Punktar

Íhaldið elskar ríkið

Punktar

Ungir sjálfstæðismenn eru að vonum ósáttir við, að ráðherra flokksins vill efla Ríkisútvarpið á fjölmiðlamarkaði. Slíkt er ekki í samræmi við gamla hugmyndafræði Flokksins, ekki frekar en að efla Símann á símamarkaði. En í þessum tilvikum vill svo til, að Flokkurinn hefur komið sér vel fyrir í ríkisfyrirtækjunum og vill gæta hagsmuna kvígilda sinna. Þess vegna passar ráðherrann upp á Ríkisútvarpið eins og Símann. Hann lítur á útvarpið sem eins konar flokkseign. Ungliðarnir vilja að farið sé eftir stefnuskránni, en ráðherrann fer eftir hagsmunum kvígildanna. Þá víkur stefnuskráin.

Tveir góðir í boði

Punktar

Ellert Schram er kominn í framboð. Ég vann lengi með honum og veit, að hann hefur hjartað á réttum stað, hvalreki á fjörur krata. Mér finnst gott að sjá Illuga Gunnarsson í framboði fyrir íhaldið. Hann hefur lagt sig fram við að reyna að skilja pólitíska andstæðinga og hefur verið opnari fyrir umhverfismálum en hinir steinrunnu frambjóðendur flokksins. Það er leitun að mönnum af þessu tagi. Flestir frambjóðendur eru eins og spýttir út úr Sævari Karli, penir menn með hálsbindi, hafa ekkert að segja og munu í hvívetna greiða atkvæði eins og Flokkurinn skipar. Jafnvel Pétur Blöndal.

Hver étur hvalinn?

Punktar

Hvalveiðar hafa verið leyfðar. Hvalstöðin í Hvalfirði fær ekki uppáskrift heilbrigðisyfirvalda, enda er eins gott, að eftirlit Evrópska efnahagssvæðisins sjái ekki stöðina. Ferðaþjónustan býst við tjóni, ekki bara í hvalaskoðun. Enginn markaður er fyrir kjötið. Japanir hafa með miklum tilkostnaði reynt að fá ungt fólk þar í landi til að borða hval, en ekkert hefur gengið. Íslendingar geta ekki heldur torgað mörgum hvölum. Hvað á þá að gera við veidda hvali, annað en að gleðja þjóðernissinna? Ákvörðun útvegsráðherra um hvalveiðar er rugl í þágu þjóðernisöfga

Traktori ógnað

Punktar

Á Kaldbak er góður traktor, sem nýtist í girðingavinnu og til að hossast í silungsveiði. Laginn maður benti á traktorinn, er kemur honum ekkert við, sem líklega uppsprettu Ríkisútvarpsins til að innheimta afnotagjöld hans ein fimmtán ár aftur í tímann, eins og hjá sænskum ráðherrum. Engin veð hvíla á traktornum. Samt fær hann bréf á tveggja mánaða fresti um uppboð vegna afnotagjalda hins lagna manns. Eftir hvert uppboð fær traktorinn nýtt bréf um nýtt uppboð. Skyldi verklagið nokkuð breytast, þegar útvarpið verður OHF? Þetta hindrar kannski, að ég verði ráðherra í Svíþjóð. Ekki hér.

Enginn vill hlera mig

Punktar

Aldrei hef ég orðið svo frægur, að ég fengi þá flugu í kollinn, að síminn væri hleraður. Enn síður hefur mér dottið í hug, að Bush eða valinkunnir menn teldu sniðugt að skoða tölvupóstinn hjá mér. Ég veit, að hvort tveggja er eins auðvelt og að drekka vatn. En óskaplega hlyti að vera leiðinlegt að hlera það, sem ég segi í síma og mér er sagt í síma eða það sem ég sendi í tölvupósti og fæ í tölvupósti. Ef út kæmi skúbb-bókin: Símtöl og tölvupóstur Jónasar, mundi ekki seljast neitt eintak. Slíkur er munurinn á heldriborgurum og þotuliði á vegum Kidda rót.

Guðmundur er eldflaug

Punktar

Ég les Egil Helgason, sem skrifar vel um þröngt svið, pólitíska framvindu, miklu betur en gamlingi á borð við Steingrím S. Ólafsson. Sú framvinda er mér ekki hugleikin og ég leita ekki frétta í þessu bloggi, bara að skemmtilegu kaffihúsasnakki. Eldflaugin í bloggi þessa daga er hins vegar frjór og mikilvirkur Guðmundur Magnússon endurfæddur. Mér finnst hann fínn, en ég leita ekki frétta þar heldur. Ef skúbb eru einhvers staðar í bloggi Íslendinga um pólitíska framvindu, tek ég ekki eftir þeim, fyrr en þau hafa verið þýdd í dagblað eða ljósvaka.

Skipuleggja flóttann

Punktar

Bandaríkin eru komin á fremsta hlunn með að flýja öngþveiti Íraks og flytja leifar hersins til furstadæmanna við Persaflóa. Jafnframt ætla Bandaríkin að biðja óvini sína, Íran og Sýrland, að hjálpa sér við að losna úr klípunni. Þetta er innihald skýrslu þverpólitískrar nefndar, sem James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra, stýrir á vegum Bandaríkjaforseta. Innihaldið hefur lekið og skýrslan kemur til framkvæmda eftir kosningarnar 7. nóvember. Bandaríkin munu gefast upp, en kalla uppgjöfina öðru nafni. Enda er ástandið í Írak orðið mun verra en á dögum Saddam Hussein.

Opin Bandaríkin

Punktar

Kosturinn við Bandaríkin er, að þar er lýðræði tekið alvarlega og þjóðfélagið haft opið. Nánast daglega les ég góðar fréttir, þar sem fjölmiðlar nota opinn aðgang að skjölum og gagnabönkum til að koma á óvart og bæta samfélagið. Hér er lýðræði bara upp á punt, enda er samfélagið í eðli sínu lokað, eins og embættismennirnir innlendu vildu hafa það, áður en Danir heimtuðu að fólk fengi að kjósa hér á landi. Við virðumst óhrædd um, að embættismenn safni gögnum um okkur, en getum samt ekki hugsað okkur að nágranninn komist í það. Við hugsum eins og þrælarnir í gamla daga.

Gegnsæi á Íslandi

Punktar

Erlendar rannsóknir segja, að margir styðja ekki mikilvægustu þætti lýðræðis, þótt þeir segist styðja lýðræði. Þetta á örugglega líka við Íslendinga, sem ekki börðust fyrir lýðræði, heldur fengu það í hausinn frá Dönum. Til dæmis er hér mörgum illa við gegnsæi, vilja halda skattskrám leyndum, vilja ekki hleypa almenningi í fasteigna- og bifreiðaskrár, vilja ekki opna fjármál flokka og pólitíkusa. Við höfum tvær nefndir, sem passa lykla hins lokaða kerfis, Persónuvernd og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Við fáum ekki einu sinni að fletta ættum annarra á vefnum.

Spiluðu samskiptin

Punktar

Þegar sjónvarpsstöð í New York sagði frá árekstrarhættu milli franskrar og íslenzkrar þotu á Kennedy-flugvelli, spilaði stöðin samtöl flugturns og flugstjóra. Í þessum samtölum kom fram, að Frakkarnir skildu ekki ensku og misskildu skipun flugturnsins, keyrðu þotu sína í veg fyrir þá íslenzku. Ef þetta hefði gerzt á Íslandi hefðu blýantsnagarar kerfisins aldrei leyft sjónvarpsstöð að spila upptökur. Slíkt hefði verið talið “spilla fyrir rannsókn málsins”. Það orðalag er samheiti yfir tregðu kerfisins að gefa upplýsingar í ágreiningsefnum. “Leyndó” er einkunnarorð íslenzka ríkisins.

Leyndó, leyndó, leyndó

Punktar

Flest er leyndó hér á Íslandi. Rafmagnsverð frá Kárahnjúkum er leyndó, þótt það sé umdeildasta orkuverið. Herverndarsamningurinn við Bandaríkin er leyndó, þótt hersetan hafi löngum klofið þjóðina í tvennt. Njósnir um fólk eru leyndó, þótt góðborgarar hafi sætt þeim. Fjárreiður flokkanna eru leyndó af sérísklenzkum ástæðum. Ættir manna aðrar en mínar eigin eru leyndó, þótt ættfræði sé þjóðarsport. Heimdellingar vilja, að skattskráin sé leyndó. Reykingar Bubba eru leyndó, þótt hann hafi flaggað einkalífi sínu mest allra. Engin þjóð er eins mikið fyrir andlýðræðislegt leyndó.

Spá Huntingtons

Punktar

Sagnfræðingurinn Samuel P. Huntington spáði árið 1993, að í uppsiglingu væri uppgjör menningarheima, sem gæti endað með heimsstyrjöld. Sérstaklega benti hann á, að múslímum reynist erfitt að laga sig að öðru fólki, þótt til dæmis Indverjum og Kínverjum og Japönum hafi tekizt það. Vísir að blóðbaði hefur orðið í Bosníu, Kosovo, Tsjetsjeníu, Súdan, Afganistan og Írak. George W. Bush forseti stefnir að blóðbaði í Íran. Ef við tölum ekki í alvöru um vandræðin, sem eru í uppsiglingu, rennum við sjálfkrafa í átt til nýrrar heimsstyrjaldar, milli vesturlanda og múslima.

Næsta hryðjuverk

Punktar

Þegar framið verður næsta hryðjuverk af stærð Atocha-brautarstöðvarinnar í Madrid, mun almenningur í Evrópu snúast hart gegn múslimum. Reiði í garð múslima sýður undir niðri og bíður útrásar. Í skjóli talsmanna svokallaðs alþjóðasamfélags hafa magnazt viðhorf hjá múslimum, sem eru andstæð vestrænu samfélagi. Hefðbundnir flokkar munu tapa fyrir ofstækisflokkum, sem heimta brottrekstur múslima úr Evrópu. Eina leiðin til að koma í veg fyrir slíkt uppgjör er, að ríkisvaldið berji í borðið og segi múslimum, að þeir séu búnir að ganga of langt. Nú verði þeir að laga sig að staðháttum.

Síðbúinn skilningur

Punktar

Evrópa er seint og um síðir að átta sig á, að hluti múslima er nánast alls staðar til vandræða, þar sem þeir setjast að. Þeir neita að laga sig að siðum og háttum landanna. Þeir troða siðfræði trúarbragða karlrembunnar upp á umhverfi sitt, til dæmis með því að myrða dætur sínar. Þeir brenna fána og eftirmyndir óvina sinna og verða brjálaðir, ef gert er grín að þeim. Þeir kveða upp dauðadóma yfir andans mönnum. Þar sem hefðbundnir flokkar hafa trassað að taka á vandanum, hafa risið róttækir flokkar, sem bjóða því miður upp á ofbeldi gegn ofbeldi.

Misþyrming tungumálsins

Punktar

Einu sinni þótti gott að benda á, að geðveiki sé veiki, en ekki ræfildómur. Þá var fólk kallað geðveikt. Í tímans rás fannst félagslegum rétttrúnaði þetta vera neikvætt orð. Hann notar núna orðið geðfatlaður, sem þeim finnst vera hlutlaust. Honum finnst þó nauðsynlegt að benda á, að geðfötlun sé einstök fötlun, öðru vísi en aðrar fatlanir, þar sem geðfötlun geti batnað. Þar með er ljóst, að geðfötlun er ekki fötlun, heldur veiki. Réttrúnaðurinn er fullur af svona misþyrmingum tungumálsins. Bráðum verður talað um geðhefta eða misgeðja og geðfrávik eða geðröskun.