Punktar

Þjóðleikhúsið er dautt

Punktar

Þjóðleikhúsið hefur látið öryggissveit á Selfossi ræna 50 tonnum af hrafntinnu, sjaldgæfum steini í Hrafntinnuskeri. Í skjóli nætur fóru menn úr björgunarsveitinni á Selfossi á sexhjólum til að ræna þessum steini, sem er aðeins til í sáralitlu magni hér á landi. Jafnframt ætlar Þjóðleikhúsið að ræna enn sjaldgæfara silfurbergi austur á fjörðum. Ráðamenn þess virðast telja hús sitt svo merkilegt, að það standi undir ofbeldi gegn náttúru landsins. Ég veit ekki, hvað aðrir segja, en frá og með þessum degi mun ég aldrei í Þjóðleikhúsið koma.

Anna er látin

Punktar

Einn helzti rannsóknablaðamaður heims var skotinn í Moskvu um helgina. Anna Politkovskaja var þekkt fyrir uppljóstranir um ógeðslegan hernað Rússa í Tsjetsjeníu og hafði bakað sér hatur Vladimir Pútín forseta, sem nú hreinsar Georgíumenn úr landinu. Hann ber ábyrgð á morðinu, hefur að minnsta kosti kvartað sáran, eins og Hinrik annar Englandskóngur fyrir morðið á Tómasi Becket erkibiskupi árið 1170. Anna var þekktust fyrir bókina “A Dirty War” og skrif sín í Novaya Gazeta um fórnardýr rússneska hersins. Það er henni að þakka, að við vitum, að Pútín er nýr Stalín. Blessuð sé minning hennar.

Draugurinn er laus

Punktar

Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra segir ríkisstjórnina ekki hafa með frekari orkuver til stóriðju að gera. Hún sé búin að hleypa draugnum lausum og nú sé málið í höndum gráðugra heimamanna, til dæmis á Húsavík og í Skagafirði, þar sem forustumenn Samfylkingarinnar á staðnum taki höndum saman við forustumenn ríkisstjórnarflokkanna um að semja beint við erlend fyrirtæki. Hann orðar þetta ekki svona, en þetta er meiningin í hans texta. Hann telur þetta ekki þeim aðila að kenna, sem sleppti draugnum lausum. Hvort fólkið í landinu kaupir hundalógík ráðherrans er svo önnur saga.

Refur beit kú

Punktar

International Herald Tribune segir frá samstarfi nokkurra bandarískra háskóla við landvarnaráðuneyti Bandaríkjanna um hugbúnað, sem les efni í erlendum fjölmiðlum og mælir andstöðu þess við stefnu Bandaríkjanna. Hugbúnaðurinn fann hættulegan texta um, hvernig refur beit kú í Rúmeníu og eins konar uppljóstrun um, að Bandaríkin séu eina ríkið í heiminum, sem hafi beitt kjarnorkuvopnum. Það vita raunar allir án þess að hafa hugbúnað. En nú má loksins vænta þess, að maður verði númer, komist á blað vestan hafs.

Nató og EBE í stríð

Punktar

Judy Dempsey fjallar í International Herald Tribune um ýfingar milli Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins í stríðsmálum. Bæði samtökin hafa heri á sínum vegum og herstöðvar víða um Evrópu. Atlantshafsbandalagið hefur einnig komið sér fyrir í Afganistan til að létta á Bandaríkjunum, sem hafa farið offari í heimsvaldastefnu. Mörg ríki vilja færa stríðsmál yfir á Evrópusambandið, því að stjórnvöld efast um bandalagið við stríðsæst Bandaríkin, en annars staðar halda menn tryggð við Nató. Um leið er þetta barátta milli sjálfstæðrar Evrópu og Evrópu sem þjóns Bandaríkjanna.

Svindlað á vottun

Punktar

Keðjur stórmarkaða í Bretlandi eru sakaðar um að þrýsta á vottun lífrænna matvæla til að koma fleiri vörum gegnum nálaraugað. Skortur er á lífrænum vörum, því að sala á vottuðum matvælum eykst um 30% ár ári. Einkum pirrar það unnendur lífrænna matvæla, að eldisfiski var hleypt gegnum vottun, þótt sjálfgefið sé, að eldisfiskur er ekki vottunarbær. Hér þekkjast tilraunir Bændasamtakanna til að svindla búvöru upp á fólk á þeim forsendum, að þær séu “vistvænar” eða “sjálfbærar”, þótt ekki séu til neinir alþjóðastaðlar um slíkt. Ef farið er að svindla á lífrænni vottun, er ekki gott í efni.

Hvaða hestaslys?

Punktar

Ég sá á vefnum frétt um, að löggan í Árnessýslu hefði fengið tilkynningar um þrettán slys á hestamönnum um ótiltekinn tíma. Allt vantaði í fréttina. Ekki var nein tímastning á slysunum né samanburður í fjölda við jafnlengd fyrri ára. Ekki var nein sundurgreining á þeim. Voru þeir með hjálm, voru þeir fullir, voru þeir á þjóðvegi, fældust bara hestarnir eða hrösuðu? Það eru rosalega pirrandi fréttirnar, sem vekja fleiri spurningar en þær svara. Einhver rannsóknablaðamaður mætti finna út, hvernig þessi slys voru, svo að ég og aðrir geti lært af því.

Hvaða alfonsar?

Punktar

Ég sá á vefnum frétt um, að vændiskonur leiti skjóls hjá Kvennaathvarfinu fyrir alfonsum sínum. Viðtal var við framkvæmdastýru athvarfsins um málið. Ég hefði viljað vita meira. Hverjir eru alfonsarnir, eru þeir innfæddir eða innfluttir? Hefur lögreglan haft afskipti af þeim eða eru þeir í náðinni eins og fíkniefnasalar? Er þetta kannski löglegur atvinnuvegur? Hvernig er að vera alfons, ég hefði viljað sjá viðtal við einn, eins og Blaðið birti fínt viðtal við geðsjúkling ofan af Akranesi, sem gumaði af 220 km hraða, sagðist bara hafa keyrt á þrisvar í ár og sagði sig vanta kraftmeiri bíl.

Ekkert hveitibrauð

Punktar

Af ráðherrunum nýtur Björn Bjarnason minnstrar hylli samkvæmt skoðanakönnun Gallups, 24%. Fast á hæla honum með 26% kemur hinn nýi formaður Framsóknar, Jón Sigurðsson, sem fær enga hveitibrauðsdaga í því embætti. Engir ráðherrar eru vinsælir, en á toppnum er Geir Haarde með 56% vinsældir. Tveir aðrir ráðherrar ná helmingi atkvæða, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Lélega útkomu fær Valgerður Sverrisdóttir, ráðherra orkuvera, með 27%. Enginn ráðherra getur verið ánægður með útkomu sína í könnuninni og sízt þeir Björn og Jón Sigurðsson.

Flatur vaskur

Punktar

Allir vilja lækka matarverð, flestir með því að lækka vask á mat eða fella hann niður. Það er röng aðferð. Vaskur á að vera jafn á allri vöru og þjónustu, líka mat. Alveg eins og tekjuskattur á að vera jafn á allri tekjuöflun, hvort sem hún stafar af vinnu eða fjármagni. Félagslegu réttlæti má sinna öðruvísi, svo sem ókeypis skólamat og ókeypis leikskóla. Þótt allir Íslendingar teldu, að lækka beri vask á mat eða fella hann niður, væri sú skoðun ekki réttari fyrir það. Félagslegur rétttrúnaður ræður ferð, af því að hann er öflugur, en alls ekki af því að hann sé réttur.

Upp og ofan

Punktar

Strax var ég andvígur ríkisstjórn George W. Bush og Kárahnjúkavirkjun, en almenningsálitið kom löngu síðar. Lengur hef ég beðið eftir áliti fólks á Evrópusambandinu, sem ég hef lengi stutt, og á gegnsæju lýðræði, sem fólk óttast enn. Þannig hefur sumt gengið vel af mínum málum, annað staðið í stað. Verst þykir mér, að heilar stofnanir vinna gegn lýðræði, einkum Persónuvernd og héraðsdómstólar, sem skilja ekki, að skriffinnaveldi er annað en lýðræði. Aðeins algert gegnsæi getur fært okkur lýðræði, til dæmis gegnsæi í meðferð fjármuna í stjórnmálum og fyrirtækjum.

Svona er lífið

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa 68% fylgi samanlagt samkvæmt nýjustu skoðanakönnun. Ef þeir mynda ríkisstjórn í vor eftir kosningar, verður sú stjórn fylgjandi vatnsorkuverum á kostnað náttúruverndar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er alltaf fylgjandi vatnsorkuverum eftir kosningar, þótt hún sé andvíg þeim fyrir kosningar. Samfylkingin bauð helzta ábyrgðarmann Kárahnjúkavirkjunar fram til formanns í Samtökum sveitarfélaga. Næsta misserið mun Samfylkingin tala fagurt um náttúruna, en mun síðan skipta um gír eftir kosningar.

Lélegir í stríði

Punktar

Bandarískir bloggarar segja, að ríkisstjórn George W. Bush sé skipuð mönnum, sem dái stríð, séu lélegir í stríði og beini byssum sínum stundum hver að öðrum. Bók Woodward um afneitun Bush byggist meðal einkum á viðtölum við valdamikla menn, sem skjóta hver á annan og víkja sér undan ábyrgð á styrjöldum við fjarlæg ríki og hruni mannréttinda, sem hafa einkennt einstæðan valdaferil ríkisstjórnarinnar. En hún er hætt að hafa her hér á landi og það skiptir mestu. Við skulum lofa þau örlög kvölds og morgna. Enginn hefur gott af sambúð við ofbeldishneigt heimsveldi.

Óbreytt slysadeild

Punktar

“Nei, það er svo skelfilega leiðinlegt”, sagði hún, þegar ég sagðist fara með hana á slysadeildina í Fossvogi. Þar var allt við það sama, haltir hoppuðu inn í þröngt sund til varnar starfsfólki gegn drykkjuboltum. Fólk ráfaði um á fjórðungi af Bráðavaktarhraða. Ein skildi ekki við sig kaffibollann. Fólk var tekið inn á sjötíu mínútna fresti, sem jafngildir 20 sjúklingum á sólarhring. Spítölsk sjónarmið réðu ferðinni, okkur var ekki sagt neitt, sjúklingar mega bíða endalaust. Hjón gáfust upp í röðinni, ætluðu að prófa í Kópavogi. Þjónusta varð svo góð, þegar hún komst í gang. Fronturinn er hins vegar ekki í lagi. Þarna vantar stjóra úr einkabransanum.

Gamaldags ISNIC

Punktar

Allir aðilar, sem reglubundið selja mér vörur og þjónustu, koma fram í heimabankanum. Þar sé ég, hvenær ég á að borga síma, tryggingar, rafmagn, netþjónustu, hita. ISNIC er eini aðilinn, sem ekki er í skránni, einokrari, sem lifir á að selja okkur veflén af ættinni .is fjórum eða fimm sinnum dýrar en tíðkast í öðrum löndum. Ekki veit ég, hvers vegna það er einmitt tæknistofnun uppi í Háskóla Íslands, sem er mest gamaldags fyrirtæki á Íslandi og notar enn fax á tíma pappírslausra viðskipta. Sennilega nennir einokrarinn bara ekki. En Samkeppnisstofnun er skylt að líta á verðlagið þar á bæ.