Rúmeníu og Búlgaríu verða ekki tekin inn fleiri ríki, fyrr en innri mál sambandsins verða löguð og sett upp stjórnarskrá. Balkanríkin, Tyrkland og Úkraína fá ekki að hefja samninga um aðild. Evrópa þarf fyrst að melta Mið-Evrópu, þar sem stjórnarfar er víða svo tæpt, að forsætisráðherra lýgur linnlaust frá morgni til kvölds, að eigin sögn. Því miður var nauðsynlegt að skrúfa fyrir frekari aðild fátækra og spilltra ríkja, sem eiga erfitt með að fara eftir ströngum reglum bandalagsins.

Stöðvum múslima

Punktar

Félagslegur rétttrúnaður er kominn á leiðarenda, þegar Deutsche Oper í Berlkín slær af óperuna Idomeneo eftir Mozart. Þar sjást afskorin höfuð Búdda, Krists, Póseidons og Múhameðs, sem gætu móðgað múslima. Kominn er tími til, að vesturlönd standi í fæturna og neiti að hlusta á kvein múslima um móðganir. Danir standa sig betur en Þjóðverjar. Þar er komin út metsölubók kratahjónanna Karen Jesepersen og Ralf Pittelkow, sem líkja róttækum múslimum við nazista og kommúnista, sem Evrópa þurfi að stöðva. Þau hafna félagslegum rétttrúnaði og vilja þrengja kosti róttækra múslima.

Ofur- og gæðablogg

Punktar

Ég kíki oft á blogg þekktra Íslendinga, en þarf það ekki, því að þar kemur ekkert nýtt fram, sem ekki er í fjölmiðlunum. Gaman er að sjá, hvernig nokkrir kunningjar hópa sig saman hér og þar og kynna hver annan sem ofurbloggara eða gæðabloggara. Ég sé ekkert í textanum, sem réttlætir nafngiftir af slíku tagi. Sumir eru leiðinlega flokkspólitískir, aðrir velta upp spurningum án þess að svara þeim, nokkrir fleyta áfram slúðri. Þeir minna mig á nýjan formann Framsóknar, eru roggnir, þótt sýn þeirra sé eins þröng og hvers annars meðaljóns. Ég kíki á þá af skyldurækni einni.

Smári var felldur

Punktar

Samfylkingarmaðurinn Smári Geirsson er í fremstu röð þeirra, sem hafa rekið landráðastefnu Kárahnjúkavirkjunar. Samfylkingin sá ástæðu til að bjóða hann fram til formennsku í Sambandi sveitarfélaga. Til allrar hamingju var hann felldur með atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Við þurfum því ekki að sjá skúrkinn koma fram fyrir hönd allra sveitarfélaga landsins. Einhver takmörk hljóta að vera fyrir því, hveru gróft er hægt að ögra þjóð, sem er að byrja að átta sig á Kárahnjúkum. Í þessu tilviki þekkti Samfylkingin ekki takmörkin.

Leynisamningurinn

Punktar

Útilokað er að meta varnarsamning, sem enginn fær að sjá. Geir H. Haarde getur ekki kallað hann góðan, því að hann getur ekki sannað það. Mér dettur ekki í hug að hafa orð hans og Jóns Sigurðssonar fyrir því. Ég veit ekki, hvort samningurinn tekur tillit til breyttra aðstæðna, þar sem líkur á innrás hafa nánast horfið, en líkur á hryðjuverkum hafa aukizt lítillega. Andstæðingar hersins geta glaðst yfir skyndilegu brotthvarfi hans, en allir hljóta að efast um leynisamning um öryggi Íslands. Óeðlilegt er, að öryggi okkar sé leyndarmál nokkurra pólitíkusa, sem við treystum alls ekki.

Samfylkingin svíkur

Punktar

Ef grænir listar fá 40% atkvæða í þingkosningunum í vor, mun Samfylkingin taka leiðsögn gegn Kárahnjúkavirkjun. Að öðrum kosti mun hún semja við Sjálfstæðisflokkinn um framhald virkjunarinnar. Fylgi við Samfylkinguna er nákvæmlega ekkert lóð á vogarskál náttúruverndar. Hún sveik landið, þegar Kárahnjúkavirkjun var samþykkt og hún mun svíkja það aftur. Og aftur, af því að slíkt er eðli miðflokka, arfur frá Alþýðuflokknum. Landráðamenn Samfylkingarinnar munu ekki kjósa rétt fyrr en fólkið stillir þeim upp við vegg í kosningum og skipar þeim að gera það.

Kann ekki á plúsinn

Punktar

Flestir virðast sammála um, að um 11.000 manns hafi verið í göngu Ómars Ragnarssonar gegn miðlunarlóni við Kárahnjúka. Fréttablaðið nefnir þá tölu og Morgunblaðið fer heldur hærra. Eins og venjulega er löggan í Reykjavík með miklu lægri tölu. Hingað til hefur verið talið, að henni sé svo illa við mótmæli, að það hindri hana í að telja rétt. Nú er upplýst, að mikið af löggum er svo illa menntað, að yfirmenn þar á bæ telja jaðra við vandræði. Kannski er það skýringin á tölum löggunnar, hún kann bara ekki á plúsinn.

Auðhringar gegn þér

Punktar

Nokkrir auðhringar standa fremst í baráttunni gegn framtíð mannkyns. Það eru einkum Exxon í olíunni, Philip Morris í tóbakinu og Monsanto í erfðabreyttu korni. Þau veita milljörðum til áróðursstofnana á borð við International Policy Network, American Enterprise Institute og Competitive Enterprise Institute. Þær segja loftslagsbreytingar af mannavöldum vera rugl, eitrið í tóbaki vera rugl og skaðsemi erfðabreyttra matvæla vera rugl. Allt eru þetta skoðanir, sem við sjáum yzt á hægri kanti samfélagsins, helzt í Vefþjóðviljanum. Landsvirkjun er af þessari tegund fyrirtækja.