Punktar

Hringurinn þrengist

Punktar

Smám saman er að koma í ljós, að leyniþjónustur sumra Evrópuríkja hafa vitað um fangaflutninga CIA til pyndingabúða og sumar aðstoðað stofnunina við að grípa menn. Hringurinn þrengist um ýmsa menn, til dæmis yfirmann ítölsku leyniþjónustunnar, sem nú hefur verið opinberlega ákærður. Einnig þrengist hringurinn um flugvallarstjóra, til dæmis yfirmann Prestwick flugvallar í Skotlandi. Einnig hefur Evrópusambandið fundið, að stjórnin í Rúmeníu útvegaði pyndingabúðir. Í sumum ríkjum bunu bönd berast að lögregluráðherrum. Leyniþjónusta á Íslandi mundi lenda í svona ógöngum.

Lásu ekki Hannes

Punktar

Enn ein skýrslan varar við sukki mannsins með gjafir náttúrunnar. Sir Nicholas Stern, fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, fer fyrir hópi vísindamanna, sem segir, að fjárhagslega óbærilegt verði fyrir mannkyn að spyrna við fótum, ef aðgerðir tefjist enn. Ef strax verði farið að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, muni fyrirtæki hins vegar græða. Skýrslan lítur hagfræðilegum augum á vandann. Meðal höfundanna er aðalráðgjafi brezku stjórnarinnar í vísindum, Sir David King. Samkvæmt henni verður strax að minnka útblástur. Höfundarnir hafa ekki lesið Hannes Hólmstein.

600 reiðleiðir

Punktar

Landssamband hestamannafélaga samþykkti samhljóða á landsfundi í gær, að mæla við félagsmenn með reiðleiðasafni mínu á vefnum. Það telur rúmlega 600 reiðleiðir, sumpart leiðir, sem ég og aðrir höfum farið, sumpart leiðir af nýlegum kortum, en mestanpart leiðir upp af aldargömlum kortum danska sjóhersins. Þau eru frábær heimild um samgöngur landsmanna fyrir hundrað árum og sýna ýmsa flokka reiðleiða. Landsþingið hvatti félagsmenn til að senda mér viðbætur og fleiri leiðir, svo að þetta safn megi verða almennt, enda er það aðgengilegt öllum á veraldarvefnum.

“Misskilningur”

Punktar

Björn Ingi Hrafnsson borgarfulltrúi telur andstöðu við ráðagerðir um landfyllingar vera á misskilningi byggðar. Sá er munur á honum og fyrra húsbúnda hans, að Halldór Ásgrímsson taldi sérhverja andstöðu við sjónarmið sín vera á MIKLUM misskilningi byggða. Hvort tveggja er hugtakabrengl hjá þeim félögum. Ef menn segja landfyllingu vera svo vitlausa, að ekki taki því að ræða hana, þá er ekki um misskilning að ræða, heldur um andstöðu við hugmynd. Mér er hulið, hvernig orðið misskilningur getur sí og æ þvælst fyrir í stíl pólitíkusa, raunar fleiri en þessara tveggja.

Helvíti í Írak

Punktar

Saddam Hussein gerði margt ljótt í Írak, en landið breyttist ekki í helvíti fyrr en herir Bandaríkjanna og Bretlands komu til skjalanna með stuðningi stríðsfúsrar ríkisstjórnar Íslands. Um 600.000 þúsund manns hafa verið myrt á valdatíma hernámsins. Stríðsmenn heimsveldanna virðast telja sig vera að vinna hug og hjörtu fólks með því að láta drepa það. Þreytt heimsveldin heimta nú, að forseti Íraks friði landið á 18 mánuðum. Eða hvað? Ætla þau ella að flýja eða frelsa afganginn af þjóðinni með því að drepa hann?

Hleruð sóknarnefnd

Punktar

Nýjasta fréttin af hlerunum hér á landi er, að eiginkona prestsins fræga í Garðasókn hafi notað aðstöðu sína sem aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra til að hlera fundi sóknarnefndar. Við vissum áður af fréttum, að hleranir hafa rásað út um víðan völl, en við heyrðum ekki fyrr, að þær hafi verið stjórnlausar með öllu. Tímabært er, að ráðherrarnir Geir og Grani láti af varnarstríði í þessu máli, viðurkenni þörf á gegnsæi og sætti sig við, að hleranir fyrr og síðar fari í óhlutdræga rannsóknanefnd.

Antoinette nútímans

Punktar

George W. Bush er Marie Antoinette nútímans segir Caroline Weber í International Herald Tribune í tilefni nýrrar bíómyndar um kerlinguna eftir Sofia Coppola. Myndin sýnir ungar konur í endalausum leikjum í Versölum án nokkurs skilnings á, að kóngapakkið var að sliga þjóðina, sem bylti kerfinu og tók hausinn af Antoinette. Hvergi í myndinni sést veruleikinn að baki leikjanna í Versölum, þar sem enginn efast um rétt sinn til að leika sér. Rétt eins og vanhæfur Bush efast ekki um rétt sinn til að leika sér að alþjóðamálum, heyja stríð út og suður og rústa heilu þjóðirnar.

Kjarnorkulekinn

Punktar

Norðurhöfum er vandi á höndum af völdum rússneskra atómskipa, kafbáta og ísbrjóta, sem grotna í Barentshafi. Þar er notuðu eldsneyti er fleygt í sjóinn. Allt líf er horfið úr Andreeva-flóa af völdum kjarnorkunnar. Aldrei mun nokkur fiskur synda þar. Með tímanum með lekinn aukast. Þetta er þekktur vandi, sem kostar fjóra milljarða dollara að leysa. Slíkir peningar eru ekki til í Rússlandi, þar sem auðmenn hafa stolið öllu steini léttara. Þetta er gott dæmi um, að oft ráðast menn í verk, sem hafa ófyrirsjáanleg langtímaáhrif og ólæknanlegan skaða, samanber Kárahnjúka.

Óforbetranlegir

Punktar

Sumum finnst fangelsi vera til refsingar, öðrum finnst það vera til betrunar. Réttast er að telja það vera til brotthvarfs. Hún losar okkur við afbrotamann um tíma. Því verra sem afbrotið er, þeim mun lengur losna menn við hann. Flestir eru óforbetranlegir, lagast ekki með vandamálafræði. Margir ganga lausir, þótt þeir séu hættulegir umhverfinu. Frægasti vandinn er Steingrímur Njálsson, sem fær gefna farsíma hjá vandamálafræðingum til að hrella börn með líflátshótunum. Ekkert þýðir að hringja í lögguna út af manni, sem trúir á Hjálmar Árnason og ætti að sitja inni til lífstíðar.

Fasismaþráður okkar

Punktar

Margir telja fjölmiðlum bera skylda til að skammta aðgang að fréttum og umræðu á þann veg, að óæskilegar skoðanir komi ekki fram, til dæmis ekki stuðningur við neyzlu fíknifefna. Afar skammt er frá þeirri séríslensku skoðun yfir í að telja fjölmiðlum bera skylda til að hindra óæskilegar skoðanir á margvíslegum vandamálum fólks, á þjóðfélagsmálum almennt og á pólitíkinni sjálfri. Sem oftar kemur í ljós stinnur fasismaþráður (Stétt með stétt) með þjóðinni, þar sem öllum er talin bera skylda til að standa vörð við félagslegan réttrúnað hvers tíma.

Hleranamálið stækkar

Punktar

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins njóta ekki trausts til að ná þjóðarsátt um hleranir. Málið stækkar ört. Góðborgarar hafa verið hleraðir holt og bolt, án þess að neitt hafi fundizt. Þeir hafa ekki fengið syndakvittun og ekki verið beðnir afsökunar. Grunsemdir hafa farið á prent um ólögmætar hleranir óskjalfestar, til dæmis í skjóli hlerana í fíkniefnamálum. Ríkið hefur látið brenna njósnagögn, sem þekkist hvergi á siðuðu bóli nema í Bandaríkjunum, þegar Nixon forseti var að hrökklast frá völdum. Boðskapur Geirs og Björns dugar skammt í svona stóru máli.

Úr augsýn – úr minni

Punktar

Handhafar hins opinbera eftirlits með félagslegum réttrúnaði, svo sem biskupinn, eru ekki sáttir við, að einkennileg hegðun drukkinnar músar sé nefnd í samræmdu prófi í íslenzku og að spurt sé þar, hvort í henni felist ofdrykkja eða hófdrykkja. Þeir telja slíkt umræðuefni ekki henta níu ára börnum. Eftirlitsfólk telur happasælla að reyna að fela umræðuefnið, svo að það komi mönnum ekki í hug. Um þetta gildir enska spakmælið: Out of sight, out of mind. Allt væri svo miklu fegurra og ljúfara, ef við gætum bara lokað skilningarvitunum.

Herkostnaður fáokunar

Punktar

Við borgum 7000 krónur á mánuði fyrir rafmagn, því að við niðurgreiðum landníð Landsvirkjunar í þágu áliðnaðar. Við borgum 6000 krónur fyrir hratt ADSL og morð fjár fyrir GPRS vegna fáokunar í símabransanum. Við borgum meira en aðrar þjóðir fyrir mjólkurvörur, kjöt og grænmeti, af því að við höldum úti einokun í vinnslu landbúnaðarafurða. Herkostnaður af óeðlilegum viðskiptum hér á landi er gífurlegur á hvert heimili landsins. Ríkið á að sjá um að koma á samkeppni í stað fáokunar og hafa á meðan eftirlit gegn misnotkun á aðstöðu til einokunar og fáokunar.

Slæða, hetta, gleraugu

Punktar

Slæða íslamskra kvenna er sums staðar bönnuð í Evrópu, í seinni tíð einkum af því að fólki finnst óþægilegt að sjá ekki viðmælendur sína. Því er ekki einfalt að bera slæðuburð saman við krossburð. Skartgripir á borð við krossa fela ekki andlit fólks. Hins vegar má bera slæðurnar saman við hettupeysur ungmenna, sem sums staðar eru bannaðar í verzlunum, því að þær hindra, að þjófar þekkist í öryggismyndavélum. Hugsanlega má einnig bera þær saman við sólgleraugu, sem einnig eru notuð til að leynast. Ljóst er, að nærtækt er fyrir lögbrjóta að leynast undir kufli og slæðum íslams.

Víð túlkun orkuvarga

Punktar

Komið hefur í ljós, að orkumenn túlka rannsóknaleyfi svo vítt, að þeir hefja umfangsmiklar framkvæmdir á slíkum grundvelli og framleiða jafnvel orku til sölu. Rannsóknaleyfi getur því leitt til skemmda á náttúruperlum, sem þá er orðið of seint að verja, er kemur að framkvæmdaleyfi. Orkuveita Reykjavíkur nú að skakast með vegi og borplön um Skarðsmýrarfjall og Hverahlíð, án þess að löglegt framkvæmdaleyfi sé til. Skipulag ríkisins hefur óskað eftir greinargerð um þennan framúrakstur Ölvushrepps og Orkuveitunnar, en hefur engar skýringar fengið. Orkuvargar vaða bara fram.