Punktar

Neo Culpa

Punktar

Sumir af hinum róttæku íhaldsmönnum, neocons, sem hvöttu til innrásar í Írak, sneru við blaðinu í viðtölum í Vanity Fair í gær. Frægastir eru Richard Perle og Kenneth Adelman, áður sérfræðingar stríðsráðuneytisins, en í hópnum eru einnig Michael Rubin og David Frum, sem áður voru háttsettir embættismenn stjórnarinnar. Þeir segja, að hún hafi spilað skelfilega úr innrás og hernámi Íraks. Þeir segja Donald Rumsfeld stríðsráðherra algerlega óhæfan í starfi, en einnig séu allir helztu ráðherrarnir og forsetinn sjálfur óhæfir til starfa. Neo Culpa heitir grein Vanity Fair.

Fáviti í glerinu

Punktar

H.D.S. Greenway segir í Boston Globe, að Bandaríkin hafi ráðist inn í Írak eins og “fáviti” í glervörubúð. Hann viti ekki, hvort hann eigi að hlæja eða gráta út af “ömurlegri” framgöngu Bandaríkjanna. Hann bendir á nýjar bækur, sem segja sömu sögu um algert skilningsleysi ráðamanna Bandaríkjanna á því verkefni, sem þeir tóku sér fyrir hendur og fengu bjána í öðrum löndum til að fylgja, þar á meðal ríkisstjórn Íslands. “Við hefðum ekki stutt innrásina, ef við hefðum vitað um veruleikann,” segir hver ráðherra Íslands á fætur öðrum. Ætla menn svo ekkert að gera með sannleikann?

Búsetan í voða

Punktar

Þessa dagana hrúgast upp skýrslur, sem sýna, að mannkynið er að eyðileggja búsetuskilyrði sín á jörðinni. Út kom skýrsla á vegum brezku stjórnarinnar, önnur á vegum World Wildlife Fund og hin þriðja á vegum Evrópusambandsins. Allar eru þær nokkurn veginn samhljóða, segja loftslagsbreytingar af mannavöldum eins hættulegar og græningjar hafa sagt. Yfirborð hafsins muni hækka og sjór ganga á land, fárviðrum muni fjölga, erfðabreytt matvæli valda vandræðum og hafið verða að sorphaug. Aðeins villtustu frjálshyggjumenn og trúarofstækismenn vefengja þessar viðvaranir.

Sólskin í vestri

Punktar

Sólskinslögin í Bandaríkjunum eru betri en upplýsingalögin hér, að minnsta kosti í framkvæmd, þótt orðalagið sé svipað. Þar eru fé og eignir ekki talin til einkamála. Þar flettir hver sem er í bifreiðaskrám og fasteignaskrám og getur leitað að eignum eftir kennitölum eiganda. Fjölmiðlar eru ókeypis beintengdir slíkum skrám. Því koma fjárglæfrar þar daglega í ljós, en ekki hér. Enda er þar notast við svonefnt lýðræði, en hér ríkir embættaveldi, verndað af Persónuvernd og Úrskurðarnefnd um upplýsingalög. Þar eru fjármál flokka og frambjóðenda öllum opin, en harðlæst hér á landi aumingjanna.

Mótmæla prófkjörspriki

Punktar

Þá er kjaftshöggið komið. Tuttuguogfimm vestræn ríki og Evrópusambandið hafa mótmælt sameiginlega hvalveiðum Íslendinga. Þessu fylgja að vísu engar hótanir um framhaldið, enda er Evrópa friðarálfa. En þetta sýnir pólitíska samstöðu vestrænna ríkja gegn Íslandi í máli þessu. Samstöðu, sem rýrir virðingu Íslands á fjölþjóða vettvangi. Til hvalveiða var stofnað fyrirvaralítið í haust. Það var án samráðs við mikilvæga aðila og án undirbúnings af hálfu ráðuneytis og Hvals. Einar K. Guðfinnsson ráðherra var bara að ná sér í prik á Vesturlandi og Vestfjörðum fyrir prófkjörið.

Andstæðingar flokks

Punktar

Egill Helgason hitti sem oftar naglann á höfuðið, þegar hann vakti athygli á þeim plagsið í Sjálfstæðisflokknum að kalla þá “andstæðinga”, sem styðja ekki flokkinn. Það er eins og flokkurinn sé í styrjöld “à la Bush”, en ekki í pólitík. Þingmaðurinn, sem mest notar orðið “andstæðingar”, er auðvitað Björn Bjarnason, sem hugsar eins og liðþjálfi, vill stofna öryggissveitir og herlögreglu. Hann telur eðlilegt, að þeir, sem hafa verið ósammála honum í pólitík, hafi verið hleraðir, af því að þeir hafi verið hættulegir öryggi ríkisins og séu það kannski enn. Þetta heitir vænisýki á fínu máli.

Rannsóknafréttir

Punktar

Fréttin um kynjamismun í fótboltapeningum fór eins og eldur í sinu um þjóðfélagið. Rannsóknarfrétt Henrys Birgis Gunnarssonar í Fréttablaðinu var pottþétt vel unnin, enda hefur enginn getað dregið tölurnar í efa. Knattspyrnusambandið stóð á gati með framkvæmdastjórann týndan úti í Englandi. Mikill munur er á þessari rannsókn og rannsókn Extrabladet í Kaupmannahöfn á íslenzkum umsvifum þar í bæ. Að svo miklu leyti sem hægt er að skilja fréttirnar, virðast þær ekki segja neitt merkilegt eða nýtt. Eftir stendur ómarkviss rannsókn og rambandi texti hjá Extrabladet, ónýtt fréttamál.

Bretar sjá ljós

Punktar

Brezka ríkisstjórnin hefur áttað sig á, að ódýrara er að grípa núna til aðgerða gegn loftslagsbreytingum, heldur en að rífast við Fiskifélagið, Björn Lomborg og George W. Bush um, hvort það sé brýnt. Þingmenn Íhaldsins þora ekki lengur að tala gegn aðgerðum. Ljóst er, að ný Kyoto-bókun þarf að taka við af hinni fyrri, áður en hún rennur út. Líklega þurfa Bandaríkin að vera með í þessum öðrum áfanga, þau bera ábyrgð á fjórðungi allrar mengunar í heiminum. Einnig þarf þriðji heimurinn að koma til skjalanna, eftir að hafa sloppið billega í fyrsta áfanga. Sjáið tillögu í Guardian.

Í þágu ríkra

Punktar

Fjármagnstekjuskatturinn eykur ójöfnuð í þjóðfélaginu. Ríka fólkið borgar 10% af tekjum sínum í skatt, en launafólk borgar 38%. Lífeyrir fólks, sem er að hluta af sömu rót fjármagnstekna og tekjur ríka fólksins, er skattlagður 38%, þótt tekjur ríka fólksins séu aðeins skattlagðar 10%. Sveitarfélög fá ekkert af tekjum ríka fólksins, aðeins af tekjum launafólks og eftirlaunafólks. Þetta er réttlætið á Íslandi í dag. Í skjóli heimsku og sinnuleysis kjósenda er rekin róttækt hægri sinnuð skattastefna sem hossar ríkum á kostnað fátækra.

Viðkunnanlegri

Punktar

Vegna prófkjörsins verða framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík viðkunnanlegri í vor en þeir voru síðast. Guðlaugur er viðkunnanlegri en Björn, sem var orðinn markaður af þráhyggju, heift og hernaðarbrölti. Guðfinna og Illugi eru viðkunnanlegri en frjálshyggjugaurarnir Sigurður Kári og Birgir. Síðast en ekki sízt er Geir mun viðkunnanlegri en Davíð, sem var búinn að vera of lengi við völd. Kannski leggjast vistkerfsmál skár í flokkinn en áður. Hins vegar er ofmælt, að hlutur kvenna sé merkilegur þarna, sennilega sá lakasti hjá nokkrum flokki hér á landi.

Bush eldri

Punktar

George Bush sagði: “Líf hermanna væri á mína ábyrgð, ef ég bryti fjölþjóðasamninga, … sýndi styrk okkar og færi alla leið til Bagdað. Við mundum verða hernámslið, Bandaríkin í arabísku landi, með enga bandamenn okkur við hlið. Það hefði verið skelfilegt.” Bush eldri sagði þetta árið 1999. Hann lýsir þarna fyrirfram og nákvæmlega verkum sonarins, sem hafa reynzt vera skelfileg. Himinn og haf er milli stjórnarhátta Bush hins eldra, sem var hefðbundinn pólitíkus, og Bush hins yngra, sem er pólitískur bjáni og telur sig vera hendi guðs.

Grænir skattar

Punktar

Þótt grænir skattar á bílum séu háir í mynd benzínverðs, þarf að hækka þá enn frekar til að afla fjár gegn loftslagsbreytingum. Enn brýnna er að leggja græna skatta á flugfarseðla í sama skyni. Nánast allir fræðimenn á sviði loftslags eru orðnir sannfærðir um, að mannkynið sé að stefna vistkerfinu í óefni. Aðeins róttækustu hægri sinnar að hætti George W. Bush spyrna enn við fótum. Grænir skattar verða vafalítið fljótlega teknir upp í Bretlandi, hvort sem kratar eða íhald verða við völd. Íslendingar þurfa fyrr en síðar að feta sömu braut.

Verra en hjá Borat

Punktar

Er Kasakstan eins og Borat lýsir því? Carole Cadwalladr hjá Observer flaug þangað til að kanna, hvort landið sé eins og Sacha Baron Cohen lýsir því í grínmynd sinni. Hún komst að raun um, að þar drekka menn ekki hrossahland, heldur gerjaða hrossamjólk, sem er á bragðið eins og hrossahland. Hún komast að raun um, að þar hata menn ekki gyðinga, heldur er bara illa við þá. Kakan á kaffihúsinu heitir Negri í rjóma. Henni fannst landið nánast skelfilegra en Borat lýsir. Þar ræður ríkjum einræðisherrann Nursultan Nasarbajev, sem hefur komið ógrynni fjár á erlenda bankareikninga.

Engin nýbúastefna

Punktar

Ríkisstjórnin hefur ekki gert ráðstafanir í kjölfar mikils innflutnings útlendinga. Hún hefur enga nothæfa áætlun um íslenzkukennslu og tímir ekki einu sinni að styðja við bakið á Alþjóðahúsi. Hún lætur sér nægja að sofa á öldufaldi hagvaxtar, sem stafar af nýbúum. Hún flýtur sofandi að feigðarósi. Ríkisstjórn með viti mundi veita stórfé til að reyna að laga fólk að íslenzkum staðháttum, tungumáli, siðum og venjum. Hún mundi reyna að hindra aðstæður, sem við höfum séð hvarvetna erlendis að leiða til spennu milli innfæddra og innfluttra.

Miðar á miða ofan

Punktar

Líklega að fyrirmælum Lýðheilsustöðvar eru límdir íslenzkir miðar á bandaríska matvöru, beint ofan á innihaldslýsinguna. Þess vegna sjáum við ekki greinargóða innihaldslýsingu á matnum, heldur mjög svo stytta útgáfu á íslenzku. Við sjáum ekki lengur sykurinnihaldið, svo að við sjáum ekki lengur, að morgunkornið er að hálfu leyti sykur. Við sjáum ekki magnið af mettuðum fitusýrum og ekki heldur magnið af ein-ómettuðum fitusýrum. þarna er unnið gegn uppfræðslu þjóðarinnar um hættulegt innihald matvöru.