Punktar

Skátadrengurinn

Punktar

Ef það á að hengja einhvern vegna Íraks, eru efst á blaði Bush og Blair, Rumsfeld og Rice. Saddam Hussein er skátadrengur í samanburði við þessa stórvirku fjöldamorðingja nútímans, sem hafa beint og óbeint valdið dauða 600.000 manna og lagt efnahag Íraks og Afganistans í rúst. Þetta eru hreinir og tærir óþokkar, meðan Saddam Hussein var bara harðstjóri í gamla stílnum, hefur bara nokkra tugi þúsunda á samvizkunni. Sameiginlegt einkenni fjórmenninganna er stjórnlaus trú á, að guð stýri sverði þeirra og sé þeim til viðtals á hverjum morgni. Þetta var áður kallað geðveiki.

Lömuð önd

Punktar

Bandarískt orðalag yfir stöðu Bandaríkjaforseta eftir kosningarnar er, að hann sé lömuð önd. Demókratar hafa náð fulltrúadeildinni og munu ná tökum á þáttum stjórnsýslunnar. Ef þeir ná öldungadeildinni, verður staða þeirra enn sterkari. Bush mun beita neitunarvaldi gegn ákvörðunum, sem honum líkar ekki. Frumkvæði í stjórnmálum er runnið honum úr greipum, en rennur samt ekki í hendur demókrata. Pattstaða verður í tvö ár í Bandaríkjunum, unz nýr forseti verður kjörinn. Og gleymið ekki þeirri ömurlegu staðreynd, að nærri hálf þjóðin kaus loðfílana.

Lokuð pólitík

Punktar

Gegnsæi þjóðfélagsins eykst ekki, þótt ríkisendurskoðandi fái að skoða bókhald stjórnmálaflokkanna og velji úr því mola til birtingar kjósendum. Slíkt festir bara embættaveldið í sessi. Eins og í flestum vesturlöndum þarf þetta bókhald, svo og bókhald prófkjöra, að vera gegnsætt öllum til að fela í sér lýðræði. Ekki kann góðri lukku að stýra að telja embættismenn vera öðrum æðri. Sú skoðun er frá átjándu öld og á ekki heima þremur öldum síðar. Nefndin, sem komst að þessari niðurstöðu, eykur vald smákóngs í kóngakerfinu og hefur svikið hagsmuni kjósenda.

Afbrigðakantur

Punktar

Ted Haggard sjónvarpsprestur og hommahatari er hættur, bandarískur trúarofstækismaður, sem féll á uppljóstrunum um, að hann hafi lengi notað karlhóru. Fyrir skömmu féll hægri sinnaði þingmaðurinn Mark Foley á fréttum um, að hann ritaði þingsendlum dónalegan tölvupóst. Í gamla daga, þegar íhaldssmenn stjórnuðu Bretlandi, ráku afbrigðin hvert annað. Þar voru nokkrir barnaperrar í bland við trúhneigðan aðstoðarráðherra, sem var með plastpoka yfir hausnum, þegar hann fannst í rúmi gleðikonu. Við róttæka kristni og róttækt hægri virðist vera eitthvað, sem sogar til sín kynórakarla.

DNA fyrir alla

Punktar

Hitt er svo annað mál, að íslenzk lög og lögregla þurfa að taka á glæpum, hvort sem þeir eru stundaðir af innfæddum og nýbúum. Sumir nýbúar lifa á jaðri þjóðfélagsins og standa nær glæpum en almennir borgarar. Á slíku þarf að taka með festu, hvort sem um er að ræða ofbeldi eða þjófnað, fíkniefni eða mansal. Einkum er það löggæzlan, sem ekki stenzt kröfur. Hér ganga t.d. nauðgarar lausir, af því að lögreglan virðist ekki kunna á tækni við slíkar rannsóknir. Kannski þarf að taka DNA-prufur af nýbúum. En þarf ekki að taka DNA-prufur af innfæddum líka?

Allir velkomnir

Punktar

Bann á Búlgara og Rúmena er út í hött. Hvað hafa þeir gert af sér, sem Litháar og Pólverjar eru ekki færir um? Við getum ekki skammtað aðgang að landinu eftir löndum, lit eða trú. Við getum hins vegar lýst yfir, að við viljum ekki, að nýbúar hafni forsendum þjóðfélagsins, til dæmis jafnrétti kynjanna og banni við hryðjuverkum. Þeir einu, sem ekki samþykkja almennt vestræn gildi, eru sumir múslimar. Slíkir eiga ekki að fá að koma til landsins og þeim á að vísa brott, ef þeir neita að samlagast. Að öðru leyti eiga útlendingar að vera velkomnir.

Gegnsæi er lykilorðið

Punktar

Gegnsæi er lykilorð lýðræðis. Við búum við heft lýðræði, því að brugðið er hulu yfir ótal atriði. Fjármál og eignarmál eru flokkuð sem einkamál til að fela svindl. Dæmi um það eru fjármál flokka og frambjóðenda í prófkjöri. Annað dæmi er bifreiðaskrá og fasteignaskrá, þar sem ekki er hægt aða leita eftir kennitölum. Þriðja dæmið er Íslendingabók, þar sem ekki er hægt að rekja ættir annarra. Feluleikur kerfisins er ættaður frá aldagömlu bákni embættismanna, sem starfar leynt og ljóst gegn lýðræði. Þaðan hefur komið persónuverndin, sem bregður huliðshjálmi yfir skúrka samtímans.

Afléttum nafnleynd

Punktar

Við þurfum meira gegnsæi á ótal sviðum, en mest er þörfin á veraldarvefnum. Í skjóli nafnleyndar níðast þar menn á samborgurum sínum. Við þurfum að koma upp reglum, sem skylda vefstjóra að birta skrár yfir tölvur, sem standa að baki hinna ýmsu gervinafna á vefnum. Síðan þarf að vera hægt að rekja eignarhald á þessum tölvum. Löggjafinn hefur sett flóknar reglur um, hvernig fólk megi hafa skoðanir undir fullu nafni, en ekkert aðhald er með hinum geðveiku, sem froðufella margfalt meira undir ýmsum dulnefnum. Við þurfum semsagt að aflétta nafnleynd á birtum skoðunum.

Nafnlausar skoðanir

Punktar

Höfundur veraldarvefsins, Tim Berners-Lee, er haldinn efa. Vefurinn breiðir út meiri lygi en sannleika, segir hann. Raunar segir hann vefinn vera orðinn samkomustað svindlara og lygara. Ef svo fari fram, verði vefurinn gagnslaus. Áður voru fullyrðingar og skoðanir merktar nöfnum manna eða upphafsstöðum, til dæmis í fjölmiðlum á prenti. Fínt er, að menn hafi sérstæðar skoðanir undir nafni. En vefurinn er sneisafullur af nafnlausu fólki, sem ælir á menn og málefni. Eina vörn okkar er að láta lýsa inn í myrkviðinn og birta nöfnin að baki IP talna hinna huglausu felumanna.

Óhófleg bjartsýni

Punktar

Írak spilar litla rullu í evrópskri pólitík um þessar mundir. Varla er minnzt á þetta blóðuga stríð, sem Bandaríkin leiddu yfir saklaust fólk með hjálp ýmissa valdamanna í Evrópu, þar á meðal Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, sem báðir hafa raunar hrakizt frá völdum. Í Evrópu bíða menn almennt eftir valdatöku demókrata í næstu forsetakosningum eftir tvö ár og vilja ekki rugga bátnum mikið á meðan. Jafnvel Chirac í Frakklandi er þögull sem gröfin. Sennilega átta menn sig ekki á, að demókratar munu auka kröfur til Evrópu um að borga fyrir eyðileggingu Íraks á vegum Bush.

Demókratar eins

Punktar

Timothy Garton Ash segir í Guardian, að demókratar í Bandaríkjum telji baráttuna við hryðjuverkamenn þurfa að vera stríð eins og repúblikanar vilja. Í Evrópu vilja menn heldur líta á gagnaðgerðir sem löggæzlu. Þetta er ekki bara einfaldur munur á orðum. Bandaríkjamenn vilja uppræta hryðjuverk með blóðbaði í útlöndum, en uppskera margfaldaðan fjölda terrorista. Í Evrópu reyna menn hins vegar að undirbúa sértækar aðgerðir gegn hugsanlegum hryðjuverkum. Í Bandaríkjunum hneigjast menn heldur að orðalagi dómsdags með eldi og brennisteini.

Hættulegir menn

Punktar

Brezkir kjósendur telja George W. Bush Bandaríkjaforseta vera hættulegri mann en Kim Jong Il, einræðisherra Norður-Kóreu, og Mahmoud Amedinejad, forseta Persíu. Aðeins einn í heiminum er talinn hættulegri en Bush og það er hinn landflótta Osama bin Laden. Aðeins 10% Breta telja Bush vera hættulausan. Þetta var hluti af könnun víða um heim og sýnir hvarvetna sömu niðurstöðu, að Bush er talinn hættulegasti þjóðarleiðtogi í heimi. Alls staðar er alger meirihluti fólks á móti innrásinni í Írak og hernámi þess. Könnunin var ekki gerð á Íslandi, en hefði sýnt sömu niðurstöðu hér.

Eiga þeir ekki börn?

Punktar

Sú framtíð, sem Hannes Hólmsteinn býður okkur, svo og þingmenn á borð við Birgi Ármannsson og Sigurð Kára Kristjánsson er þessi: Er barnabörn okkar verða komin til vits og ára, mun sjórinn ganga á land á Reykjavíkursvæðinu og öðrum kaupstöðum. Fiskistofnar verða þá horfnir og Kárahnjúkavirkjun orðin vatnslaus vegna hvarfs Vatnajökuls. Sífelld fárviðri munu ganga yfir landið og stærsti hluti ríkistekna fer í að reyna að hamla gegn hruni vistkerfis þjóðarinnar. Höfðingjar frjálshyggjunnar hafna viðvörunum um vanda vistkerfisins. Eiga þeir engin börn eða er þeim sama um þau?.

Engin staðfesting

Punktar

Hugsanleg tengsl Björgólfanna við mafíuna í Sankti-Pétursborg og morð á keppinautum þeirra í ölinu þar í borg er ekki ný frétt í Extrabladet. Hún var í brezka blaðinu Guardian fyrir ári og fékk þá umfjöllun í DV. Ekki var þá neitt handfast um tengslin í þessum fréttum, aðeins leiddar að þeim daufar líkur. Fréttin getur verið stór í Extrabladet ári síðar, því að Danir vissu ekkert um þetta hugsanlega samhengi. En hún bætir engu við það, sem áður var sagt um Björgólfana, bjórinn og mafíuna í Sankti-Pétursborg. Spennandi væri hins vegar birting gagna eða viðtala, sem staðfestu gruninn.

Kárahnjúkaflokkur

Punktar

Fréttablaðið leggur lista mikilvægra spurninga fyrir frambjóðendur í prófkjöri stjórnmálaflokkanna. Þar er meðal annars spurt um Kárahnjúka og stækkun álvers í Straumsvík. Athyglisvert er, að helmingur þeirra, sem bjóða sig fram hjá Samfylkingunni, styður orkuverið við Kárahnjúka. Þegar talið hefur verið upp úr kössunum í vor, verður til þingflokkur, sem kann að vera góður í félagslegum vandamálum, en er gersamlega ónýtur til afreka í umhverfisvernd. Svo klofin er Samfylkingin í afstöðu til þess málaflokks, sem heitast mun brenna á þjóðinni næsta áratuginn.