Punktar

Pólitískt skáld

Punktar

Bulent Ecevit er látinn, ljóðskáld og stjórnmálamaður í Tyrklandi, fjórum sinnum forsætisráðherra. Ég man eftir honum á ráðstefnu í Istanbul, lágvöxnum manni með arnarnef og mikið yfirskegg, minnti á austurrískan bókavörð. Hann var ólíkur öðrum pólitíkusum, vitnaði í Bagavad Gita, völuspá Indverja. Hann var að verja málstað Tyrkja á Kýpur og fórst það vel úr hendi, þótt það mál yrði síðar til að fella hann úr sessi. Ecevit drakk te og orti: “Aldna gullöld Eyjahafs / aftur lífgum saman við. / Eins og eldar framtíðar / arnar lifna fortíðar.”

Nýja íhaldið

Punktar

Með falli nýja íhaldsins í Bandaríkjanum er lokið valdaskeiði Paul Wolfowitz, Donald Rumsfeld, Douglas Feith, Scooter Libby, John R. Bolton, Elliott Abrams, James Woolsey, Richard Perle, Robert Kagan og Irvin Kristol. Þessir hugmyndafræðingar og heimsvaldasinnar stjórnuðu krossferð George W. Bush í sex ár og gerðu nýja íhaldið að ókvæðisorði um heim allan. Þetta voru trotskistar nútímans, trúðu á linnulaust stríð við umheiminn. Nú eru þeir snöggt búnir að vera, rúnir öllu trausti. Þeir grófu sína eigin gröf á sex árum. Gæfan hélt með mannkyninu.

Vélrænn réttur

Punktar

Níu sinnum líklegra er, að atkvæði svertingja komist ekki til skila en atkvæði hvítra manna. Fimm sinnum líklegra er, að atkvæði spönskumælandi fólks komist ekki til skila en atkvæði hvítra manna. Þetta segir Electronic Frontier Foundation, sem hefur rannsakað bilanir og villur í kosningavélum í fátækrahverfum. Vélarnar eru í lagi í auðmannahverfum. Milljónir atkvæða fóru forgörðum um daginn, þar á meðal í Virgínu, þar sem munaði mjóu. Sumar vélar hafa ekki pappírsslóð fyrir endurtalningu. Kosningavélar gera atkvæði repúblikana meira virði en atkvæði demókrata.

Indverjar og við

Punktar

Félagslegur rétttrúnaður segir vera ljótt að tala um nýbúa sem vanda, telur það jaðra við rasisma. Samt hefur umræða síðustu daga vakið ríkisstjórnina af værum blundi. Hún ætlar að verja hundrað milljón krónum til að kenna þeim íslenzku. Hún hefði örugglega ekki gert það, ef menn hefðu tekið mark á Jóni í Framsókn, sem sagði þetta ekki umræðuhæft mál. Gaman er, hversu margir hafa skoðun á, hvað sé umræðuhæft. En bezt var að heyra sannleika félagsfræðingsins, sem upplýsti, að víða um heim lenda nýbúar misjafnt í lögbrotum. Einna löglýðnastir eru Indverjar. Við skulum fá fleiri slíka.

Árni og útlendingur

Punktar

Saklaus útlendingur er í auglýsingu sagður styðja framboð Árna Johnsen, sem finnst lygin fyndin. Það er í hans stíl, þar sem veruleiki og skáldskapur renna saman eftir hentugleikum hverju sinni. Auglýsingin og viðbrögð Árna við henni segja okkur, að Árni hefur ekkert breyzt. Síðan hann varðist úr einni lyginni yfir í næstu, þegar hann fór undan í flæmingi vegna misnotkunar á opinberu fé í eigin þágu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið hann í hausinn aftur, því að kjósendur á Suðurlandi gera lítinn mun á sannleika og lygi. Verði þeim að góðu.

Howser og ég

Punktar

Þegar Steingrímur Sigurgeirsson rýnir í veitingastaði, gerir hann boð á undan sér, lætur gefa sér frítt að éta og fær meðferð, sem er allt önnur en þú færð. Þetta eru ágætar greinar, en þú græðir ekkert á þeim. Ég held, að meira sé að marka Hjört Howser, sem kemur öllum að óvörum eins og ég geri, borgar fyrir sig og leyfir sér að lýsa göllum, stundum hressilega. Það líkar mér. Veitingarýni hér er venjulega rugl af ætt almannatengsla, það er að segja af lygi eins og vínkynningar. Erlend veitingarýni af því tagi, sem mark er tekið á, gerir ekki boð á undan sér og borgar sjálf.

Vernda ógeðsvopnið

Punktar

Brezka og bandaríska ríkisstjórnin eru í Genf í liði með Kína og Rússlandi um að koma í veg fyrir bann við klasasprengjum, sem einkum granda óbreyttum borgurum, aðallega börnum að leik. Sprengjurnar hafa enga hernaðarþýðingu en valda miklum harmleik, enda aðeins notaðar af terroristaríkjunum Ísrael og Bandaríkjunum. Bretar og Bandaríkjamenn geta ekki sætt sig við bann við þessum vopnum og eru með her manns á alþjóðafundi í Genf um bann við hefðbundnum vopnum. Þeir reyna að verjast tillögu Svíþjóðar, Austurríkis, Mexikó og Nýja-Sjálands um bann á mesta ógeðsvopni heimsins.

Einu sinni skemmt

Punktar

Los Angeles Times hefur ekki borið sitt barr síðan Mark Willes tók við taumunum af Otis Chandler fyrir áratug. Willes afnam sjálfstæði ritstjórnar og setti upp samstarfsnefndir auglýsingadeildar og ritstjórnar í ýmsum málum. Lesendur sáu gegnum þetta og útbreiðsla blaðsins hrundi úr 1,2 milljónum niður fyrir 0,8 milljónir. Er dæmið gekk ekki upp, var aftur reynt að koma upp hæfri ritstjórn og fá Pulitzer-verðlaun í stíl Washington Post og New York Times. Það dugði ekki og nú hefur Dean Baquet ritstjóri verið látinn hætta við harm starfsliðs. Einu sinni skemmt, aldrei bætt.

Úlfakreppan búin

Punktar

Nýr þingmeirihluti í Bandaríkjunum losar þau úr úlfakreppu róttæklinganna, sem þar hafa verið við völd í sex ár. Donald Rumsfeld er farinn og John R. Bolton er útleið, svo og aðrir fanatíkusar, sem eru í fylkingarbrjósti ofbeldisstefnu Bandaríkjanna. George W. Bush og Dick Cheney hætta eftir tvö ár og neyðast á meðan til að semja við demókrata um mildari stefnu í utanríkismálum og umhverfismálum. Lágmarks mannasiðir verða teknir upp að nýju í samskiptum Bandaríkjanna við umheiminn. Allur heimurinn getur andað léttar, þegar geðveikin hverfur og menn byrja aftur að tala saman.

Banna lærdóm

Punktar

Forstöðukona Námsflokkanna, Björg Árnadóttir, segist hafa tekið eftir, að sumir erlendir karlar banna konum sínum að sækja námskeið í íslenzku. Þetta er angi af vandræðum okkar við að taka við erlendu fólki. Við þurfum að stórauka fjárveitingar til aðlögunar þess, einkum til náms í íslenzku. Við ráðum hins vegar ekki við suma róttæka múslima, sem vilja viðhalda hér þjóðfélagi karlrembunnar, sem þeir þekkja heima fyrir. Við eigum að forðast að flytja inn fólk úr svo framandi heimi. En við eigum hiklaust að fá fólk frá Rúmeníu og Búlgaríu eins og hverjum öðrum venjulegum útlöndum.

Vont samkomulag

Punktar

Í stað þess að henda fleiri ríkispeningum í flokka og frambjóðendur á að veita skattaafslátt af stuðningi einkaaðila við þá. Í stað þess að banna stuðning fyrirtækja við flokka og frambjóðendur á að birta kjósendum fjárreiður þeirra. Í stað þess að leyfa ríkisendurskoðanda að kíkja í bókhald flokka og frambjóðenda á að leyfa kjósendum að kíkja. Ekki er vitað til, að ríkisendurskoðandi hafi nokkurn minnsta áhuga eða skilning á þörfum kjósenda. Hugmyndir þverpólitískrar nefndar um nýtt fyrirkomulag á þessum fjárreiðum leiðir því miður ekki til gegnsæis í pólitískum fjármunum.

Vanvirða lög

Punktar

Fjölmiðlar segja okkur ekki, hvaða fjögur ráðuneyti og hvaða fimm ríkisstofnanir fara ekki eftir stjórnsýslulögum um skráningu og afgreiðslu opinberra mála. Þeir birta ekki viðtöl við ráðuneytisstjóra og forstjóra, þar sem þeir útskýra, hvers vegna bréfabókhald þeirra er í skralli. Þeir birta ekki viðtöl við þá, sem settu reglurnar og ekki við Umboðsmann Alþingis, sem nýlega komst að raun um, að bara eitt ráðuneyti er með sín mál í lagi. Til hvers eru ráðuneytisstjórar? Hvers slags fjölmiðlun er þetta, erum við bara talin vera undirsátar?

Svört Samfylking

Punktar

Ýmsir hafa vakið athygli á, að prófkjör Samfylkingarinnar hafa fært flokkinn nær stórvirkjunum og stóriðju. Efstu menn á listum eru án undantekninga lausir við að mylja undir ósnortin víðerni landsins. Hvað sem einstök þingmannsefni flokksins segja, er Samfylkingin komin með svarta stefnu Framsóknar í umhverfismálum. Þetta sendir kjósendum skýr skilaboð. Þeir, sem vilja vernda náttúru landsins, eiga ekki að líta við Samfylkingunni. Hún er í fyrsta lagi samábyrg flokkum ríkisstjórnarinnar fyrir eyðingu einstæðra náttúrufyrirbæra. Í öðru lagi er hún sannfærð um málstaðinn.

Blár deildarstjóri

Punktar

Deildarstjóri í Seðlabankanum laug sig bláan í framan við fjölmiðla um, að bankinn hefði ekki gefið út gallaðar ávísanir, sem ekki voru teknar gildar í bönkum. Þegar sannanir höfðu hrannast upp, játaði hann mistökin, en baðst ekki afsökunar á lygini. Hann hugsaði bara: “Gengur betur næst”. Þetta er gott dæmi um séríslenzka spillingu, sem mælist ekki hjá Transparency. Seðlabankinn hefur í vinnu lygara, sem tekur enga ábyrgð á orðum sínum og telur lygina bara vera atvinnutæki. Hann er að því leyti svipaður meirihluta þjóðarinnar og er sennilega ekki til vandræða heima hjá sér.

Þið eruð spillt

Punktar

Látið ekki ljúga að ykkur. Íslendingar eru spilltir, þótt þeir láti ekki mútast. Spilling Íslendinga mælist ekki með aðferðum Transparency, lýsir sér í öðru. Hún lýsir sér í sveigjanleika á kostnað staðfestu, félagslegum rétttrúnaði yfir guðs og manna lögum, endalausum útúrsnúningum, Framsókn, undirgefni við hættuleg spakmæli á borð við: Oft má satt kyrrt liggja. Hún er spilling þjóðar, sem aldrei hefur horfzt í augu við breytt þjóðskipulag og lét gefa sér lýðræði að utan. Þetta er hjartahrein spilling, sem fyrr á öldum hélt lífi í örbirgðarfólki, er gaf kóngi hest og fékk borgað fyrir.