Punktar

Nató bjargast ekki

Punktar

Gjáin milli Bandaríkjanna og Evrópu kann að minnka, þegar demókratar komast aftur til valda vestanhafs. En ólíklegt er, að hún minnki svo mikið, að þessi meginöfl fari að líta svipuðum augum á alþjóðamál. Tilraunir til að lífga upp á Atlantshafsbandalagið með meira afli aðildar Evrópu eru dæmdar til að mistakast. Evrópa sér framtíð sína í Evrópusambandinu, þar sem kominn er vísir að sameiginlegum her. Fáránlegt hernám Nató á Afganistan mun fyrr eða síðar leiða til bakslags, sem verður bandalaginu ekki til framdráttar í vörn þess gegn Evrópusambandinu.

Spyrjið sértækt

Punktar

Fjölmiðlar, hjálpið okkur við að velja milli frambjóðenda, sem hrannast upp í prófkosningum haustsins. Ég vil vita, hvaða þingmannsefni vilja stöðva Kárahnjúkavirkjun, hverjir vilja ekki virkja við Villinganes og Skatastaði, hverjir vilji friða Þjórsárver og Langasjó, Brennisteinsfjöll og Torfajökul. Ég bið um skýr svör, en ekki undanbrögð að hætti Samfylkingarinnar. Hætt er við, að sumir, sem fjalla almennum orðum um áhuga sinn á umhverfisvernd og verndun víðerna, verði fótaskortur á tungunni, þegar þeir neyðast til að fjalla um einstaka þætti hins yfirlýsta áhuga.

Pútín má ekki koma

Punktar

Hvaða dauðans rugl er þetta í Ólafi Ragnari Grímssyni að bjóða einum illræmdasta fjöldamorðingja heimsins í opinbera heimsókn til Íslands? Er forseti Íslands genginn af vitinu? Vladimír Pútín Rússlandsforseti er fyrrverandi foringi úr leyniþjónustunni illræmdu, náði völdum á dánarbeði Jeltsíns. Hann hefur leynt og ljóst reynt að draga úr lýðræði í landinu, hefur haldið uppi ógnaröld í Tsjetsjeníu og lætur drepa blaðamenn, nú síðast einn frægasta blaðamann heimsins, Önnu Politkovskaju. Fráleitt er að fá þennan vandræðamann í veizlur með embættismönnum á Íslandi.

Biðstofu-terror

Punktar

Dapurlegt er að vita af Geir Haarde og Valgerði Sverrisdóttur á biðstofu hryðjuverkamanna í Washington. Það er Íslandi niðurlæging, að ráðherrar vafri um höfuðstöðvar terrorista í bið eftir viðtali við hættulegustu ráðamenn heimsins, sem hafa nú síðast látið myrða hálfa milljón manna í Írak. Við eigum ekki að hafa neinn hernaðarsamning við terrorista og ekki vera í stríðsbandalagi með þeim. Við eigum ekki að hafa gervihermenn í Afganistan og alveg láta af fylgisspekt við hið illa veldi heimsins. Blóð mannkyns er því miður á höndum okkar.

Seltjarnarnesið

Punktar

Umhverfisstríð hefur verið háð með hléum á Seltjarnarnesi í meira en áratug. Fyrst var barizt um byggð á Valhúsahæð að tillögu Sjálfstæðis og Framsóknar. Eftir jafntefli þar fluttist stríðið vestur fyrir Nesstofu, þar sem tókst að koma í veg fyrir frekari byggð í fuglagriðlandinu. Nýlega var barizt til sigurs gegn byggð sunnan og austan við Valhúsaskóla. Á þessu ári hefur verið lamin niður hugmynd um byggð úti í sjó við Bakkagranda. Og nú stendur slagurinn um byggð úti í sjó við Eiðisvör, þar sem umhverfisfólk mun sigra, af því að Nesið er því verðmætara sem minna er þar byggt.

Hreinsunareldurinn

Punktar

Mér brá, þegar páfinn afnam hreinsunareldinn. Ég ruglaði honum saman við forgarð helvítis, þar sem Dante Alighieri lætur hýsa gáfumenn heimsins í ritverki sínu Gamanleikurinn helgi. Hreinsunareldurinn eða Purgatorio var bara fyrir þá, sem þurftu að losna við syndir áður en þær kæmust í himnaríki með hörpuslætti og sálmasöng. Í forgarðinum eða Limbo eiga menn hins vegar ekki tímabundna vist, heldur liggja til eilífðar á grænum grundum umhverfis kastala nokkurn og rökræða um áhugaverð efni af ýmsu tagi. Þar ætlaði Dante sér sjálfum vist. Mér létti, þegar ég fattaði, að páfinn afnam ekki Limbo.

Rétt hjá Davíð

Punktar

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri hefur enn rétt fyrir sér, þegar hann gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir óstöðuga hagstjórn. Auðvitað er rangt að lækka vask á völdum vörum, heldur átti að jafna vaskinn yfir línuna, til dæmis í 18% á öllum vörum og allri þjónustu, þar með töldum mat. Og auðvitað er í meira lagi óstöðugt að vera árum saman til skiptis að auka framlög til vegagerðar og draga úr þeim aftur. Aðgerðir stjórnvalda að þessu sinni stafa af hræðslu við kosningar og þáttöku í yfirboðum flokkanna. Eðlilegt er, að Seðlabankinn vari við þessari linkind.

Án karisma

Punktar

Kofi Annan hefur mikla návist og fas sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, en eftirmaður hans hefur það ekki. Ban Ki-Moon frá Suður-Kóreu er alveg sviplaus, hefur ekkert karisma. Hann er ólíklegur til að halda samtökunum á floti í ólgusjó næstu ára. Helztu embættismenn samtakanna óttast, að hann hafi verið valinn, af því að bandaríkjastjórn gat ekki hugsað sér mann með persónuleika hjá samtökunum. Raunar var hann eindregið studdur af illri þrenningu, Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína. Það gefur ekki góðar horfur um framtíðina.

Ríki haturs

Punktar

Í rúman mánuð hafa daglega látizt þrír menn af völdum klasaprengja Ísraels í Líbanon. Friðargæzlusveitir Evrópuríkja reyna að finna sprengjurnar og aftengja þær. Um ein milljón er ófundin enn. Ísrael skaut sprengjunum síðustu daga stríðsins í september, þegar ljóst var, að þær hefðu ekkert hernaðargildi. Engar árangur hafa borið tilraunir til að fá skýringar á mannvonzku Ísraels. Það sætir harðri gagnrýni fjölþjóðlegra samtaka fyrir notkun vopna, sem einkum koma niður á börnum. Ísrael er hatursfullt ofbeldisríki, sem á ekkert erindi í samfélag vestrænna þjóða.

Grein Jóns Baldvins

Punktar

Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði ágæta grein um Ísland og Bandaríkin á leiðaraopnu Morgunblaðsins á mánudaginn. Sjaldgæft er sjá góðar og hnitmiðaðar greinar í dagblöðum og enn síður á vefsíðum. Í greininni fer Jón yfir uppsögn varnarsamningsins og spyr, hvort ljónið og lambið eigi samleið. Hann telur augu bandamanna í Nató vera að að opnast fyrir því, að utanríkisstefna Bandaríkjanna sé í grundvallaratriðum vanhugsuð. Áhrif hennar gangi þvert á yfirlýst markmið. Hún sé orðin hættuleg heimsfriðnum.

Mannamunur gerður

Punktar

Sigurður Kári hefur lagt fram frumvarp um, að menn borgi fyrir meiðyrði sín eftir efnum og ástæðum, væntanlega eftir tekjum í skattskrá. Sigurður Kári borgi þá meira en Björgólfur Thor. Eðlilegt framhald verður, að menn borgi fyrir umferðarlagabrot eftir tekjum, Sigurður Kári meira en Bjögólfur Thor. Næsta skref verður, að menn borgi misháa skattprósentu eftir tekjum, Sigurður Kári 50% og Björgólfur 5%. Mannamunur er nýr í evrópskri löggjöf, ný tegund af sósíalisma. Gott er, að Sigurður Kári taki evrópuforustu í að láta menn borga eins og þeir þola. Og byrji á forríkum blaðamönnum.

Gott að fá Egil

Punktar

Mikill munur er að fá Egil Helgason aftur í hóp þeirra, sem skrifa skoðanir á vefinn. Hann var búinn að vera í allt of löngu hléi í sumar. Ég er að vísu ekki sammála nema helmingnum af því, sem hann segir. En það skiptir engu í samanburði við ágætan stíl hans og skilning á þjóðarsálinni. Góð þótti mér fyrirsögnin Finn Air um kaup Finns Ingólfssonar á Flugleiðum með hjálp guðsmanns Framsóknar í Seðlabankanum. Egill hefur að vísu takmörkuð áhugasvið, en ber höfuð og herðar yfir skjallbandalög á vefnum. Raunar er hann eini vefhöfundurinn, sem ég nenni að lesa að staðaldri.

Ríkið þarf að girða

Punktar

Hæstiréttur hefur ákveðið, að ríkið eigi Hrunaheiðar en ekki kirkjan í Hruna. Það finnst mér fínt, því að auðveldara er að lögsækja ríkið en prestinn fyrir skort á umhirðu um eignina. Landlitlir sauðfjárbændur í Hrunamannahreppi, sem tíma ekki að setja fé á afrétt, hafa sett það á Hrunaheiðar, væntanlega á ábyrgð eigandans. Afréttin er vel girt og sauðfjárhagar eru vel girtir nema þessi eini. Væntanlega verður ríkið núna að girða þessa eign sína, svo að sauðfé haldist annað hvort utan eða innan girðingar á þessu fræga riðusvæði.

Umhverfi Samfylkingarinnar

Punktar

Samfylkingarmenn í Fjarðarbyggð höfðu forustu í kröfu um álver á Reyðarfirði. Samfylkingarmenn í Skagafirði hafa forustu um að heimta orkuver inn á skipulagið. Samfylkingarmenn á Húsavík eru framarlega í kröfum um álver þar í bæ. Þótt forusta flokksins á höfuðborgarsvæðinu hlaupi inn og út í umhverfismálum, sé gegn risastíflum fyrir kosningar og með þeim eftir kosningar, er ljóst, hvar hjarta flokksins slær í þeim byggðum, sem telja sig hafa farið halloka í byggðaþróun. Græðgi heimamanna segir þeim að gefa skít í öll umhverfismál.

Fast við taum

Punktar

Markaðshyggjan er gæðingur, sem hefur fært þjóðum vesturlanda mikla velsæld, en minni hamingju. Umgangast þarf hana með varúð eins og alla gæðinga. Tilraunir til að breiða hana yfir ný svið hafa ekki tekizt nógu vel. Komið hefur í ljós í Bandaríkjunum og Bretlandi, að markaðshyggja á spítölum og í skólum hefur alvarlegar aukaverkanir. Einnig hefur komið í ljós, að græðgi fólks verður svo mikil, að samfélagið bilar í límingunum. Við höfum ekki séð fyrir endann á slíkum vandræðum, en getum svo sem ekki gert mikið annað, en að ríða gæðingnum mjög fast við taum.