Punktar

Hinn samfelldi kúkur

Punktar

Þótt ferðaþjónusta sé komin yfir þolmörk, er ekkert gert til að efla innviðina. Stofnuð var aðgerðastofa til að sameina krafta margra ráðuneyta til brýnustu aðgerða. Eftir sex mánaða íhugun er niðurstaðan, að of seint sé að reisa nein salerni fyrir sumarið. Þetta verður ár hins samfellda kúks um land allt. Samt fá gististaðir vaskafslátt upp á 10 milljarða á ári. 300 króna gistináttagjald gefur einn milljarð til baka. Ríkið á auðvitað að taka fullan vask af mat og gistingu, skella sér í stórframkvæmdir í innviðum, setja upp þúsund salerni og bílastæði með gjaldmælum. Svo væri bara bónus, ef fjölgun ferðamanna yrði rólegri.

Ofstækisfrumvarpið

Punktar

Illugi Gunnarsson leynir á sér, þótt hann læðist með veggjum. Hugsjónamaður hinnar ofstækisfullu brauðmolastefnu, að hlúa beri að ríkum og draga beri úr stuðningi við fátæka. Virðist lítið nota embættismenn við að semja frumvörp. Vill frekar gera það einn með skoðanabræðrum sínum. Þess vegna er frumvarpið um Lánasjóð námsmanna svona skrítið. Garðabæjarbörn með vasapeninga fá ríkisstyrk til náms, en hinir fátæku eiga að skelfast margföldun vaxta af lánum. Markmið frumvarpsins er ekki að efla menntun, heldur færa fé frá fátækum til ríkra. Það er raunar stefna galinnar stjórnar, en fáir stunda hana af þvílíkri einurð.

Þrívíð pólitík

Punktar

Enn er deilt um vinstri og hægri pólitík eins og hún sé einvíð. Langt er síðan farið var að meta hana tvívíða, annars vegar á samhyggju-sérhyggju ás og hins vegar frelsis-forsjár ás. Raunar er hún margvíð, til dæmis má bæta við ás milli siðblindu og siðsemi. Það kemur til dæmis í ljós, að nánast ekkert samband er milli stefnu og gerða. Sem bófaflokkur er Sjálfstæðis í siðblinduhorninu og sérhyggjuhorninu og anzi nálægt forsjárhorninu. Framsókn er á svipuðum slóðum. Píratar eru fjærst þessu, nálægt siðsemishorninu og samhyggjuhorninu, en deila um, hvar þeir vilji vera á frelsis-forsjár ásnum, líklega nær frelsi en forsjá.

Hatursorðræða mín

Punktar

Nú hyggst Evrópusambandið berjast gegn rasisma eða hatursorðræðu á internetinu. Mér er þó ekki ljóst, hvar rasismi byrjar og hvar hann endar. Er Salman Rushdie rasisti vegna Söngva Satans? Er Jyllandsposten rasisti fyrir að birta skrípó af Múhameð spámanni? Er þá tímaritið Charlie Hebdo rasisti af sömu sökum? Er ég þá rasisti fyrir að gagnrýna ítrekað þöggun sænskrar, danskrar og þýzkrar lögreglu á vandamálum tengdum múslimum? Upp úr áramótum birti ég ítrekað leiðréttingar við rangar fréttir af uppþotum í Þýzkalandi og af ótal hverfum í Svíþjóð, sem löggan þorir ekki að heimsækja. Sumir voru afar ósáttir við þessi skrif mín.

Hæfileikafólki sparkað

Punktar

Ungir nýbúar geta sér frægðar fyrir góða íslenzku og velgengni í prófum. Njóta samt ekki velvildar Útlendingastofnunar, sem rak einn verðlaunahafann úr landi. Stofnunin segist fara eftir Dyflinnarreglum og því, sem hún kallar lög, en eru í raun eigin starfsreglur. Allt túlkað á versta veg fyrir nýbúa. Væri einhver slægur í Ólöfu Nordal innanríkis, kallaði hún Kristínu Völundardóttur forstjóra fyrir. Krefði hana skiljanlegra svara við ásökunum um brot á mannréttindum og skort á almennri siðvitund. Við getum ekki látið embættisbófa reka vel metið og vel menntað fólk úr landi til að flytja í staðinn inn þræla. Er ekki nóg komið?

Löngu og mjóu hótelin

Punktar

Eigendur Reykjahlíðar stefna að löngu og mjóu hóteli, sem á að loka skipulega fyrir einn af beztu útsýnisstöðum vegfarenda við Mývatn. Útsýnið færist frá almenningi til þeirra, sem leigja sér herbergi á okurprís. Þetta var áður reynt við Skógafoss, þar sem landeigendur hugðust byggja langt hótel þvert fyrir fossinn. Meiningin var, að fólk þyrfti að leigja sér herbergi til að sjá einn frægasta foss landsins. Sveitarfélagið lét þar undan þrýstingi almennings og hafnaði hugmyndinni. Vonandi hefur Mývatnssveit reisn til að gera slíkt hið sama. Fjölga mun slíkum tilvikum, þar sem gráðugir reyna að skerða rétt fólks.

Bingi spillti fyrir Davíð

Punktar

Engar marktækar breytingar urðu á fylgi forsetaframbjóðenda við átök og árásir Davíðs Oddssonar í vikunni. Guðni Th. Jóhannesson er áfram með yfir 60% fylgi og Davíð er enn undir 20%. Gamli skítadreifarinn virkar ekki lengur, tími hans er liðinn. Betur tókst til hjá Andra Snæ Magnasyni og Höllu Tómasdóttur, sem ræddu málin af forsetalegri ró og skynsemi. Enda græddu þau fylgi um helgina. Raunar var það Björn Ingi, sem eyðilagði samtal Guðna og Davíðs. Með því að æsa Davíð upp í gömlu froðuna í stað þess að ræða forsetaembættið af ró og skynsemi.

Sameiginlegt þrælahald

Punktar

Verkalýðsfélagið í Keflavík og Kristján Gunnarsson eru dæmi um niðurlægingu stéttarfélaga. Samkrullið með atvinnurekendum er svo náið, að félagið tekur þátt í þrælahaldi IGS, dótturfélags Icelandair. Fluttir eru inn 150 pólskir verkamenn og látnir borga sjöfalda húsaleigu fyrir herbergi hjá IGS á Ásbrú. Félagið fylgist með, að rétt laun séu greidd og sér ekkert athugavert við okur IGS á húsaleigu. Samrekstur atvinnu- og verkalýðsrekenda á lífeyrissjóðum og fyrirtækjum í eigu þeirra hefur gelt verkalýðsfélögin. Icelandair er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða. Hagsmunir atvinnu- og verkalýðsrekenda renna saman.

Bjarni er sér á parti

Punktar

Ríkisstjórnir um öll vesturlönd gera núna atlögu að skattaparadísum. Nú er ekki lengur gefinn kostur á að segja frá undanskoti sínu til að sleppa við álag á skatt. Sá tími er liðinn, þegar nöfnin komust á lista og eru öllum kunn. Nú gildir bara harkan sex. Skattrannsóknastofur hafa samráð um ferlið. Eitt land hefur sérstöðu í hópnum og það er auðvitað Ísland, spilltasta ríki Vesturlanda. Hér er fjármálaráðherra sá eini slíki, sem var með falið fé í skattaskjóli. Einmitt sá sem á að stjórna aðgerðum og verja fé til þeirra. Enda er hann sá eini slíkra, sem framlengdi frest á tilboði um refsileysi. Hér er ríki bófanna.

Fólk elskar bófana

Punktar

Í hverri viku kemur ný hruna af nöfnum aflendinga, sem komu tekjum sínum undan skatti. Næst koma kvótagreifar, sem geta notað hækkun í hafi eins og álgreifar. Þar verða nöfn ýmissa máttarstólpa, sem ákveða líf og dauða sjávarplássa með einfaldri tilfærslu á vinnslu. Þegar eru uppi nöfn formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Þjóðin meðtekur þessa ítrekuðu löðrunga með stóískri ró. Fimmtungur hyggst kjósa helzta hrunvaldinn sem forseta. Fáir telja, að Bjarni Benediktsson þurfi að segja af sér. Þetta er bara vaninn, segir fólk, það er erfitt að eiga fé á Íslandi. Þriðji hver kjósandi vill láta bófana stjórna.

Þjófræði bófanna

Punktar

Þjófræði hófst á Íslandi fyrir alvöru 1991, þegar Davíð Oddsson varð forsætis. Hann gelti eftirlit með peningastofnunum og lagði sumt eftirlit niður. Gerði bankana að glæfrastofnunum fjárhættuspils. Lauk með því að setja Seðlabankann og viðskiptabankana á hausinn haustið 2008. Hrunið fól jafnframt í, að um 100 manns urðu ævintýralega ríkir, fengu ofurlán, fengu þeim skipt yfir í gjaldeyri og földu í skattaparadísum. Eru nú að koma með þýfið til baka með vildarkjörum. Í þessum hópi eru valdamestu menn þjóðarinnar. Þetta hefur allt verið að koma í ljós síðustu vikur. Samt fjölgar stöðugt kjósendum þjófræðis bófaflokksins.

Síðbúin formannaskipti

Punktar

Nýr formaður Samfylkingarinnar verður kjörinn um næstu helgi. Flokkurinn hefur of lengi haft formann, sem kveikir enga elda í hjarta fólks. Mál er að linni. Fjórir frambjóðendur eru í kjöri, yfirleitt ágætis fólk, en ólíklegt til að láta hjörtun slá hraðar. Þarna er því miður enginn Bernie Sanders eða Jeremy Corbyn. Þarna er meira að segja einn Blairisti, ráðgjafi hjá ráðningarfyrirtæki, svo skondið sem það hljómar. Mikið af fylgishruninu er nýlegt. Hefur samkvæmt tölum úr könnunum líklega farið mest til Vinstri grænna. Altjend er Samfylkingunni að blæða út. Eiginlega eru þetta bara fámennar klíkur, sem berjast um völdin.

Óvelkomin vísindi

Punktar

Ekki bara í Hafréttarstofnun er reynt að falsa ritgerðir fræðimanna Íslandi í vil. Landsvirkjun hefur löngum haft sama háttinn á. Tók kunna verðlaunaritgerð Ólafs Arnalds úr skýrslu Sameinuðu þjóðanna í umhverfismálum. Setti í staðinn stafina N/A, sem þýða „not available“. Ritgerðin fjallaði nefnilega um leyndó: „Ástand jarðvegs og gróðurs á Íslandi“. Þegar Kárahnjúkar voru píndir í gegn. Ástralía hefur sömu vísindastefnu, tók allt út um deyjandi kóralrif þar við land. N/A stóð þar. Sama gerði Úkraína eftir Tsjernobyl-kjarnorkuslysið, setti bara N/A. Þetta eru löndin þrjú, þar sem vísindi notast bara eftir þörfum.

Skömmtun á ferðafólki

Ferðir, Punktar

Forstjóri Icelandair er farinn að spá fimm milljónum ferðamanna á ári. Þar með er ljóst, að íslenzka geðveikin hefur tekið völdin. Í þrjú ár hefur ráðherra ferðamála snúizt kringum sjálfa sig með ónothæfan ferðapassa, sem enginn vill. Þrjú ár hafa farið í súginn. Nú síðast segir Business Insider, að Ísland sé einn af tólf ferðastöðum, sem senn geti ekki tekið við fleiri ferðamönnum. Taka verði þar upp skömmtun til að ná jafnvægi. Bezta leiðin til að auka tekjur og fækka ferðamönnum er komugjald og/eða gistináttagjald. Ekki seinna en núna er brýnt að losna við Ragnheiði Elínu og koma þessari skömmtun á um næstu áramót.

Business Insider

Erfið stjórnarmyndun

Punktar

Samkvæmt könnunum líðandi stundar geta Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar einir myndað tveggja flokka ríkisstjórn. Ég sé samt ekki, að þessir flokkar geti náð saman um stjórnarskrá, auðlindarentu, auðlegðarskatt og norræna velferð. Miklu líklegri er þriggja eða fleiri flokka stjórn, annað hvort á grundvelli Pírata eða Sjálfstæðis. Minnihlutastjórn verður erfið, hér búa ekki sáttfúsir Danir. Líklegt er, að slík stjórn verði skipuð einræðisráðherrum hverjum á sínu sviði.  Meðan bófaflokkur hefur yfir 30% fylgi, verða nauðsynlegustu kerfisbreytingar torsóttar. Enda eru gömlu flokkarnir sérfræðingar að láta góðu málin gufa upp.